Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Bókasýningin í Frankfurt, 7. október  2010

Ágætu gestir

Það er mikið fagnaðarefni að stærsta bókasýning heims, Bókasýning í Frankfurt, hafi  boðið Íslendingum að vera heiðursgestur árið 2011.  Með þátttökunni fáum við einstakt tækifæri til að kynna fjölbreytta menningu og framsækið listalíf fyrir gestum hvaðanæva úr heiminum. Við metum þetta tækifæri mikils eins og m.a. má sjá á því að framlag hins opinbera til Bókasýningarinnar í Frankfurt hefur ekki verið skert um eina krónu á íslensku fjárlögunum, ólíkt flestum öðrum liðum þeirra.  Jafnframt því að kynna bókmenntir Íslendinga gefst okkur sjálfum jafnframt tækifæri til þess að staldra við og horfa á íslenskar bókmenntir með augum útlendingsins og hvernig hann sér þau verk sem skrifuð eru á eyju lengst norður í hafi, óralangt frá umheiminum að því er sumir halda.

Íslendingar skilgreina sig sem bókmenntaþjóð og bókmenningin er hornsteinn íslenskrar menningar.  Öldum saman var Ísland eitt fátækasta land Evrópu. Harðbýli, kuldi og einangrun settu svip sinn á líf hinna fáu íbúa, þéttbyli var lítið sem ekkert og menningin fábreytt.  Nema á svið bókmenntanna.  Þar áttu Íslendingar einstakt sköpunartímabil á 13. Og 14. öld þegar sagnabókmenntirnar voru ritaðar og æ síðan hefur sjálfsmynd þjóðarinnar verið tengd bókmenntunum.  Á 19. og 20. öld blómstruðu bókmenntirnar aftur og árið 1955 hlotnuðust íslenskum höfundi, Halldóri Laxness, Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Enn blómstra bókmenntirnar á Íslandi og þar með taldar glæpasögurnar sem ég hef lengi haft áhuga á og tengjast  mínu fyrra lífi sem bókmenntafræðingur.  Ekki er nóg með að íslenskar glæpasögur njóti mikilla vinsælda á Íslandi heldur hefur hróður þeirra borist langt út fyrir landsteinana svo til hefur orðið hugtakið Íslandskrimmi sem lýsir þessum bókmenntum.  Jafnvel mætti segja að hér sé um ákveðið afturhvarf til sagnabókmennta miðalda að ræða en Íslendingasögurnar snúast oftar en ekki um glæpi, hefnd og lyktir sakamála.

Stundum er sagt að bókmenntaáhugi Íslendinga komi með  móðurmjólkinni.  Mörgum þykir það full djúpt í árinni tekið en þó leynist í þessu sannleikskorn.  Bókmenntaarfur Íslendinga varðveittist meðal annars í mæltu máli hjá formæðrum okkar sem sögðu börnum sínum sögur og fóru með þulur, til þess að stytt þeim og sjálfum sér stundirnar á löngum dimmum vetrarkvöldum þegar setið var heima við vinnu.

Þótt afþreyingarkostir séu fleiri og þulur og frásagnir formæðra okkar hafi ekki sama vægi og áður á þó bóklesturinn og frásagnarlistin vísan stað í hugum okkar.  Við lesum fyrir börnin á háttatíma, á náttborðum þjóðarinnar stendur ólesinn bókastafli, sérhvert heimili á sitt litla bókasafn og fyrir hver jól flæða bækurnar frá forlögunum. Lesendur ræða bókmenntir á götuhornum og á netinu og í heita pottinum í sundlauginni.  Bóklesturinn er ennþá mikilvægur hluti af daglegu lífi og nýjar tölur sýna meira að segja að útlán bókasafna hafa aukist eftir að efnahagskreppan skall á. Út úr þessum tölum má lesa að þjóðin hafi meiri tíma til bóklesturs en áður – eða meiri áhuga, og þótt það sé ekki margt gott hægt að segja um efnahagslegar kreppur þá hörmum við ekki slíkar breytingar.

Bókasýningin í Frankfurt er kjörið tækifæri fyrir Íslendinga til þess að opna dyrnar að bókmenntaarfinum fyrir þjóðum heimsins og gerum við það meðal annars með nýjum þýðingum Íslendingasagna sem koma út á þýsku, dönsku, sænsku og norsku á næsta ári. Samanlagt er þetta eitthvert  stærsta þýðingarverkefni heims um þessar mundir. Við fáum tækifæri til að sýna heiminum hvaða verk það eru sem ylja okkur á löngum vetrarkvöldum og hvaða bækur við kjósum að lesa úti í miðnætursól. Um leið fáum við líka tækifæri til að sjá hvað aðrir eru að gera, hvað aðrir vilja lesa og þannig skiptumst við á bókum og hugmyndum við þjóðir heimsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum