Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur VIRK starfsendurhæfingar 29. apríl 2014

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Komið þið sæl öll, góðir gestir ársfundar VIRK – og áður en lengra er haldið vil ég bjóða sérstaklega velkomna frá Hollandi dr. Annette de Wind, tryggingalækni og sérfræðing á sviði starfsgetumála. Dr. Annette de Wind, It's a pleasureto have you here.

Ársfundir marka tímamót, og á tímamótum er ástæða til að horfa yfir farinn veg, meta hvaða áfangar hafa skilað okkur best áfram og hverjir síður – og nýta reynsluna til að setja stefnuna fram á við.

Starfsendurhæfing er risastórt samfélagslegt verkefni og mikilvægt. Þannig er það á öllum tímum en þó held ég að við gerum okkur sífellt betur grein fyrir því hve miklu skiptir að styðja fólk til virkni og vinnu þegar þess þarf með, eftir því sem kostur er.

Góðir hlutir gerast hægt er stundum sagt – og ég verð að viðurkenna að það reynir stundum á þolinmæði mína hve hægt gengur að koma góðum málum í framkvæmd, ekki síst þegar um er að ræða verkefni sem almenn sátt ríkir um. Innleiðing starfsgetumats er dæmi um slíkt verkefni. Tillögur um innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats komu fyrst fram árið 2007 og fengu strax góðan hljómgrunn í samfélaginu en hefur samt miðað heldur hægt að mínu mati. Hrunið setti strik í reikninginn og segja má að verkefninu hafi verið ýtt til hliðar um árabil – en nú sé ég því ekkert lengur til fyrirstöðu að stíga skrefið til fulls.

Góðir gestir.

Þetta er hvorki staður né stund til þess að vera með barlóm enda engin ástæða til, því þegar við horfum til baka má líka sjá að það hafa náðst mikilvægir áfangar á sviði starfsendurhæfingarmála sem við munum byggja á til framtíðar. Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða voru samþykkt fyrir tæpum tveimur árum og hafa gilt í um það bil eitt og hálft ár. Það er of snemmt að draga stórar ályktanir af reynslunni af lögunum en ég er þó fullviss um með þeim hefur starfsendurhæfingu í landinu verið settur mun skýrari rammi en áður og það var svo sannarlega nauðsynlegt.

Við skulum heldur ekki gleyma því að setning laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu er mikilvægur liður í því að innleiða þá hugmyndafræði sem fram kom í tillögum nefndarinnar frá árinu 2007, þ.e. um að horfa á og draga fram getu fólks til starfa, fremur en að einblína á vangetu fólks og örorku. VIRK starfar á þessum grunni og það kemur skýrt fram í þeirri sýn sem VIRK hefur sett sér til framtíðar. Meginvandinn við innleiðingu starfsgetumatsins felst í að útfæra hugmyndafræðina að baki inn í almannatryggingakerfið, meðal annars þannig að mat á getu fólks til að afla tekna og mat á þörf fólks fyrir stoðþjónustu verði aðskilið.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur helstu ástæðum örorku hjá fólki vekur strax athygli að þar er verulegur munur milli kynja, bæði þegar horft er til fjölda karla og kvenna með örorkumat og eins þegar ástæðurnar að baki eru skoðaðar. Árið 2012 voru um 10.060 konur með örorkumat á móti um 6.800 körlum, samkvæmt tölum Tryggingastofnunar ríkisins. Geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar eru meginorsakirnar fyrir örorku fólks en af öllum sem metnir voru með örorku árið 2012 voru rúm 66% þeirra annað hvort með geðraskanir eða stoðkerfisvanda. Við sjáum umtalsverðan kynjamun þegar þetta er skoðað nánar þar sem um 42% karla með örorku eru það vegna geðraskana á móti tæpum 34% kvenna. Aftur á móti eru rúm 36% kvenna með örorku vegna stoðkerfissjúkdóma á móti um 18% karlanna. Það er mikilvægt að velta fyrir sér þessum kynjamun og skoða til dæmis hvort kynjaskiptur vinnumarkaður kunni að skýra þetta að einhverju leyti. Þá er ég að hugsa um hvort konur séu í meira mæli en karlarnir í líkamlega einhæfum störfum sem valda stoðkerfisvandamálum, þeir hafi aftur á móti meiri stjórn á aðstæðum í sínum störfum. Þetta er jafnvel eitthvað sem aðgerðahópur um launajafnrétti ætti að skoða í tengslum við aðgerðir til að draga úr kynskiptum vinnumarkaði.

Það liggur í hlutarins eðli að starfsendurhæfing þarf að taka mið af helstu orsökum þess að fólk verður ófært um að vera á vinnumarkaði. Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar fyrirbyggjandi aðgerðir sem draga úr líkum þess að fólk þurfi að láta af störfum – hins vegar markviss endurhæfing þeirra sem vilja og geta ná kröftum á ný til þátttöku á vinnumarkaði. Auðvitað skiptir máli hvernig starfsendurhæfingarkerfið er uppbyggt og útfært, því það er verkfærið sem við beitum til að ná árangri. Við megum samt ekki verða svo upptekin af kerfinu og útfærslum á því að við missum sjónar á verkefninu sjálfu sem eru þeir einstaklingar sem í hlut eiga og þurfa á aðstoð og hvatningu að halda. Við höfum skýra mælikvarða, þ.e.a.s. við getum mælt þróun örorku og nýgengi hennar og við getum mælt árangurinn af starfsendurhæfingu með því að sjá hvernig fólki gengur að fóta sig á vinnumarkaðinum á nýjan leik að endurhæfingu lokinni.

Höfum það líka hugfast að starfsendurhæfing, sama hve vel er að henni staðið, dugir ekki ein og sér til þess að tryggja atvinnuþátttöku þeirra sem hafa skerta starfsgetu. Atvinnurekendur leika hér stórt hlutverk, því vinnumarkaðurinn verður að hafa til að bera ákveðinn sveigjanleika og vilja til þess að haga störfum þannig að tillit sé tekið til einstaklinga sem þess þurfa með. Markviss vinnuvernd hefur einnig mikið að segja og almennt verða atvinnurekendur að hafa skýra stefnu í starfsmannamálum og mannauðsmálum sem gerir ráð fyrir því að í starfsmannahópnum séu mismunandi aðstæður og þarfir. Ég nefni líka aðgengismál og fjölskyldustefnu sem skiptir einnig máli þegar áhersla er lögð á að skapa mannvænan vinnustað.

Við efnahagshrunið haustið 2008 urðu margir til þess að vara við ýmsum hættum sem eru þekktir fylgifiskar kreppu og aðrar þjóðir hafa mátt súpa seyðið af. Því var spáð að við ættum eftir að sjá verulega fjölgun í hópi öryrkja og eins var sérstaklega varað við afleiðingum atvinnuleysis sem við sáum fara í nánast óþekktar hæðir hér á landi. Auðvitað erum við ekki búin að bíta úr nálinni með þetta, en hingað til hefur okkuð gengið mun betur en flestir spáðu hvað þetta varðar. Nýgengi örorku hefur ekki aukist – heldur hefur fremur dregið úr því ef eitthvað er. Hér kemur eflaust margt til en ég held að það hafi skapast víðtæk samstaða og sátt í samfélaginu um að láta ekki vondar spár rætast.

Hlutaatvinnuleysisbætur þar sem áhersla var lögð á að fólk gæti haldið starfstengslum þrátt fyrir samdrátt tel ég að hafi verið góð ráðstöfun. Margvísleg átaksverkefni á sviði vinnumarkaðsúrræða þar sem atvinnulífið; ríki, sveitarfélög og almenni vinnumarkaðurinn lögðust á eitt hafa tvímælalaust skilað árangri og sömuleiðis sú áhersla að opna fólki nýjar og greiðari leiðir til náms til að byggja sig upp fyrir atvinnuþátttöku síðar meir. Reglum Tryggingastofnunar var breytt þannig að mun fleiri en áður fara á endurhæfingarlífeyri og þar hefur skapast mikilvægt samspil við VIRK-starfsendurhæfingarsjóð sem var upphaflega stofnaður í maí 2008 og hefur vaxið og dafnað hratt, einmitt þegar þörfin var mest.

Það er kannski of snemmt að hrósa sigri, því við vitum að töluverður hópur fólks býr við langtímaatvinnuleysi, hefur misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta eða er við það að missa hann. Þetta fólk er í viðkvæmri stöðu og mjög mikilvægt að það fái stuðning til virkni og vinnu ef þess er nokkur kostur.

Sennilega er fátt ef nokkuð erfiðara fólki en að búa við aðgerðaleysi, þar sem því fylgir iðulega vanmáttarkennd og efasemdir um eigin tilgang í lífinu. Við þurfum öll að hafa eitthvað fyrir stafni eftir því sem við höfum getu til og fólk vill það. Því veldur mér verulegum áhyggjum að niðurstöður rannsóknar sem Öryrkjabandalag Íslands lét gera á högum fatlaðs fólks og öryrkja sýndi að um helmingur fatlaðs fólks og öryrkja er hvorki í vinnu, námi, dagþjónustu eða atvinnuleit. Hér er því verk að vinna.

Ég hef látið undir höfuð leggjast að ræða um fjármál og framlög til VIRK, en eins og þið vitið stendur til að endurskoða fjárframlög til VIRK-starfsendurhæfingarsjóð fyrir lok þessa árs. Flest bendir til að sjóðurinn sé offjármagnaður, en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2012 var rúmlega einn og hálfur milljarður til í varasjóði. Það er mikilvægt að halda áfram þeirri þríhliða kostnaðarskiptingu sem verið hefur og ég er ekki í vafa um að við munum finna farsæla lausn sem tryggir rekstur starfsendurhæfingar í landinu í samræmi við nauðsynlegt umfang þessa mikilvæga verkefnis.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum