Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. mars 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra heldur ræðu á Menntaþingi 2010 - Heildstæð menntun á umbrotatímum 5. mars í Valsheimilinu að Hlíðarenda

Katrín Jakobsdóttir á menntaþingi 5. mars 2010
Katrín Jakobsdóttir á menntaþingi 5. mars 2010

5. mars 2010, Hlíðarendi Reykjavík
Menntaþing - Heildstæð menntun á umbrotatímum

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til skrafs og ráðagerða um mótun framtíðarstefnu í menntamálum. Við erum hér samankomin til að velta fyrir okkur hvernig við tryggjum sem best öflugt skólastarf í landinu þrátt fyrir erfiðar aðstæður í þjóðmálum.

Að byggja upp bjartsýni og velferð í skólunum
Mér finnst við hæfi að hefja tölu mína á því að ræða velferðarmál. Ég leyfi mér að fullyrða að fátt er jafn mikilvægt fyrir þjóð sem þarf að byggja sig upp á ný en öflugt menntakerfi. Árangur í uppbyggingu samfélagsins byggist ekki síst á samstöðu og fagmennsku þeirra sem starfa í skólunum í góðu samstarfi við grenndarsamfélagið. Í nýju menntalögunum frá 2008 er lögð mikil áhersla á almenna velferð nemenda í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, á farsælt skólastarf og öryggi. Nú eru í vinnslu reglugerðir sem eiga m.a. að stuðla að jákvæðum skólabrag, festa í sessi fjölbreytta sérfræðiþjónustu og skapa betri leiðir til að allir nemendur fái notið skólavistar námslega og félagslega með jafnrétti til náms og virka þátttöku að leiðarljósi.

Hvað varðar sérfræðiþjónustuna er í bígerð sú áherslubreyting að lagt verði meira en áður upp úr því að kennarar geti fengið stuðning og ráðgjöf til að bregðast við erfiðleikum sem koma upp í kennslustofunni hvort sem þeir tengjast einstaklingum eða hópum. Þessir erfiðleikar geta verið af ýmsum toga, s.s. einelti og fordómar, eða þættir sem kalla á kennslufræðilega ráðgjöf til að skapa öflugra námssamfélag, meiri vinnugleði eða jákvæðara starfsumhverfi nemenda og kennara. Kreppan hefur skapað aukið álag á starfsfólk og nemendur og nauðsynlegt er að fylgjast náið með þróuninni í skólunum og bregðast við þegar útaf bregður. Mikilvægt er að kennarar finni fyrir miklum stuðningi frá stoðkerfinu og öllum þeim sem koma að skólastarfinu til að ná sem bestum árangri og líða vel í starfi. Þegar allt kemur til alls er það kennarinn í skólastofunni, líðan hans, áhugi og fagmennska sem skiptir sköpum um gæði skólastarfsins. Ég hef með lögum um menntun kennara lagt grunn að öflugri starfsmenntun kennara sem standa á samanburð við það besta sem þekkist. Samtímis þarf að standa vörð um öfluga símenntun kennarastéttarinnar. Góður kennari getur gert kraftaverk. Hann er kjölfestan í menntakerfi okkar.

Þessu til viðbótar hefur verið unnið að ýmsum aðgerðum til að vinna gegn einelti í skólum og forvarnarverkefnum á öllum skólastigum. Velferðarhópur er starfandi í ráðuneytinu sem hefur fylgst náið með þróun mála. Ekki má svo gleyma hlutverki foreldra og mikilvægum stuðningi þeirra til að byggja öflugt skólasamfélag, fylgja eftir velferð nemenda og styðja við faglegt starf í skólum og foreldrar leggja mikið af mörkum í því að halda utan um nemendahópa með margvíslegu foreldrastarfi. Hér á eftir verður málstofa um velferð í skólum þar sem þessi mál verða rædd frekar og ykkur gefst tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum um ákveðnar aðgerðir í því skyni.

Ný löggjöf - nýjar áherslur í námskrá
Annar flötur á innleiðingu menntastefnunnar sem lögfest var árið 2008 felst í að endurskoða þarf aðalnámskrár skólastiganna. Sú vinna er nú að komast á fullt skrið og hef ég nýlega skipað ritnefndir fyrir hvert skólastig sem í sitja fulltrúar ráðuneytisins og sérfræðingar utan þess.

Við endurskoðun aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á m.a. að taka mið af niðurstöðum vinnuhópa sem ég setti upp á síðasta ári til að skilgreina fimm grunnþætti menntakerfisins.

Grunnþættirnir taka mið af áherslum í markmiðsgreinum laganna og eiga að einkenna allt skólastarf; inntak kennslu, námsaðferðir og samskipti í skólunum. Grunnþættirnir eru læsi í víðum skilningi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Í vinnuhópunum sátu sérfræðingar úr háskólum og ráðuneytinu ásamt kennurum af vettvangi skólastarfs. Þessi samsetning hópsins var að mínu mati mikilvæg og afraksturinn góður. Grunnþættirnir eru hugsaðir sem leiðarstef fyrir öll skólastigin um hvernig byggja eigi upp öflugt skólasamfélag og lýsing á hæfni sem hver og einn þarf að búa yfir til að geta lifað og unnið í sátt við sjálfan sig, þróast í og með umhverfi sínu og áttað sig á möguleikum sínum til að bæta lífskilyrði sín og annarra.

Nú vitið þið jafnvel og ég að hugtök eins og lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og skapandi skólastarf eru langt frá því nýjabrum í íslenskum námskrám en þessi hugtök hafa að mínu mati hingað til ekki verið skilgreind nægilega vel eða þeim fylgt eftir í gegnum markmiðssetningu eða innleiðingu á námskrám., þannig að þeir yrðu nægilega virkur þáttur í öllu skólastarfi.

Læsi er heldur ekki nýtt hugtak í skólastarfi, heldur ein elsta námsgreinin í almenningsfræðslunni (næst á eftir kristindómnum!). Læsi öðlast nú víðari merkingu en áður. Upphaflega var einungis átt við ritað mál og færnin fólst í því að geta lesið ritaðan texta, skilið hann og auðgað þekkingu sína. Í seinni tíð hefur framsetning texta breyst sem hefur kallað á meiri gagnrýni og fjölbreyttari greiningarhæfni. Eitt sinn var talið nægilegt að kennarar einbeittu sér fyrst og fremst að hinni tæknilegu hlið lestrarnámsins. Í minni barnæsku var áherslan á lestrarhraða og stafrétta nákvæmni. Slíkar mælingar segja þó fátt um skilning og enn minna um áhuga, innlifun eða gagnrýna athugun. Ný skilgreining á læsi kallar á annars konar kennsluhætti og víðtækara námsmat en áður tíðkaðist og veit ég að margir skólar hafa verið að þróa vinnulag í þessa átt.

Menntun til sjálfbærni er líklega það hugtak sem styst reynsla er af í íslenskum námskrám. Í stuttu máli má segja að sjálfbærni feli í sér einhvers konar jafnvægisástand, að við sinnum þörfum okkar án þess að skerða eigin framtíðarmöguleika eða möguleika komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.

Þótt grunnþættirnir fimm – lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, læsi, menntun til sjálfbærni og skapandi starf – séu settir fram sem einstakir þættir er gert ráð fyrir að þeir tengist innbyrðis með ýmsum hætti í menntun og skólastarfi. Í reynd eru þeir allir nátengdir og innbyrðis háðir.

Þessar áherslur verða kynntar nánar af sérfræðingum ráðuneytisins og ræddar frekar með ykkur í málstofum hér á eftir. Ráðuneytið væntir áframhaldandi góðs samstarfs við hagsmunaaðila skólamála í þessari vinnu. Gert er ráð fyrir að nýjar námskrár verði gefnar út um næstu áramót.

Í framhaldi af þessu er vert að spyrja sig hvernig á að skapa rými fyrir aukna áherslu á þessa þætti. Þróunin síðan 1999 var í rauninni í gagnstæða átt. Fjölda viðmiðunarstunda í skyldunámi hefur fækkað í lykilgreinum, s.s. list- og verkgreinum og íslensku. Það var gert til að skapa meira svigrúm fyrir valgreinar en árið 1999 varð 30% af námi nemenda í 9. og 10. bekk gert valkvætt. List- og verkgreinar voru ekki lengur skyldubundnar í efstu bekkjunum og tímum fækkað í neðri bekkjum (samanlagt 6% rýrnun). Með breytingum á grunnskólalögum 2006 og enn frekar staðfest í nýjum grunnskólalögum 2008 var valið aukið enn frekar þannig að þriðjungur náms í 8.-10. bekk á að verða valkvætt. Ekki fylgdi með útfærsla á því hvaða bundnu stundum átti að fórna til að auka valið. Það var sett í hendur skólanna að þróa það í skólanámskrám. Vitað er að nám í verklegum greinum er gjarna dýrara en hefðbundið bóklegt nám og þegar kreppir að hafa sveitarfélög minna bolmagn til að halda úti slíku námi. Einhverjir nemendur læra nú ekkert í list- eða verkgreinum í 9. og 10. bekk, annað hvort vegna þess að takmarkaður fjöldi kemst í þau valfög, framboð af skornum skammti, eða að þeir telja sig þurfa meiri tíma eða aðstoð í bóklegum fögum sem virðast njóta meiri virðingar og gefa meiri möguleika þegar í framhaldskóla er komið. Sá gríðarlegi fjöldi grunnskólanemenda sem sótt hefur í bóklega framhaldsskólaáfanga segir einnig til um að valið hefur verið nýtt að stórum hluta til frekara bóknáms. Því er ljóst að aukið valfrelsi hefur ekki endilega fært nemendum fjölbreyttari menntun. Ég hef hug á því að fresta þessu aukna vali í nýju lögunum og taka viðmiðunarstundaskrána til sérstakrar athugunar út frá þeim nýju áherslum sem þróaðar hafa verið innan ráðuneytisins á síðustu misserum um aukinn veg skapandi starfs í skólum, meiri áherslu á læsi, lýðræði, jafnrétti og menntun til sjálfbærni. Velta þarf fyrir sér spurningum eins og hvernig hlúð er að list- og verknámi á öllum skólastigum, ekki bara í hinum skilgreindu list- og verkgreinum heldur í öllu almennu námi. Eins þarf að rækta frekar jákvæð viðhorf gagnvart ólíkum hæfileikum og virkni á ólíkum sviðum í skólum landsins.

Ef við ætlum að geta boðið nemendum í framhaldsskólum upp á öflugt nám sem er í tengslum við vettvanginn er mikilvægt að þeir hafi aðgang að fjölbreyttu námsefni og kennurum sem hafa fengið tækifæri til framhaldmenntunar. Í nýrri úttekt Anne Bamford á listmenntun á Íslandi er bent á mikilvægi starfsmenntunar listgreinakennara og aukins samstarfs allra skóla við listamenn og stofnanir og samfélagið í heild.

Þjóðfundir um menntamál
Ég fagna því framtaki að halda þjóðfund um menntamál og hlakka til að heyra hér á eftir nánar frá niðurstöðum, bæði frá Mauraþúfunni sem stóð fyrir sérstökum þjóðfundi um málefni leik- og grunnskólans og svo fulltrúum sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar sem staðið hafa fyrir þjóðfundaherferð út um allt land þar sem m.a. hefur verið rætt um menntamál. Fyrir hrun hefði orðræða af slíkum þjóðfundi væntanlega tengst rekstrarfyrirkomulagi, stöðlum og gæðamælingum til að tryggja samkeppni, ef marka má almenna umræðu í samfélaginu fyrir hrun. Þeir straumar sem voru ráðandi á síðustu árum má lýsa með þremur meginhugtökum: Dreifstýringu, einkarekstri og auknu valfrelsi. Þessar áherslur voru ekki í brennidepli á þjóðfundum um menntamál. Það segir til um miklar breytingar í menntaumræðu samtímans. Á afstöðnum fundum virðast önnur atriði og mannlegar áherslur vera ofar í huga fólks; eins og líðan nemenda, virðing, samskiptahæfni, borgaravitund, sköpunarkraftur og gleði, samfella og inntak menntunar, efling kennaramenntunar og krafa um að þær stoðir menntakerfisins sem hvetja til gagnrýnnar og skapandi hugsunar verði treystar. Það er reyndar ánægjulegt hvað þetta hljómar vel við mínar eigin hugmyndir. Nú eru raddir þjóðarinnar fjölbreyttari og e.t.v. meiri hljómgrunnur fyrir margs konar sjónarmiðum. Á þessum nótum er efnt til þessa málþings.

Námslengd og skil milli skólastiga
Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að skólakerfi eru félagsleg hugsmíði. Þau eru því breytileg eftir samfélögum, tímabilum og menningarheimum. Það kerfi sem við búum við í dag er því ekki náttúrulögmál. Krefjandi viðfangsefni eru framundan í menntun og skólastarfi á þeim umbrotatímum í efnahagsmálum og þjóðlífi sem við nú lifum. Gæta þarf ýtrasta aðhalds og draga saman í fjárveitingum til reksturs skóla á sama tíma og kröfur um góða menntun og þjónustu við nemendur eru síst minni. Breytt menntasýn þjóðarinnar og landslag í fjármálum geta falið í sér tækifæri til gagngerrar endurskipulagningar á skólakerfinu: þessum félagslega veruleika sem við höfum mótað á löngum tíma. Skil milli skólastiga og námstími eru dæmi um atriði sem talsvert hafa verið í umræðunni. Endurskipulagning á þessum þáttum eru til umræðu í málstofu hér í dag þar sem gert er ráð fyrir framlagi ykkar til þessarar umræðu.

Hingað til hafa átakapólar í umræðu um námstíma nemenda einskorðast við styttingu framhaldsskólans eða óbreytt ástand en mikilvægt er að skoða almennt nám frá leikskóla til loka framhaldsskóla í órofa samhengi og með því skapast fleiri möguleikar. Ákveðið var að fá ykkur þátttakendur góðir til að leggja orð í belg og velta fyrir ykkur hugsanlegum möguleikum til að endurskipuleggja kerfið.

Framhaldsskóli fyrir alla – ný lög
Segja má að framhaldsskólinn sé það skólastig þar sem vænta má mestu breytinganna ef marka má menntalögin 2008 og þess vegna er haldin sérstök málstofa um framhaldsskólann. Markmiðið er að auka vægi almennrar menntunar út frá þeim grunnþáttum sem ég hef áður minnst á.

Við þurfum að vanda mjög endurnýjun framhaldsskólans. Það er mjög brýnt að velta fyrir sér hvernig framhaldsskólinn getur þróast þannig að hann þjóni breiðari hópi nemenda. Það er erfitt að lækna brottfall úr framhaldsskólum með lykilorðum eins og fjölbreytni eða fjölgun námsbrauta ef einungis bóknám til stúdentsprófs er talið virðingarvert. Háskólar og samfélagið allt þarfnast nemenda með mjög fjölbreyttan bakgrunn. Í þessu samhengi þarf að meta hvernig alið er á jákvæðum viðhorfum gagnvart ólíkum hæfileikum og virkni á ólíkum sviðum í skólunum.

Margir sem börðust fyrir afnámi samræmdra prófa við lok 10. bekkjar grunnskóla bentu á að þau hefðu þröngvað skólastarf á unglingastigi í einhæfar og bóklegar skorður. Nú hafa þau verið afnumin og því hefur skapast tækifæri til að endurhugsa það gildismat sem hefur verið ráðandi. Í tengslum við námskrárvinnuna er nú í ráðuneytinu unnið að viðmiðum og reglum um mat við lok grunnskóla og leiðbeiningum til kennara og skólastjórnendur um framkvæmd þeirra. Einnig er unnið að breytingum á innritun nemenda í framhaldsskóla með það að markmiði að tryggja öllum nemendum sem útskrifast úr grunnskóla skólavist í framhaldsskólum, t. d. með því að auka skyldur framhaldsskóla til að taka nemendur úr sínu nærsamfélagi og tilraun með forinnritun í apríl. Samstarfsnefnd með hagsmunaaðilum vinnur nú að útfærslunni og þess er vænst að innritun í framhaldsskóla gangi betur í vor en undanfarin ár.

SPARNAÐARHUGMYNDIR
Ríki og sveitarfélög hafa nú þegar gripið til ýmissa ráðstafana á þessu ári og við blasa frekari aðgerðir næstu þrjú árin. Ég legg áherslu á að við allar sparnaðaraðgerðir sé leitað eftir víðtæku samráði og að haft sé að leiðarljósi að ekki sé vegið að gæðum menntunar. Slíkt er ekki einfalt við núverandi kringumstæður. Lykillinn að því að slíkt takist er að samstaða náist um meginlínur í sparnaðaraðgerðum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti mun leggja sitt af mörkum til að eiga gott samstarf við sveitarfélög, skólastjórnendur og kennara og aðra hagsmunaaðila um að skilgreina úrræði sem sátt geti náðst um. Ráðuneytið hefur átt gott samstarf við sveitarfélög um setningu reglugerða við leik- og grunnskólalögin og við að meta kostnaðaráhrif af innleiðingu nýrra laga um leik- og grunnskóla og þróun á nýjum gæðaviðmiðum fyrir þessi skólastig. Skipuð hefur verið ný samstarfsnefnd um málefni leik- og grunnskóla með breiðri aðild hagsmunaaðila sem mun vera vettvangur víðtæks samráðs. Til greina kemur að mynda vinnuhópa um afmarkaðri viðfangsefni sem snerta þessi tvö skólastig.

Í umræðum um breytingar hefur eins og áður sagði komið til tals að endurskoða ákvæði í lögum um enn frekari valvæðingu á unglingastigi grunnskóla og ákvæði um lengingu skólaársins. Eins tel ég æskilegt að skólar nýti alla möguleika í nærsamfélaginu til samstarfs til að geta boðið nemendum upp á aukna fjölbreytni sem gæti nýst sem hluti af skyldunáminu óski foreldrar þess. Einnig vil ég hvetja sveitarfélög að leita eftir aðstoð sjálfboðaliða í skólastarfi, ekki síst með þátttöku foreldra í ýmsum verkefnum en margir telja að foreldrar séu óvirkjuð auðlind í skólastarfi, eldri borgurum eða öðrum áhugasömum, en afar lítil hefð er fyrir slíku hér á landi. Þetta þarf allt að þróa í sátt við skólasamfélagið.

Svo vikið sé að málefnum framhaldsskólans þá hefur ráðuneytið unnið að tillögum vegna samdráttar í fjárframlögum næstu þrjú árin. Á næstu dögum verða þessar tillögur kynntar fulltrúum skólameistara og kennara og þær útfærðar frekar í samráði við þá og aðra hagsmunaaðila. Í meginatriðum taka tillögurnar til þess hvar unnt er að ná fram sparnaði og hvað megi gera til að viðhalda þjónustu og gæðum.

Fjarnám verður tekið til gagngerrar endurskoðunar með það fyrir augum að nýta þau tækifæri sem það býður til að viðhalda námsframboði og gæðum þess. Stuðlað verður að sem nánustu samstarfi milli skóla um rekstur tölvuþjónustu, stjórnun og ýmsa stoðþjónustu. Nefna má að í tengslum við sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2020 er horft til skilgreindra sóknarsvæða sem mögulega má taka mið af varðandi starfsemi framhaldsskóla.

Hægt verður á innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla hvað varðar gildistöku aðalnámskrár sem taka átti að fullu gildi á næsta ári. Einnig verða ákvæði um lengingu skólaárs tekin til endurskoðunar. Hyggst ég beita mér fyrir breytingum á lögum um framhaldsskóla í þessa veru. Þetta þýðir ekki að þróunarstarfi og upptöku nýrra námsbrauta í framhaldsskólum verði hætt. Margir skólar hafa unnið mjög öflugt starf við þróun nýrra námsbrauta. Tveir hafa þegar hafið kennslu á námsbrautum samkvæmt nýjum lögum og aðrir hyggjast fylgja í kjölfarið þegar næsta haust. Ráðuneytið mun innan tíðar skapa vettvang þar sem starfsfólk framhaldsskólanna hittist , ber saman bækur sínar varðandi ólíkar leiðir sem hafa verið þróaðar í ýmsum skólum til að innleiða nýja námskrá. Þar mun gefast tækifæri til að skiptast á skoðunum og læra hvert af öðru Leitast verður við að halda þróunar- og innleiðingarstarfi áfram eftir því sem fjárhagslegt svigrúm leyfir og samkomulag næst um.

Eitt af markmiðum þessarar ráðstefnu er að skapa samkennd og auka samvinnu milli þessara hópa.

Það er von mín að þingið nýtist sem góður vettvangur til að veita upplýsingar um stöðu mála, stilla saman strengi og skiptast á skoðunum um ýmis álitamál.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum