Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp Eygóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra á ráðstefnunni „Hvernig þak yfir höfuðið?“

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ræðu um framtíðarskipan húsnæðismála og húsnæðismál fatlaðs fólks á ráðstefnunni „Hvernig þak yfir höfuðið?“ sem haldin var á vegum Landssamtakanna Þroskahjálpar 14. apríl 2015.


Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir að bjóða mér að taka til máls á þessari ráðstefnu Landssamtakanna Þroskahjálpar um húsnæðsmál til að kynna breytingar á framtíðarskipan húsnæðismála og hvernig þær snúa að fötluðu fólki.

Meðal forgangsverkefna minna í ráðuneytinu er ný skipan húsnæðismála og ég hef litið á það verkefni sem sem þríþætt:

Í fyrsta lagi hef ég horft til breytinga á fjármögnun húsnæðis hér á landi sem varða annars vegar breytingar á fjármögnun félagslegs leiguhúsnæðis og hins vegar breytingar á almennum húsnæðislánum. Í öðru lagi vil ég efla leigumarkaðinn með  margvíslegum aðgerðum og í þriðja lagi auðvelda starfsemi húsnæðissamvinnufélaga. 

Breytingar á fjármögnun félagslegs leiguhúsnæðis snúa fyrst og fremst að uppbyggingu félagslegs leigumarkaðar fyrir: 

  • Fólk sem býr erfiðar félagslegar aðstæður og er í brýnni þörf fyrir húsnæði,
  • Fatlað fólk sem þarf á sérhönnuðu húsnæði að halda,
  • Aldraða sem ekki hafa tök á að búa í eigin húsnæði,
  • Námsmenn sem hvorki hafa efni á eigin húsnæði eða úrræðum á alemnnum leigumarkaði.

Ég mun byrja á því að fjalla stuttlega um þær tillögur sem eru í vinnslu með almennum hætti og víkja síðan sérstaklega að því hvernig þær snúa að húsnæðismálum fatlaðs fólks.

Forsaga málsins er sú að ég skipaði haustið 2013 verkefnisstjórn til þess að fjalla um og koma með tillögur um framtíðarskipan húsnæðismála. Samkvæmt skipunarbréfi var verkefnisstjórn falið að kanna hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á íslenskum húsnæðislánamarkaði væri hagkvæmast og hvernig mætti koma slíku fyrirkomulagi í framkvæmd. Jafnframt átti verkefnisstjórnin að skoða hvernig unnt væri að tryggja virkan leigumarkað hér á landi sem og skilvirk félagsleg úrræði. Í því sambandi átti verkefnisstjórnin að kanna með hvaða hætti stjórnvöld gætu sinnt afmörkuðu hlutverki sem fælist í þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Samhliða verkefnisstjórn skipaði ég breiðan samvinnuhóp sem hafði það hlutverk að vera verkefnisstjórninni til ráðgjafar en hlutverk hennar var að hafa forystu í verkefninu, safna gögnum og greina þau í samvinnu við óháða sérfræðinga, framkvæma stöðumat og móta stefnu um framtíðarskipan húsnæðismála.

Verkefnisstjórnin skilaði skýrslu ásamt tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála til mín í maí 2104 og síðan þá hefur verið unnið að nánari útfærslu þeirra innan ráðuneytisins. Tillögurnar voru mjög umfangsmiklar og því var nauðsynlegt að vinna að þeim í norrkrum áföngum og setja í forgang breytingar á  félagslega íbúðalánakerfinu, leigumarkaðnum og húsnæðissamvinnufélögum.

Fjögur frumvörp eru nú tilbúin eða á lokastigum:

1.      Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (stofnframlög).

Frumvarpið fjallar um innleiðingu stofnframlaga ríkisins til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem verður valkostur við niðurgreiðslu vaxta til uppbyggingar félagslegs leiguíbúðamarkaðar. Framlögunum er ætlað að mynda grundvöll fyrir rekstur félagslegs leiguhúsnæðis. Samkvæmt frumvarpinu geta félög notið slíkra framlaga séu þau ekki rekin í hagnaðarskyni og leigi aðeins út íbúðir til þeirra hópa sem ég nefndi hér í upphafi, eða: Fólk í félagslega erfiðri stöðu, fatlað fólk sem þarf sérstakt húsnæði, aldraðir og námsmenn. Gert er ráð fyrir að stofnframlög sem veitt verða til kaupa eða bygginga húsnæðis skili sér í lægra leiguverði til leigjenda þess.

2.      Frumvarp til laga um húsnæðisbætur.

Frumvarpið fjallar um upptöku húsnæðisbótakerfis til að jafna megi húsnæðisstuðning við ólík búsetuform. Verði frumvarpið að lögum verður húsnæðisstuðningur við leigjendur aukin til að tryggja raunverulegt val um búsetuform og öryggi fólks á húsnæðismarkaði. Stuðningurinn mun miða við fjölda heimilismanna, óháð aldri, en ekki fjölskyldugerð eða fjölda barna, að teknu tilliti til efnahags heimilisins og húsnæðiskostnaðar.

3.      Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (réttarstaða leigjanda og leigusala).

Hér er um að ræða endurskoðun á húsaleigulögum til að auka réttaröryggi leigjenda sem og að koma á meiri festu að því er varðar samskipti leigjenda og leigusala svo komast megi hjá ágreiningi síðar. Áhersla er lögð á frjálsa samninga á milli leigusala og leigjanda og þeim settur ákveðinn lagarammi.

4.   Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum (réttarstaða búseturéttarhafa, rekstur húsnæðissamvinnufélaga).

Með þessu frumvarpi hefur farið fram endurskoðun á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Frumvarpið miðar að því að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa hér á landi í samræmi við fyrrnefnt markmið stjórnvalda um að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform þannig að einstaklingar geti í auknum mæli valið á milli leigu-, eignar- og búsetuíbúða.

Frumvarpið hefur það enn fremur að markmiði að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar stöðu þeirra, annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Frumvarpinu er ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga á sama tíma og leitast er við að auka fjölbreytileika þeirra með því að fela þeim sjálfum, og þar með félagsmönnum þeirra, ákvörðunarvald um ýmis atriði sem áhrif geta haft á rekstur félaganna þannig að umrædd atriði verði útfærð nánar í samþykktum félaganna sjálfra frekar en í lögum.

Til viðbótar þessum frumvörpum er unnið að breytingum á lögum um húsnæðismál sem fela meðal annars í sér að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði breytt þannig að verkefni hans verði færð til sérstakrar stofnunar auk verkefna sem snúa að opinberri stefnumótun í húsnæðismálum, umsjón með áætlanagerð sveitarfélaga í húsnæðismálum, uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði og veitingu stofnframlaga.

Vil ég nú gera betur grein fyrir því hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar á sviði húsnæðismála hafa fyrir fatlað fólk en eins og áður sagði var sá hópur hafður sértaklega í huga við breytingar á lögum um húsnæðismál.

Að baki er tímabil þróunar og breytinga á þjónustu við fatlað fólk.

Ábyrgð á þjónustunni var færð til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður árið 2007, ný lög um réttindagæslu tóku gildi árið 2011 og framkvæmdaráætlun í málefnum fatlaðs fólks var samþykkt á Alþingi árið 2012. Tilraunaverkefni um NPA (Notendavæna persónlega þjónustu) hefur verið starfrækt frá árinu 2011 og nú stendur yfir í ráðuneytinu heildarendurskoðun á þeim lögum sem gilda um þjónustu við fatlað fólk ásamt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Það sjónarmið að aðskilja skuli stjórnsýslu og löggjöf um húsnæðimál annars vegar og þjónustu við fatlað fólk hins vegar hefur verið að ryðja sér til rúms. Auka skuli möguleika fatlaðs fólks til þess að velja sér búsetu og að þjónustuna skuli veita þar sem fólk kýs að búa. Af því leiðir að dregið verði úr því sjónarmiði að þjónusta við fatlað fólk sé eingöngu veitt á tilteknum stöðum, s.s. sambýlum eða annars konar þjónustukjörnum og að fólk þurfi að flytjast í tiltekið húsnæði til þess að geta notið þjónustunnar. Reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu nr. 1054/2010 og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks endurspeglar þessa hugmyndafræði. Fyrrnefnt tilraunaverkefni um NPA hefur einnig styrkt þessa þróun þar sem einstaklingurinn ræður sjálfur hvar og hvenær þjónusta við hann er veitt.

Fatlað fólk, rétt eins og aðrir íbúar þessa lands, á rétt á valmöguleikum þegar kemur að húsnæði, bæði hvað varðar búsetuform, en einnig hvað varðar gerð húsnæðis og staðsetningu þess. Það er því eðlileg þróun að fatlað fólk eigi val um búsetuform þannig að það geti valið á milli leigu- eignar- og búsetuíbúða í samræmi við óskir þess.

Fatlað fólk mun að sjálfsögðu eiga sama rétt og aðrir til þess að leigja húsnæði annað hvort hjá sveitarfélögum eða hjá leigufélögum eins og þeim sem ég fjallaði um áðan svo og til að gerast félagsmenn og búseturéttarhafar í húsnæðissamvinnufélögum. Þá munu tillögur um stofnframlög nýtast til uppbyggingar á leigu- og búsetuíbúðum fyrir fatlað fólk á sama hátt og fyrir aðra en eins og ég nefndi áðan þá er fatlað fólk einn þeirra fjögurra hópa sem stofnframlögin eiga að nýtast.

Fatlað fólk mun einnig njóta góðs af upptöku húsnæðisbótakerfis sem miðar að því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Nýtt kerfi mun koma með ríkari hætti til móts við fatlað fólk á leigumarkaði, en eins og við vitum er minna um að að fatlað fólk búi í eigin húsnæði og hefur að þeim sökum ekki notið opinbers húsnæðisstuðnings í sama mæli og aðrir.

Ég tel einnig mikilvægt að undanþáguákvæði gildandi húsaleigulaga, sem kveður á um að heimilt sé að víkja frá annars ófrávíkjanlegum ákvæðum laganna við leigu íbúðarhúsnæðis til ákveðinna hópa, verði fellt brott. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að víkja frá einstökum ákvæðum húsaleigulaga með samningi vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, s.s. að kveða á um styttri uppsagnarfrest leigusamnings, þegar um er að ræða ákveðna hópa fólks og nefnd dæmi um slíka hópa, þ.e. námsmenn, aldraða og öryrkja, án þess að um tæmandi upptalningu sé að ræða. Mér þykir óeðlilegt að lögin hafi að geyma svo opna heimild til að víkja frá ákvæðum laganna sem annars eru alla jafna ófrávíkjanleg, enda er það meginregla laganna að óheimilt sé að semja um að leigjandi íbúðarhúsnæðis taki á sig ríkari skyldur og öðlist minni réttindi en lögin mæla fyrir um. Ég tel því mikilvægt að áhersla verði lögð á að tryggja rétt leigjenda gagnvart leigusölum og þá ekki síst þeirra hópa sem kunna að standa höllum fæti við gerð húsaleigusamninga. Hef ég því talið nauðsynlegt að umrætt ákvæði verði fellt brott.

Að lokum er rétt að árétta að það er markmið mitt að fatlað fólk fái notið, til jafns við aðra, þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á fyrirkomulagi húsnæðismála hér á landi.

Ég hef í þessari vinnu reynt að horfa heildstætt á húsnæðismál landsmanna þannig að þær lausnir og þeir valmöguleikar sem verði í boði henti öllum, þar með talið fötluðu fólki. Þannig verði stefnumörkum í húsnæðismálum almennt einnig stefnumörkun í húsnæðismálum fatlað fólks.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum