Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing Almannaheilla um mannauðsstjórnun í félagasamtökum

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp á Málþingi Almannaheilla um mannauðsstjórnun í félagasamtökum.

--------------------------------------------

Ágætu málþingsgestir,

Mannauðsstjórnun í félagasamtökum er yfirskrift þessa málþings. Ég vil byrja á því að þakka Almannaheill, samtökum þriðja geirans fyrir að taka þetta veigamikla þema til umfjöllunar í dag. Segja má að umræða um vægi  félagasamtaka innan velferðarþjónustunnar hafi aukist á undanförnum árum. Þetta hefur gerst samhliða þeirri kreppu sem velferðarríki í Norður Evrópu hafa þurft að takast á við á undanförnum árum og áratugum. Framlag stjórnvalda til velferðarkerfisins hefur að margra mati verið talið komið að endamörkum.  Velferðarkerfið hefur ekki verið talið anna aukinni og margbrotnari eftirspurn og jafnframt hafa komið fram spurningar hvort það sé hlutverk þess að veita þá þjónustu sem óskað hefur verið eftir. Þetta hefur kallað á það að leitað hefur verið nýrra leiða til að auka skilvirkni opinberrar þjónustu m.a. með því að taka upp nýjar stjórnunaraðferðir í opinberum rekstri. 

Í þessu sambandi hefur sjónum á Íslandi í auknum mæli verið beint að þeim frjálsu félagasamtökum, sjálfseignastofnunum og sjóðum sem talin eru mynda hinn svokallaða þriðja geira. Hér er óþarfi að fara út í nákvæmar skilgreiningar en segja má að starfsemi þriðja geirans sé aðgreind frá þeirri starfsemi sem lýtur beint eða óbeint stjórn og forræði stjórnvalda eða einkaaðila. Mörkin eru þó ekki alltaf skýr þar sem starfsemin getur oft breytt um eðli og innihald og fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Þó er ljóst að starfsemin hefur ekki hagnað að markmiði og að baki liggja hugsjónir og hugmyndafræði þar sem markmiðið er að vinna að umbótum í þágu almennings og samfélagsins.

Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að þriðji geirinn á sér hugmyndafræðilegar og sögulegar rætur í íslensku samfélagi.   Með stjórnarskránni 1874 fengu Íslendingar, félaga- og fundarfrelsi sem leiddi af sér stofnun fjöldahreyfinga sem aftur hefur haft mikil áhrif á þróun íslenskrar velferðar alveg fram á þennan dag.

Því er mikilvægt að við horfum með virðingu og auðmýkt til framlags þeirra fjölmörgu einstaklinga og almannaheillasamtaka sem lagt hafa sitt af mörkum til þróunar velferðar á Íslandi í gegnum tíðina.

Starf almannaheillasamtaka hefur á umliðnum árum tekið miklum breytingum. Aukinn fjöldi félagasamtaka hefur tekið upp baráttu fyrir hagsmunum skjólstæðinga sinna. Þá hafa verið mynduð regnhlífasamtök sem þrýst hafa á stjórnvöld um umbætur í félags- og heilbrigðismálum.

Þessir hópar hafa jafnframt gert ríkari kröfur um að hafa áhrif á ákvörðunartöku, stefnumótun, lagasetningu og annarra aðgerða stjórnvalda sem geta haft áhrif á líf og starf félaga sinna. Þessi veruleiki hefur kallað á það að rekstur félagasamtaka hefur í ríkari mæli tekið á sig mynd fyrirtækjareksturs þar sem þurft hefur að gæta að ýmsum þeim þáttum sem því fylgja. 

Starfsemi margra félagasamtaka á hinum ýmsu sviðum velferðarþjónustunnar hefur einnig orðið hálfopinber. Ríkið fjármagnar starfsemina en starfsfólkið sem ráðið er af félagasamtökunum fær greidd laun eftir opinberum samningum.

Tengslin  milli stjórnvalda og félagasamtaka hafa  breyst. Nú gera ríkið og sveitarfélög sem formlega bera ábyrgð á stefnu og framkvæmd velferðarþjónustunnar ákveðnar  kröfur með skýrari hætti en áður. Kröfulýsingar með ákveðnum viðmiðum eru orðnar algengari gagnvart þeim sem taka að sér að starfrækja velferðarþjónustu á nútímavísu.

Tengslin eru þannig í auknu mæli árangursdrifin þar sem geta aðila til samhæfingar, aðgengi að upplýsingum, þekking og færni í samskiptum auk aðkomu allra þeirra sem málin varða geta skipt sköpum um það að vel takist til.

Ríki og almannaheillasamtök þurfa að ná sátt um sameiginleg markmið og skýra verkaskiptingu milli aðila þannig allir séu með á nótunum. Ef þetta samstarf er ekki til staðar er hætt við  að vík verði milli vina sem kemur niður á starfseminni og þeim árangri sem stefnt er að. 

Samband á milli ríkis og félagasamtaka má heldur ekki verða of þægilegt og  almannaheillasamtök missa marks ef þau samþykkja gagnrýnislaust stefnu eða hlutverk stjórnvalda við samhæfingu og þróun verkefna. Ef tilvist almannaheillasamtaka grundvallast á því að sinna verkefnum sem ríki og sveitarfélög hafa skilgreint án aðkomu samtakanna er hætt við því að mikilvæg gagnrýni og skoðanir komist ekki á framfæri. Af þessum sökum er meðal annars mikilvægt að tryggja ákveðið fjárhagslegt sjálfstæði almannaheillasamtaka.

Að mínu mati byggir samstarf stjórnvalda  við almannaheillasamtök á fjórum lykilþáttum:

Í fyrsta lagi þurfum við ríka samvinnu milli stjórnvalda og almannaheillasamtaka þar sem hlutverk ríkisins er að hvetja til samvinnu en ekki að yfirgnæfa. Regluverkið á að vera þannig úr garði gert að það stuðli aðvexti  almannaheillasamtaka og vinni gegn slæmri  stjórnun og stjórnsýsluháttum. Mikilvægt er að almannaheillasamtök fái tækifæri til þess að vera trú stefnumiðum sínum og þannig ábyrg gagnvart þeim sem þeir gæta hagsmuna fyrir.

Í öðru lagi þarf að tryggja gott verklag. Mikilvægt er að upplýsingar séu aðgengilegar þannig að hægt sé miðla þeim til félagsmanna og samfélagsins í heild. Almannaheillasamtök hafa gengt mikilvægu samráðs-, upplýsinga-, og framkvæmdarhlutverki og eiga að fá tækifæri til þess að halda því áfram enda er upplýsinga- og menntunarlegt gildi starfseminnar oft mikilvægt.

Í þriðja lagi er mikilvægt að aðilar þekki þá færniþætti sem skipta máli í samskiptum manna á meðal. Áherslan á mikilvægi þess að við séum fær að setja okkur í spor annarra og getum horft á viðfangsefni út frá mismunandi sjónarhornum. Þegar fólk finnur fyrir gagnkvæmum skilningi þá dregur úr misklíð og traust skapast í samskiptum manna á milli.

Í fjórða og síðasta lagi er mikilvægt að nefna að aðilar upplifi skýrt eignarhald á þeim verkefnum sem tekist  er á við á hverjum tíma. Skýrt eignarhald virkar hvetjandi og verkefnið nær frekar markmiðum sínum. Fyrir einstaklinga er einnig hvetjandi að vera hluti og þátttakandi í verkefnum þar sem sameiginlegir hagsmunir ganga framar eigin hagsmunum. Sagan segir okkur hvernig hópar fólks með mismunandi bakgrunn og hagsmunatengsl geta tengst sterkum böndum og unnið að lausn flókinna og erfiðra verkefna.

Þessi fjögur atriði sem ég hef hér nefnt eiga samleið með hugmyndum um öfluga og góða mannauðsstjórnun. Grunntónninn er alltaf að hvetja fólk til góðra verka. Ljóst er að áskoranirnar í störfum almannaheillasamtaka eru margvíslegar og oft flóknari en í almennum skipulagsheildum en með góðu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og almannaheillasamtaka er með opnum huga og jákvæðni hægt að finna verkefnum farveg sem best þjóna hagsmunum lands og þjóðar.

Ágætu málþingsgestir.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég gjarnan nefna það sem efst er á baugi í velferðarráðuneytinu og tengist umræðuefni okkar hér í dag.

Stjórnarsáttmálin hefur verið okkur leiðarljós í þessu efni þar sem segir „Ríkisstjórnin  legur áherslu á samfélagslegt mikilvægi frjálsra félagasamtaka og sjálfboðastarfs og mun greiða götu slíkrar starfsemi.“    

Starfsemi velferðarvaktar ráðuneytisins er dæmi um velheppnað samstarf fjölmargra stofnana, hagsmunaaðila og almannaheillasamtaka um að standa vörð um velferðarþjónustu á Íslandi.  Vaktin var stofnuð í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og var ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins á fjölskyldur og heimili í landinu og meta þær aðgerðir sem gripið hafði verið til og leggja fram tillögur til úrbóta. Starfsemi vaktarinnar er lýsandi dæmi um það þegar ólíkir aðilar með mismunandi hagsmuni taka höndum saman í þágu heildar og leggja sitt af mörkum til góðra verka. Vaktin hefur á starftíma sínum gert fjölmargar tillögur um verkefni sem bætt geta okkar samfélag. Í tillögum vaktarinnar til mín nú í janúar eru skilgreind fjölmörg verkefni sem unnið skuli  að.

Eitt þeirra er að frjálsum félagasamtökum verði falið aukið hlutverk við að þjónusta þann hóp sem á mestri aðstoð þarf á að halda. Það verði gert með því að efla samtökin með markvissum hætti. Meðal annars með því að stofna sérstakan verkefnasjóð á fjárlögum sem styrkja myndi tímabundin verkefni frjálsra félagasamtaka.  Við úthlutun fjármagns yrði skilgreind umgjörð um verkefnin þar sem til dæmis yrðu skilgreindir sérstakir mælikvarðar sem framkvæmdaaðilum væri ætlað að vinna samkvæmt.  Verkefnin fælust t.d. í aukinni aðstoð til sjálfshjálpar og virkni þeirra sem búa við sára fátækt.

Annað verkefni sem gerð er tillaga um er að koma á samstarfsvettvangi stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka þar sem reglulega yrði farið yfir samstarfsfleti þessara aðila.

Einnig má nefna verkefni sem snýr að því að skoða hvernig styrkja megi rannsóknarumgjörð í starfsemi almannaheillasamtaka. Að mínu mati er afar mikilvægt að öll stefnumótun sé byggð á öflugum grunnrannsóknum og tölfræði sem aðgengileg er um starfsemi almannaheillasamtaka.

Mörg lönd sem við berum okkar saman við, hafa verið að stíga mikilvæg skref í þá átt að efla frjáls félagasamtök og sjálfboðaliðastarf. Um er að ræða svokallaða Big Society áætlunin sem gengur m.a. út á það að færa vald frá pólitíkusum til almennings og virkja fólk til aukinnar þátttöku í samfélaginu. Við munum fylgjast vel með þróun þessa verkefnis og skoða hvað megi læra af því.

Síðast en ekki síst má nefndavinnu sem nú er í gangi á vettvangi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins en þar mun á allra næstu vikum nefnd skila tillögum að nýrri löggjöf um almannaheillasamtök sem væntanlega mun hafa mikil áhrif á starf slíkra samtaka þegar til framtíðar er litið. 

Ágætu málþingsgestir.

Að framansögðu er ljóst að hlutverk almannaheillasamtaka er samtvinnað þróun íslenska  velferðarkerfisins og leika þau stórt hlutverk við framkvæmd  velferðarþjónustu hér á landi. Það er því afar mikilvægt að standa vel að verki og tryggja þá fagmennsku sem nauðsynleg er samhliða því að unnið sé með þær grundvallarhugmyndir sem liggja að baki starfi almannaheillasamtaka. Þannig við þeim árangri sem við öll stefnum að í þágu land og þjóðar en samfélagið væri ekki svipur hjá sjón ef starfssemi almannaheillasamtaka hefði ekki notið við. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum