Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra opnar Sögusýningu - íslensk grafík í 40 ár 12. nóvember 2009

Sögusýning - íslensk grafík í 40 ár

Það hefur löngum sannað sig að til að listrænt starf nái fótfestu þarf það að vera síkvikt og lifandi, því einungis þannig getur það náð því markmiði sínu að efla þá í listinni sem sinna því, og einnig náð til þeirra sem listin á erindi við til að fræða, skemmta, ögra, upplýsa eða byggja upp til betri hluta í framtíðinni. Listasagan hefur að geyma fjölmörg dæmi þess að listrænt starf hafi dafnað og blómstrað á einum tíma, en síðan hnigið í kjölfarið og legið í dvala um sinn, að því er virðist til þess eins að rísa á ný af endurnýjuðum krafti við nýjar aðstæður. Þannig gengur listin og menningarlífið almennt í gegnum sífellda endurfæðingu, styrkist og eflist til frekari dáða á nýjum tímum.

Grafíklistin á Íslandi hefur gengið í gegnum slíka þróun. Eins og sjá má á lítilli en fallegri sýningu í Þjóðminjasafninu eru til dæmi um myndskreytingar í íslenskum bókum allt frá upphafi prentunar hér á landi, og það er ljóst að ýmsir íslenskir listamenn kynntust galdri grafíkpressunnar í listnámi sínu erlendis. Það var hins vegar ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar sem Guðmundur Einarsson frá Miðdal hélt fyrstu sýninguna á grafíkverkum hér á landi, en hann flutti fyrstu grafíkpressuna til landsins og er gjarna talinn fyrsti grafíklistamaður okkar Íslendinga. Ýmsir aðrir áttu þátt í að færa grafíkina til vegs hér á landi á fjórða áratugnum, og þróunin hefur verið nær óslitin síðan, bæði í gegnum kröftuga tíma sköpunar og ýmsa öldudali.

Félagið Íslensk grafík var fyrst stofnað 1954, en lagðist í dvala um árabil þar til það var endurreist 1969, sem gjarna er minnst sem afmælisárs félagsins. Það hélt merkar afmælissýningar 1979 og 1989, og má segja að grafíklistin á Íslandi hafi notið sérstakrar velgengni á því tímabili. Eins og kemur fram í þessari sýningu hafa öflugir listamenn haldið áfram að vinna í þessum sérstaka listmiðli allt frá stofnun félagsins og hafa sýnt að með honum er hægt að ná að nýta möguleika tækninnar sem er í stöðugri þróun til að skapa einstök listaverk sem kallast á við sinn tíma og eiga fullt erindi á hinn almenna listvettvang.

Sögusýningin sem hér er allt í kringum okkur varpar ljósi á þróun grafíklistarinnar hér á landi síðustu áratugi hvað þetta varðar, og mun henta einkar vel til fræðslu um þennan listmiðil, eins og henni er ætlað. Síðasta laugardag var einnig opnuð sýningin Íslensk grafík 40 ára í Norræna húsinu. Þar er að finna verk þeirra grafíklistamanna hér á landi sem nú vinna í þessum miðli af mestum krafti, og því fá gestir gott tækifæri til að sjá einnig hvað er efst á baugi í dag á þessu sviði. Það er því sannkölluð grafíkveisla framundan.

Ég vil óska öllum félögum í Íslenskri grafík og unnendum grafíklistarinnar til hamingju með 40 ára afmæli félagsins, og er þess fullviss að þessi meiður myndlistarinnar á eftir að halda áfram að dafna og eflast um ókomna tíð.

Ég segi sögusýninguna um íslenska grafík hér með formlega opna.

Takk fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum