Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

30. ágúst 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur í tilefni útgáfu Kynungarbókar 25. ágúst 2010

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir

Kæru gestir,

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir að koma og fagna með okkur þessum mikilvæga áfanga.

Í ár eru liðin 95 ár síðan konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla og 30 ár frá forsetakjöri frú Vigdísar Finnbogadóttur. Þessum tímamótum í jafnréttissögunni ber að fagna með menntun og upplýsingu fyrir ungt fólk um réttindi sín og ábyrgð á að byggja upp réttlátt samfélag. Árið 1976 voru fyrstu jafnréttislögin samþykkt þar sem kveðið var á um jafnréttisfræðslu í skólum. Þó að liðin séu 34 ár frá setningu laganna er slík fræðsla ekki enn orðin almenn innan skólakerfisins. Kynungabók er hugsuð sem eftirfylgni við lagaákvæði um jafnréttisfræðslu um leið og verið er að framfylgja nýrri menntastefnu þar sem jafnrétti, lýðræði, sjálfbærni, læsi og sköpun eiga að vera í öndvegi í öllu skólastarfi.

Markmið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Í ritinu eru hnitmiðaðar upplýsingar úr rannsóknum, gagnagrunnum, lögum og reglugerðum. Ritið skiptist í sjö kafla sem heita fjölskyldan, vinnumarkaður, skólaganga, fjölmiðlar, heilsa, kynbundið ofbeldi og stjórnkerfi jafnréttismála.

Þrátt fyrir gríðarlegar breytingar í jafnréttisátt á síðustu öld eimir enn eftir af gömlum hugmyndum um kynin. Áhrif þeirra verða útskýrð í þessu riti. Þó að lagalegt jafnrétti hafi komist á með tímanum og margir sigrar unnist er því miður ekki hægt að halda því fram að jafnrétti ríki á Íslandi. Karlar eru til að mynda fleiri í helstu áhrifastöðum landsins og kynbundið launamisrétti er enn landlægt.

Segja má að margs konar orsakir liggi að baki kynjamisrétti en ljóst er að rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika sem eru innbyggðar í samfélagsgerð okkar eru helsti þröskuldurinn. Hins vegar er vert og nauðsynlegt að minna á að hvorki konur né karlar eru einsleitur hópur. Margt annað en kynferði hefur áhrif á stöðu einstaklinga svo sem menningarlegur bakgrunnur, stétt, búseta, fötlun, kynhneigð, litarháttur, heilsa og aldur.

En af hverjum erum við að þessu? Jafnrétti kynjanna eykur hamingju, jafnréttissambönd endast betur, fyrirtæki og stofnanir eru betur rekin og þjóðfélagið verður lýðræðislegra og betra. Það er því allt að vinna og engu að tapa.

Nafnið Kynungabók átti sér langan aðdraganda hér í ráðuneytinu. Ritið hefur gengið undir ýmsum nöfnum. Í upphafi var titillinn mjög formlegur -Ungt fólk og jafnrétti kynjanna- og hefði sómt sér vel á biðstofum heilsugæslustöðvanna ásamt fræðslu um þunglyndi og getnaðarvarnir. Hér braust út mikil löngun til að finna grípandi nafn sem myndi vekja spurningar og jafnvel forvitni en jafnframt lýsa innihaldi ritsins. Kynungur felur bæði í sér tilvísun í kyn og ungt fólk en er jafnframt gamalt og gilt orð samkvæmt Orðabók menningarsjóðs. Skilgreining orðabókar á orðinu er „að vera af ákveðnu kyni eða sauðahúsi“. Kynungabók þótti hljómfagurt og minnir skemmtilega á sögulegar og virðingaverðar bókmenntir eins og norrænar konungasögur og Konungsbók Eddukvæða. Ég vona að þetta nafn heilli ykkur jafn mikið og okkur .

Fljótlega eftir að ég varð ráðherra skipaði ég jafnréttisráðgjafa mennta- og menningarmálaráðuneytisins en starf hans felst í því að hvetja til almennrar fræðslu um jafnréttismál í öllum skólum, íþróttastarfi, æskulýðsstarfi og menningu. Með útgáfu þessa upplýsingarits er lagður grunnur að vetrarstarfi jafnréttisráðgjafans.

Kynungabók verður fylgt eftir með tölvupósti og kynningum í ráðuneytinu, skólum og menntastofnunum, námskeiðum, ráðstefnum og með því að taka þátt í vinnu kennarateymis sem mun tilraunakenna bókina í vetur. Vefsíða ráðuneytisins og aðrir vefmiðlar verða jafnframt notaðir til kynningar og hvatningar.

Kynungabók er ætluð 15-25 ára ungmennum og nær því til nemenda á þremur skólastigum. Þeir kennarar sem munu tilraunakenna ritið í vetur eru því kennarar sem koma að jafnréttisfræðslu í háskólum framhaldsskólum og grunnskólum.

Fulltrúar háskóla:

Guðný Guðbjörnsdóttir prófessor, menntunarfræði HÍ

Þóroddur Bjarnason prófessor, kynjafræði HA

Katrín Anna Guðmundsdóttir stundakennari, kynjafræði HÍ

Fulltrúar framhaldsskóla

Þórður Kristinsson, Kvennó

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Borgarholtsskóla

Valgerður Bjarnadóttir, MA

Fulltrúar grunnskóla:

Margrét Hugadóttir, Langholtsskóla

Harpa Rut Hilmarsdóttir, Austurbæjarskóla

Jóhann Björnsson, Réttarholtsskóla

Það sem kemur út úr þeirri vinnu er hugsað til að þróa ritið áfram og safna í sarpinn góðum kennsluhugmyndum.

Það er von mín að rit sem þetta eigi eftir að nýtast í skóla- og uppeldisstofnunum þannig að allir nemendur fái lögbundna fræðslu í þessum efnum. Margt hefur áunnist í jafnréttismálum en mikilvægt er að nýjar kynslóðir læri um fortíðina og viti að slíkar breytingar gerast ekki af sjálfu sér. Að sama skapi er nauðsynlegt að vera alltaf vakandi fyrir umhverfi sínu því að jafnréttisbaráttunni verður seint lokið.

Á 19. öld benti enski heimspekingurinn John Stuart Mill á að: „Tilfinningar vorar til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna [eru] … rótgrónari en allar aðrar tilfinningar sem geyma og vernda venjur fortíðarinnar. Það er því eigi að furða þótt þær séu öflugastar af öllum og hafi varist best gegn andlegum byltingum sem orðið hafa í mannfélaginu á seinni tímum“.

Þessi orð Mills eiga enn við. Kynungabók er mikilvægt framlag til að efla andlega byltingu gegn rótgrónum tilfinningum fortíðar.

Að lokum þakka ég öllum þeim sem tóku þátt í gerð ritsins, ritstjórum, hönnuði, teiknara og yfirlesurum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum