Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Vinnumálastofnunar 4. nóvember 2014

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Kæra starfsfólk Vinnumálastofnunar og aðrir góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag og tel ég vel við hæfi að beina orðum mínum í upphafi til starfsfólks Vinnumálastofnunar sem hefur á síðasta ári líkt og endranær unnið gott og óeigingjarnt starf eins og glögglega má sjá í ársskýrslu stofnunarinnar. Fyrir það er mér efst í huga þakklæti til ykkar allra.

Yfirskrift fundarins í dag er Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana og tel ég þau orð eiga vel við, ekki síst í ljósi þess að á liðnum árum hefur verið unnið markvisst að því að auka sýnileika öryrkja, þar á meðal fatlaðs fólks, í samfélaginu.

Má í því sambandi meðal annars nefna að öryrkjar, þar á meðal fatlað fólk, hafa sjálfir stigið fram með þá eðlilegu og sjálfsögðu kröfu að rödd þeirra eigi að heyrast og að þeir eigi að sjást og njóta sama réttar og allir aðrir til fullrar þátttöku í samfélaginu, þar á meðal á vinnumarkaði.

Raddir þeirra hafa heyrst og aukið skilning meðal almennings á aðstæðum þeirra.  

Aðskilnaðarstefnan, ef svo má að orði komast, er á hröðu undanhaldi og er það vel að mínu mati.

Sýnin um eitt samfélag fyrir alla er ekki lengur eins og fjarlægur draumur, þótt vissulega eigum við enn töluvert langt í land.

Við yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga voru ýmsir endar í tengslum við atvinnumál þess enn lausir.

Ég legg áherslu á þá skoðun mína að atvinnumál fólks með skerta starfsgetu, þar á meðal öryrkja og fatlaðs fólks, eigi að vera á þeim stað sem atvinnumál ófatlaðs fólks eru.

Í því sambandi tel ég mjög mikilvægt að við hverfum frá þeirri framkvæmd að aðgreina fatlað fólk frá öðrum, meðal annars með því að sundra þjónustu á sviði vinnumála milli stjórnsýslustiga og ólíkra stofnana, og skapa þannig völundarhús og flækjur öllum til óþurftar og ama.

Að mínu mati er því orðið mjög brýnt að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem lengi hafa staðið fyrir dyrum, annars vegar hvað varðar innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats og hins vegar hvað varðar að flytja framkvæmd vinnusamninga öryrkja frá Tryggingastofnun til Vinnumálastofnunar.

Þessi vinna stendur nú yfir í ráðuneytinu í samstarfi við hagsmunaaðila og bind ég miklar vonir við að þess verði ekki langt að bíða að Vinnumálastofnun verði sú stofnun sem sjái alfarið um opinbera vinnumiðlun og ráðgjöf fyrir alla án aðgreiningar enda sú stofnun sem er best til þess fallin að mínu mati.

Einnig tel ég mikilvægt að samþætta þjónustustöðvar Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar þannig að við tryggjum enn frekar að þeir sem sækja um örorkulífeyri eða endurhæfingarlífeyri eigi jafnframt kost á að sækja þjónustu hjá náms- og starfsráðgjöfum Vinnumálastofnunar á sama stað.

Það getur leitt til þess að viðkomandi leiti sér frekar aðstoðar hjá starfsendurhæfingarsjóðum til að fá atvinnutengda starfsendurhæfingu eða fái nánari aðstoð starfsmanna Vinnumálastofnunar við að leita sér að starfi hvort sem það er starf með stuðningi eða ekki.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni hér í dag yfir því samstarfi sem hefur tekist á milli Vinnumálastofnunar og Öryrkjabandalags Íslands um að virkja hæfileika þeirra sem búa við skerta starfsgetu og virkja þannig alla hæfileikana.  Það er skoðun mín að þessi samvinna sé í samræmi við framangreind áhersluatriði og ég vona sannarlega að atvinnulífið sjái tækifæri í þessu framtaki en mikilvægt er að störf séu í boði fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Við verðum að taka höndum saman til að yfirvinna þær hindranir sem talsmenn öryrkja hafa ítrekað bent á að þeir mæti á almennum vinnumarkaði en eitt af því sem þeir haf nefnt í því sambandi er að þeir fái ekki tækifæri til að ráða sig til starfa.

Það er mér því mikið fagnaðarefni og heiður að fá að opna hér á eftir sérstakt vefsvæði á vef Vinnumálastofnunar þar sem stofnanir ríkis og sveitarfélaga geta skráð þau störf sem eru laus hjá þeim og gætu hentað atvinnuleitendum með skerta starfsgetu.

Vinnumálastofnun hefur verið ötul við að vinna að þessu markmiði á árinu en stofnunin stóð meðal annars fyrir Fyrirmyndardeginum þann 4. apríl síðastliðinn en það var í fyrsta sinn sem slíkur dagur er haldinn sérstaklega.

Við það tækifæri buðu fyrirtæki og stofnanir atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að fylgja starfsmanni hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar eftir við vinnu sína í einn dag eða hluta úr degi.

Þeir atvinnuleitendur sem tóku þátt í Fyrirmyndardeginum voru einstaklingar með skerta starfsgetu sem voru skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun.

Að mínu mati getur mikill ávinningur orðið af því að veita atvinnuleitendum tækifæri til að kynna sér margvísleg störf innan ólíkra fyrirtækja og stofnana á sama tíma og þeir fá tækifæri til að kynna sig sem atvinnuleitendur.

Vona ég að þetta verkefni muni festa sig í sessi og verða að árlegum viðburði þar sem enn fleiri fái tækifæri til þátttöku.

Ágætu ársfundargestir.

Atvinnuleysistryggingakerfið var varið fyrstu árin eftir efnahagsþrengingarnar sem urði hér á landi haustið 2008 en þá fækkaði störfum hratt og atvinnuleysi jókst gríðarlega frá því sem verið hafði um langt árabil.

Aðstæður nú eru gjörbreyttar hvað þetta varðar en sú staða varð meðal annars til þess að ég hef ákveðið að leggja til við Alþingi styttingu á atvinnuleysisbótatímabilinu úr 36 mánuðum í 30 mánuði sem er nær því sem um er að ræða víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum.

Sem mótvægi við þessa tillögu hef ég jafnframt lagt til að auknu fjármagni verði varið til virkra vinnumarkaðsaðgerða.  Þá hef ég einnig lagt til að tryggt verði að Vinnumálastofnun hafi fjármagn til að sinna þeim atvinnuleitendum sem ekki teljast lengur tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, hvort sem þeir eru í þörf fyrir fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustu síns sveitarfélags eða ekki.

Það sem styður mig enn frekar í þessari ákvörðun er að sífellt fækkar í hópi þeirra sem eru skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun lengur en eitt ár en um 75% þeirra sem skráðu sig án atvinnu hjá stofnuninni árið 2013 voru skráðir án atvinnu skemur en tólf mánuði á því ári.

Í september síðastliðnum mældist atvinnuleysi meðal kvenna á landinu öllu ívið meira en hjá körlum og fleiri konur voru í hópi langtímaatvinnulausra.

Þessar tölur sýna svart á hvítu að huga þarf sérstaklega að stöðu kvenna sem skráðar eru án atvinnu um lengri eða skemmri tíma og ég er nokkuð viss um að starfsfólk Vinnumálastofnunar er mér sammála hvað það varðar.

Ágætu ársfundargestir.

Gerð tillögu að vinnumarkaðsstefnu stendur nú yfir en ætla má að markmið slíkrar opinberrar stefnu verði meðal annars að stuðla að velferð fólks á vinnumarkaði og þá skiptir ekki síður máli að vel takist til við mótun nýrrar vinnuverndarstefnu sem er jafnframt í bígerð.

Gera má ráð fyrir að meginmarkmið beggja stefna, vinnumarkaðsstefnu annars vegar og vinnuverndarstefnu hins vegar, verði að tryggja virka þátttöku sem flestra á vinnumarkaði ævina á enda og tel ég það verðugt markmið.

Ég tel einnig mikilvægt að opinber vinnumarkaðsstefna feli í sér jákvæða framtíðarsýn fyrir unga fólkið okkar og hvetji það til aukinnar menntunar.

Þá tel ég mikilvægt að vinnumarkaðsstefnan stuðli að betri tengingu en nú er milli þeirrar menntunar sem fólk velur sér og þarfa atvinnulífsins hverju sinni.

Þannig tel ég okkur best í stakk búin til að tryggja viðunandi atvinnustig til framtíðar.

Sem lið í mótun vinnumarkaðsstefnu þykir mér ekki síður mikilvægt að fundnar verði leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval.

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna er meðal annars að skoða þetta málefni og verður spennandi að fylgjast með hverjar niðurstöður hópsins verða.

Í þessu sambandi tel ég jafnframt mikilvægt að horfa til þeirrar reynslu sem við höfum innan Vinnumálastofnunar um framkvæmd lánatryggingasjóðs kvenna og styrkja til atvinnumála kvenna. Þessi verkefni hafa staðið yfir í rúmlega tuttugu ár og enn virðist vera þörf á þeim en betur væri ef við værum komin það langt að þessi þörf væri ekki til staðar.

Í vinnumarkaðsstefnu vil ég jafnframt leggja áherslu á mikilvægi sveigjanlegra starfsloka þegar aldurinn færist yfir.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að vinnukraftar eldra fólks geti oft og tíðum verið vannýttir enda þótt þekkt sé að Íslendingar vinni manna lengst ef litið er til nágrannaþjóða okkar.

Síðast en ekki síst þurfum við í vinnumarkaðsstefnunni að huga sérstaklega að aðstæðum erlendra ríkisborgara á innlendum vinnumarkaði, meðal annars hvað varðar launakjör og önnur starfskjör.

Einnig þurfum við að huga að þeirri þjónustu sem við veitum þeim erlendu ríkisborgurum sem eru hér á landi í atvinnuleit og veit ég að Vinnumálastofnun hefur unnið ötullega að því að efla og bæta þjónustuna við þennan hóp atvinnuleitenda og er það vel.

Þá þarf að gæta þess að erlendir ríkisborgarar sem koma hingað til lands í atvinnuleit verði ekki félagslegum undirboðum að bráð.

Ég vil jafnframt geta þess hér að ég hef í hyggju að skipa sérstaka nefnd undir forystu ráðuneytisins um framtíðarskipan fæðingarorlofs með fulltrúum atvinnulífsins, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem og fulltrúum frá Vinnumálastofnun.

Fæðingarorlof á Íslandi er styttra en annars staðar á Norðurlöndunum og jafnframt er hér á landi lengsta bilið sem foreldrar þurfa að brúa frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst.

Í mínum huga er forsenda breytinga hins vegar að sem mest sátt og samstaða náist um leiðir til að ná sem best markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að tryggja barni samvistir við báða foreldra og auðvelda jafnframt barnafólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Vinnumálastofnun hefur í gegnum tíðina með einum eða öðrum hætti komið að þeim atriðum sem ég hef nefnt hér að framan og vil ég því leggja á það mikla áherslu að ég tel að þekking og reynsla ykkar hjá Vinnumálastofnun vegi afar þungt í vinnunni sem framundan er við mótun tillögu að vinnumarkaðsstefnu.

Vinnumálastofnun gegnir gríðarlega miklu hlutverki þegar kemur að öflun tölfræðilegra upplýsinga um hvaðeina sem snýr að vinnumarkaði og þeim störfum sem stofnunin sinnir.

Vel nestuð af upplýsingum frá ykkur, starfsfólki Vinnumálastofnunar, er hægt að vinna að vandaðri og góðri vinnumarkaðsstefnu.

Góðir gestir

Möguleikar fólks til atvinnu er einn mikilvægasti þátturinn í því að tryggja virka þátttöku fólks í samfélaginu og þar er til mikils að vinna fyrir alla.

Þessum möguleikum þurfa að fylgja raunveruleg tækifæri til að fá störf við hæfi.

Þegar fólk með skerta starfsgetu á í hlut geta einföldustu hindranir skipt sköpum um getu viðkomandi til að gegna tilteknu starfi en í því sambandi má með sanni segja að það sé auðveldara að fást við efnislegar hindranir en hugarfarslegar.

Greitt og gott aðgengi er mikilvægt fyrir fólk með hreyfihömlun eða skerta líkamlega getu af einhverju tagi en oft á tíðum er tiltölulega auðvelt að koma slíku aðgengi við ef viljinn er fyrir hendi.

Hindranir sem birtast í fordómum, meðal annars við ráðningar og í viðmóti á vinnustöðum, eru hins vegar þættir sem oft á tíðum getur verið erfiðara að eiga við en við verðum samt sem áður að gefa þessum þáttum meiri gaum.

Neikvæð viðhorf og fordómar gagnvart geðsjúkum og fólki með þroskaskerðingar eru áhyggjuefni sem við verðum að bregðast við með beinum aðgerðum.

Ég vil ljúka máli mínu með því að vekja enn og aftur athygli á yfirskrift fundarins hér í dag sem ég tel að eigi svo vel við á svo mörgum sviðum, hvort sem við erum að tala um fólk með skerta starfsgetu, eldra fólk á vinnumarkaði, ungt fólk á vinnumarkaði og svo mætti lengi telja.

Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana – það er í allra þágu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum