Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sveitarfélög og fatlaðir íbúar - mannréttindi hverdagsins

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Málþing á vegum Öryrkjabandalags Íslands, Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum og
Félags um fötlunarrannsóknir, 7. febrúar 2014

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Heil og sæl öll sömul.

Málefni fatlaðs fólks hafa verið mikið til umfjöllunar á síðustu árum, eðli málsins samkvæmt í aðdraganda mikilla skipulagsbreytinga þegar ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk færðist frá ríki til sveitarfélaga – og áfram í kjölfar breytinganna. Tilfærslan krafðist auðvitað mikils undirbúnings og gerði nauðsynlegt að kafa djúpt til að greina þjónustuna eins og hún var á hendi ríkisins, skilgreina markmið yfirfærslunnar og huga að því sem þyrfti að bæta. Því er óhætt að segja að ein og sér ákvörðunin um að ráðast í þessar breytingar hafi skapað mikilvæga umræðu, ýtt undir þekkingarleit og krafið fjölda fólks, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum, til þess að velta fyrir sér í meira mæli en áður stöðu fatlaðs fólks og málaflokksins í heild. Það má í raun segja að allt hafi þetta leitt til þess að fólk settist niður, spurði allra helstu grundvallarspurninga og nálgaðist svörin á nýjan og ferskari hátt en áður.

Það felast margvísleg tækifæri í breytingum. Breytingar eru hreyfiafl og drifkraftur sem mikilvægt er að nýta og það tel ég að hafi verið gert í tengslum við yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna.

Það er ótvírætt að á síðustu árum hafa verið stigin mörg skref fram á við í málefnum fatlaðs fólks. Sáttmáli sameinuðu þjóðanna hefur reynst okkur góður leiðarvísir, þótt enn sé ekki að fullu lokið innleiðingu hans, en að hennir er stefnt. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem samþykkt var á Alþingi vorið 2012 á sér mikilvægar rætur í sáttmálanum, að ekki sé talað um ýmsar réttarbætur sem gerðar hafa verið frá því að yfirfærslan átti sér stað. Þá vísa ég sérstaklega til setningar laganna um réttindagæslu fyrir fatlað fólk árið 2011, viðbótarákvæði þeirra laga frá árinu 2012 um ráðstafanir til þess að draga úr nauðung við fatlað fólk og tilraunaverkefnis um Notendastýrða persónulega aðstoð, en allt eru þetta mikilvægir áfangar í innleiðingarvinnunni.

Það leikur ekki nokkur vafi á því að ákvörðun um flutning þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna ýtti undir og hraðaði margvíslegri vinnu við úrbætur á sviði málaflokksins, meðal annars mikilvægum áföngum sem miða að því að innleiða fyrrnefndan sáttmála sameinuðu þjóðanna. Þessi vilji var beinlínis festur í lög með bráðabirgaákvæðum í lögum um yfirfærsluna og eftir þeim hefur verið unnið.

Góðir gestir.

Það verður fróðlegt að heyra hér á eftir um helstu niðurstöður nýrrar könnunar um þjónustu við öryrkja og fatlað fólk hjá sveitarfélögunum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum hafa unnið fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Miðað við það sem ég hef þegar séð úr niðurstöðum könnunarinnar sýnist mér að um margt hafi yfirfærslan gefist vel og lofa góðu um framhaldið. Sérstaklega finnst mér ánæjulegt að sjá hvernig sveitarstjórnarfólk og starfsfólk á velferðar- og félagssviði sveitarfélaganna telur að yfirfærslan hafi aukið möguleika á að samþætta ólíka þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Nærri 50% aðspurðra telja að svo sé og 42% telja möguleika á því að laga þjónustuna að þörfum notenda hafa aukist. Um 30% telja að breytingin hafi leitt til bættrar þjónustu við fatlað fólk.

Í könnuninni voru einnig skoðuð viðhorf þessa hóps til samráðs við notendur um þróun þjónustu. Þar sýndi sig að allir sem voru spurðir telja mjög mikilvægt að þróa þjónustu við fatlað fólk í samráði við það sjálft. Okkur finnst þetta kannski sjálfsagt, en þannig hefur það ekki alltaf verið og ég er ekki í neinum vafa um að markviss og öflug umræða undanfarinna ára um mannréttindi fatlaðs fólks á ríkan þátt í þessari afgerandi niðurstöðu.

Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna sem undirritaður var í nóvember 2010 var skýrt kveðið á um helstu markmið sem annars vegar snéru að þjónustu og hins vegar að stjórnsýslunni. Þar var einnig kveðið á um að á þessu ári skuli fara fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum ávinningi tilfærslunnar. Vinna við þetta mat hófst á liðnu ári, eins og ráð var fyrir gert, og miðar ágætlega – en vinnan hefur hingað til gengið út á að afla upplýsinga um margvíslega þætti sem nauðsynlegir eru til að leggja heildstætt mat á verkefnið. Þess má geta að á föstudaginn eftir viku stendur Samband sveitarfélaga fyrir upplýsinga og umræðufundi um stöðuna eftir að sveitarfélögin tóku þjónustu við fatlað fólk í sínar hendur. Á fundinum verða kynntar niðurstöður könnunar á afstöðu fulltrúa einstakra þjónustusvæða til þess hvort og hvernig forsendur yfirfærslunnar hafa gengið eftir. Sambandið á veg og vanda af gerð könnunarinnar en hafði við undirbúning hennar samráð við velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið.

Ég ætla að rifja snöggvast upp markmið yfirfærslunnar eins og þau eru skilgreind í samkomulaginu frá árinu 2010. Þau eru að;

  • bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum,
  • stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga,
  • tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga,
  • tryggja góða nýtingu fjármuna,
  • styrkja sveitarstjórnarstigið og
  • einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Allir þessir þættir eru til skoðunar við mat á því hvernig til hefur tekist. Varðandi mat á þjónustuþáttunum búum við að umfangsmikilli könnun á þjónustunni sem gerð var við yfirfærsluna og tók jafnt til viðhorfa notenda þjónustunnar, aðstandenda þeirra og starfsfólks. Niðurstöður þeirrar könnunar gera okkur kleift að gera raunhæfan samanburð á stöðunni þá og nú. Mat á stjórnsýslulegum ávinningi ætti að vera tiltölulega aðgengilegt viðfangsefni og ég held að við höfum það nokkuð vel staðfest nú þegar að sveitarstjórnarstigið hefur eflst, samþætting aukist og skörun verkefna og ábyrgðarsviða milli stjórnsýslustiga er mun minna vandamál en áður var. Þessar breytingar má telja líklegt að stuðli að betri nýtingu fjármuna en það verður auðvitað skoðað sérstaklega og hópurinn sem vinnur að matinu er með í mótun hvernig best verði staðið að því.

Lög um málefni fatlaðs fólks verða endurskoðuð líkt og ákveðið var með bráðabirgðaákvæði í lögum við yfirfærsluna og samhliða verða endurskoðuð lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þessi vinna er ekki hafin en ég vonast til að starfshópur sem verið er að skipa til að sinna endurskoðuninni geti hafist handa sem fyrst.

Góðir gestir.

Það er áhugaverð dagskrá framundan. Bæði verður spennandi að heyra niðurstöður könnunarinna sem hér verður kynnt og eins að heyra fólk segja frá reynslu sinni af málefnum fatlaðs fólks hjá sveitarfélögunum, reynslusögur notenda, starfsfólks og sveitarstjórnarfólks. 

Við eigum að leggja mikið upp úr reynslu, að kynna okkur reynslu annarra og læra af henni. Skipulag þjónustu við fatlað fólk á skilgreindum þjónustusvæðum gefur einmitt kost á þessu. Það er eflaust nokkur munur á því hvernig þjónustusvæðin standa að málum og þá er gott að deila reynslunni og læra af því sem best gefst. Best Practice er það kallað – eða það sem við getum líka kallað fögur fordæmi. Við eigum sífellt að leita fordæma og nýta okkur það sem vel er gert og vel tekst til. Þannig miðar okkur áfram og gerum gott betra.

Takk fyrir.

 - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum