Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur VIRK starfsendurhæfingar 2015

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra á ársfundi VIRK 2015


Góðir gestir ársfundar VIRK.

Ársfundir marka ávallt tímamót, þar sem annars vegar er litið yfir farinn veg í lærdómsskyni – og hins vegar horft til framtíðar og stefnan mörkuð.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeirri þróun sem átt hefur sér stað hjá Virk og þeim árangri sem náðst hefur. Atvinnutengd starfsendurhæfing er stórt og mikilvægt samfélagslegt verkefni og við gerum okkur sífellt betur grein fyrir því hve miklu skiptir að styðja fólk til virkni og vinnu þegar þess þarf með. Það hafa náðst mikilvægir áfangar á sviði starfsendurhæfingarmála sem við munum byggja á til framtíðar.

Fjöldi einstaklinga sem leitar til VIRK vex ár frá ári og um 72% einstaklinganna eru komnir i virkni, atvinnu eða nám við útskrift. Þannig hefur tekist að endurhæfa sífellt fleiri til vinnu sem óneitanlega felur í sér mikilvægan samfélagslegan ávinning og þá ekki síst fyrir einstaklingana sjálfa. Það er líklega fátt erfiðara fólki en að búa við aðgerðaleysi, þar sem því fylgir iðulega vanmáttarkennd og efasemdir um tilgang lífsins. Einnig er þessi árangur dýrmætur atvinnulífinu og samfélaginu í heild sem fær að njóta krafta þessa fólks. Vinna er ein lykilforsenda velferðar, hvort sem litið er til einstaklinga eða samfélagsins í heild.

Eftir að lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2010 hafa mun fleiri en áður farið á endurhæfingarlífeyri og hjá Tryggingastofnun er lögð á það áhersla að sem allra flestum sé beint inn í endurhæfingu áður en til mats á örorku kemur. Þar hefur VIRK-starfsendurhæfingarsjóður gegnt mikilvægu hlutverki. Hafa þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum því meðal annars leitt til þess að öryrkjum á Íslandi hefur ekki fjölgað eins ört og margir höfðu búist við. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut með það að markmiði að það takist að endurhæfa sem flesta, öllum til hagsbóta, og fækka á sama tíma þeim sem þiggja örorkubætur, bæði úr almannatryggingakerfinu og eins úr lífeyrissjóðum.

 

Góðir gestir.

Ég lét þess getið á síðasta ársfundi Virk að ég hef látið undir höfuð leggjast að ræða um fjármál og framlög til VIRK. Ég gat þess einnig að flest benti til að sjóðurinn væri offjármagnaður, en uppsafnað framlag í varasjóð Virk var fyrir árið 2013 tæpir 2,3 milljarðar króna. Ég sagði enn fremur að það væri mikilvægt að halda áfram þeirri þríhliða kostnaðarskiptingu sem verið hefur og að ég væri ekki í vafa um að við myndum finna farsæla lausn sem tryggir rekstur starfsendurhæfingar í landinu í samræmi við nauðsynlegt umfang þessa mikilvæga verkefnis. Það hefur nú tekist.

Þann 4. mars síðastliðinn náðist samkomulag á milli stjórnvalda og þeirra aðila sem standa að Virk sem fól það í sér að ég ásamt fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja til í frumvörpum til fjárlaga að Alþingi veiti framlög ríkisins til starfsendurhæfingarsjóða. Þau framlög munu samkvæmt samkomulaginu verða 200 milljónir króna á þessu ári, 650 milljónir á árinu 2016 og á árinu 2017 verður framlagið fjárhæð sem nemur 0,06% af gjaldstofni tryggingagjalds, eins og gjaldstofninn er áætlaður í fjárlögum fyrir það ár.

Í samkomulaginu felst að öllum þeim sem atvinnutengd starfsendurhæfing getur gagnast til að verða virkir á vinnumarkaði verður tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing hjá VIRK sem er eini starfandi starfsendurhæfingarsjóðurinn og er það í samræmi við ákvæði laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Þá er enn fremur kveðið á um það að skipulagsskrá VIRK verði breytt hér í dag á ársfundi sjóðsins þannig að við bætist stjórnarmaður skipaður af félags- og húsnæðismálaráðherra og sé ég að það er einmitt einn af dagskrárliðum fundarins í dag.

Síðast en ekki síst er það undirstrikað í samkomulaginu að aðilar þess eru sammála um þá brýnu þörf að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats innan almannatryggingakerfisins og mats á orkutapi innan lífeyrissjóðakerfisins. Þetta tel ég vera gríðarlega mikilvægt mál og að þessu er nú unnið í nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar, sem Pétur H. Blöndal alþingismaður stýrir.

Ég veit að þetta er ekki einfalt mál og þrátt fyrir mikilvægi þess að taka upp starfsgetumat hér á landi þurfum við að flýta okkur hægt og læra af reynslu annarra þjóða. Staðreyndin virðist nefnilega vera sú að í engu af þeim ríkjum sem starfsgetumat hefur verið tekið upp hefur verið fundin töfralausn sem er algjörlega gallalaus. Því þurfum við að kynna okkur vel hvað hefur tekist vel í þessu sambandi og hvaða vandamál hafa komið upp.

Við þurfum einnig að hlusta á raddir þeirra sem standa daglega frammi fyrir þeirri áskorun að búa við skerta starfsgetu. Það breytir þó ekki því að núverandi fyrirkomulag er ekki ásættanlegt og því er brýnt að við leggjum okkur öll fram við að ná markmiðinu um að taka upp starfsgetumat hér á landi og að við gerum það með þeim hætti að við náum þeim ávinningi sem af því mun hljótast.

Í þessu efni er mikilvægt að hafa í huga að starfsendurhæfing eða starfsgetumat duga ekki ein og sér til þess að tryggja atvinnuþátttöku þeirra sem ekki hafa fulla starfsgetu. Samhliða þurfum við að tryggja það að til séu störf fyrir þann hóp einstaklinga sem hefur skerta vinnufærni. Atvinnurekendur leika hér stórt hlutverk, því vinnumarkaðurinn verður að hafa til að bera ákveðinn sveigjanleika og vilja til þess að haga störfum þannig að tillit sé tekið til einstaklinga sem þess þurfa með. Skýr stefna í starfsmannamálum sem gerir ráð fyrir því að í starfsmannahópnum séu fyrir hendi mismunandi aðstæður og þarfir einstakra starfsmanna er á ábyrgð vinnuveitenda. Þá skipta aðgengismál einnig máli og leggja þarf aukna áherslu á sveigjanleika í starfi.

 

Við búum að því á Íslandi að það er mikið af hlutastörfum í boði á innlendum vinnumarkaði en ég er ekki fullviss um að þau hlutastörf henti í öllum tilfellum þeim hópi sem ekki hefur fulla vinnugetu. Ef til vill eru það ekki eingöngu hlutastörfin sem öryrkjar þurfa heldur jafnvel sveigjanlegri vinnutími og meiri sveigjanleika í forföllum þar sem þeir geta verið með fulla starfsgetu á milli þess sem þeir kunna að vera frá vinnu vegna veikinda. Að þessu þurfum við að huga og hvernig unnt sé að bregðast við þessu.

Það væri ef til vill áhugavert að kanna nánar hvernig fyrirtæki og stofnanir á innlendum vinnumarkaði, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, mæti ólíkum þörfum fólks með skerta starfsgetu og þá meta í framhaldinu hvort svigrúm væri til að skapa fleiri störf fyrir þennan hóp einstaklinga. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að atvinnuþátttaka fatlaðs fólks er almennt minni en ófatlaðs fólks og störfin sem það fólk fær eru oft illa launuð, réttindi þess takmörkuð og það er oft í  störfum sem eru aðgreind frá hinum almenna vinnumarkaði. Þetta hefur valdið því að atvinnurekendur ofmeta vandamál sem felast í því að ráða til sín fatlaða einstaklinga, vanmeta framlag þeirra og að viðhorf þeirra séu fordómafull. Við þurfum að berjast gegn fordómum gagnvart atvinnuþátttöku þeirra sem búa við skerta starfsgetu og tryggja að þeir geti gengið að störfum sem henta   hæfileikum hvers og eins.

Lykilinn að árangri er alltaf góð samvinna. Gott samstarf þeirra stofnana sem undir félags- og húsnæðismálaráðherra heyra og Virk er og verður forsenda þess að áfram muni vel til takast í hinu mjög svo verðuga verkefni að hjálpa fólki aftur inn á vinnumarkaði og veit ég að við munum öll leggja okkur fram við þá samvinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum