Hoppa yfir valmynd
24. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 2016

Ráðherra flytur ræðu sína
Ráðherra flytur ræðu sína

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Virðulegu sveitarstjórnarmenn, stjórnendur og stefnumótendur og annað starfsfólk sveitarfélaga, fagfólk og allt gott áhugafólk um betri byggð, hvar sem þið starfið.

Fyrst af öllu vil ég þakka fyrir að fá tækifæri til að segja nokkur orð á þessari ráðstefnu sem jafnan er vel sótt og fæstir sem koma að sveitarstjórnarmálum og daglegum reksti sveitarfélaga vilja láta fram hjá sér fara.

Ég veit að við deilum öll áhuga og einlægum vilja til þess að skapa góð og lífvænleg samfélög um allt land þar sem íbúar í hverju byggðarlagi búa við húsnæðisöryggi, atvinnuöryggi, félagslegt öryggi og öll þau helstu gæði sem við flest teljum nauðsynlegan þátt í daglegu lífi. Þessir þættir eru ekki sjálfsagðir, það kostar elju og útsjónarsemi að byggja upp samfélag sem stendur undir þessum kröfum – og það þarf stöðugt að vera á verði til að viðhalda þeim og jafnframt til að fylgja eftir þróun samfélagsins sem breytist stöðugt og þar með kröfur og væntingar íbúanna.

Sveitarfélögin hafa samkvæmt lögum mikið sjálfstæði en ávallt þó innan ákveðins lagaramma sem Alþingi setur, hvort sem um er að ræða fagleg eða fjárhagsleg málefni. Verkefni sveitarfélaganna eru mörg og mikilvæg og hlutverk sveitarfélaganna fer vaxandi eftir því sem stór verkefni flytjast á þeirra ábyrgð. Samskipti ríkis og sveitarfélaga eru og verða mikil og því er óendanlega mikilvægt að gott traust ríki milli fulltrúa sveitarstjórna og þingmanna og stjórnvalda á hverjum tíma. Það þarf samráð og samvinnu um stór og mikilvæg verkefni og á það vil ég leggja áherslu í samskiptum mínum við sveitarfélögin í landinu.

Eitt af risastórum og mjög mikilvægum verkefnum þar sem ríki og sveitarfélög verða að vera samstíga eru húsnæðismál. Fátt er fólki mikilvægara en öruggt þak yfir höfuðið og þarf ekki að fjölyrða um þann fjölþætta vanda sem blasir við ef húsnæði er ekki tryggt. Húsnæðismál eru í mínum huga eitt stærsta viðfangsefni stjórnvalda þessi misserin og ég hef lagt á þau höfuðáherslu frá því að ég tók við ráðherraembætti.

Húsnæðismál

Í maí síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin yfirlýsingu um ýmsar aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þessi yfirlýsing felur í sér ýmis stór verkefni og viðfangsefni sem varða almenning í landinu og það á ekki síst við um veigamiklar aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum. Þessar aðgerðir eru að miklu leyti útfærðar, enda byggði húsnæðishluti yfirlýsingarinnar á viðamikilli undirbúningsvinnu sem þá hafði farið fram, ekki síst í nefnd á mínum vegum sem fjallað hafði um framtíðarskipan húsnæðismála.

Ég ætla að leyfa mér að að fara orðrétt með texta úr yfirlýsingunni, til að undirstrika vægi hennar og draga fram það víðtæka samráð sem að baki henni liggur. Með leyfi fundarstjóra: „Ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, skuldbindur sig til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stuðlað verður að því að landsmenn hafi aukið val um búsetuform og búi við meira öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, einkum tekjulágar fjölskyldur. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög með það að markmiði að hrinda í framkvæmd eftirfarandi aðgerðum:“

Tilvitnun lýkur hér, en ég ætla svo að rekja í stuttu máli inntak þessara aðgerða sem þarna eru kynnt – og ég legg áherslu á að þetta eru ekki aðeins fögur fyrirheit – þetta eru loforð um aðgerðir sem margar eru að fullu eða mestu komnar á framkvæmdastig.

Framundan eru viðamiklar úrbætur í málaflokki sem stendur illa og varðar marga. Auðvitað er stór hluti landsmanna ágætlega settur í öruggu húsnæði, en þeir eru hins vegar allt of margir sem búa við háa leigu á ótryggum leigumarkaði, eða eru að glíma við fasteignakaup sem eru þeim fjárhagslega mjög erfið eða jafnvel ofviða.

Aðstæður á húsnæðismarkaði krefjast þess að jöfnum höndum sé ráðist í aðgerðir til að styrkja leigumarkaðinn og bæta stöðu leigjenda, en jafnframt að gera fleirum mögulegt að ráðast í íbúðakaup án þess að reisa sér hurðarás um öxl.

En þá að helstu aðgerðum í húsnæðismálum samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda:

Lagður verði grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með áherslu á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Stefnt er að byggingu 2.300 íbúða á næstu fjórum árum. Þetta kerfi verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema um 30% af stofnkostnaði. Framlag sem þetta ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur mun ekki nema hærra hlutfalli en um 20 – 25% af tekjum. Með þessu móti er stefnt að því að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Við uppbyggingu á hagkvæmu félagslegu leiguhúsnæði er horft til þess að fela slík verkefni sveitarfélögum – eða félögum eða sjálfseignarstofnunum sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa það að langtímamarkmiði að eiga og reka leiguhúsnæði fyrir leigjendur sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verða skorður til að fyrirbyggja að íbúðir verði teknar út úr félagslega leigukerfinu nema með sérstakri heimild þar sem ákvæði verði um ráðstöfun söluhagnaðar. Til að auka framboð leiguíbúða vil ég einnig nefna áform um að lækka skattlagningu á leigutekjur af íbúðum í eigu einstaklinga.

Áformuð er veruleg hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016-2017. Það endurspeglast í fjárlagafrumvarpi næsta árs að aðgerðir í húsnæðismálum eru forgangsverkefni. Gert er ráð fyrir að rúmum 2,6 milljörðum króna verði varið samtals til uppbyggingar félagslegs húsnæðis og í nýtt húsnæðisbótakerfi. Rúmum 1,1 milljarði króna verður varið til hækkunar húsnæðisbóta. Grunnfjárhæð bótanna og frítekjumörk verða hækkuð og við útreikning bótanna munu fjárhæðir taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna líkt og verið hefur. Með þessu móti er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili. Markmiðið er að auka húsnæðisstuðning við leigjendur þannig að hann verði jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins.

Auk þeirra fjármuna sem varið verður til aukins húsnæðisstuðnings við leigjendur er í fjárlagafrumvarpinu miðað við að verja 1,5 milljarði króna í uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis á næsta ári.

Þótt það sé ekki á mínu forræði, nefni ég einnig áform um aukinn stuðning við kaup á fyrstu íbúð, þar sem hugmyndin er að hvetja til húsnæðissparnaðar, til dæmis þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð, án skattlagningar.

Samvinna ríkis og sveitarfélaga

Ríki og sveitarfélög verða að taka höndum saman um lausnir og leiðir að því að lækka byggingarkostnað og auka framboð af ódýru húsnæði. Ríkið getur lagt sitt af mörkum með endurskoðun byggingareglugerðar og skipulagslaga og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí er lögð rík áhersla á þennan þátt húsnæðismála. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að í byggingareglugerð verði tekinn verði inn nýr flokkur mannvirkja sem verði undanþeginn ákvæðum um altæka hönnun. Það er engin spurning í mínum huga að með útsjónarsemi og svolítið breyttu hugarfari er mögulegt að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði með auknu framboði íbúða sem henta fyrstu kaupendum og efnaminni einstaklingum eða öðrum þeim sem eru að koma undir sig fótunum. Nýverið var ég í Danmörku til að kynna mér viðleitni þarlendra til þess að tryggja ungu fólki aðgang að íbúðum til kaups á viðráðanlegu verði og mér sýnist við geta sótt ýmislegt í hugmyndabanka þeirra og raunar fleiri nágrannaþjóða sem eru í sömu hugleiðingum.

Góðir gestir.

Sveitarfélögin fara með skipulagsvald innan sinna stjórnsýslumarka og hafa þar með mjög mikilvægt verkfæri í höndunum til að stýra þróun byggðar til samræmis við þarfir íbúanna. Það skiptir miklu máli hvernig staðið er að skipulagi og uppbyggingu nýrra hverfa og hvernig lóðum er ráðstafað. Þarna geta sveitarfélögin sett margvísleg skilyrði sem tryggja blandaða byggð og fjölbreytta valkosti í húsnæðismálum. Lóðaframboð, lóðaverð, fyrirkomulag lóðaúthlutana og margt fleira kemur til sem getur skipt miklu máli um uppbyggingu húsnæðis hjá sveitarfélögunum og hve vel það mætir ólíkum þörfum íbúanna.

Þær aðgerðir og áætlanir sem ég hef rakið hér miða allar að því að tryggja fólki aukið öryggi í húsnæðismálum og eru og verða unnar í góðu og miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög þar sem byggt er á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóps um húsnæðismál.

Ágæta samkoma.

Ég hef notað allan tíma minn hér til að ræða um húsnæðismál – einfaldlega vegna þess að í mínum huga er þetta meðal allra stærstu verkefnanna sem við, ríki og sveitarfélög, stöndum frammi fyrir nú um stundir. Auðvitað eru mörg önnur mál sem eru á minni könnu sem félags- og húsnæðismálaráðherra sem ykkur fýsir eflaust um að heyra. Eitt stórra mála er auðvitað endurmatið á framkvæmd yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Sú vinna hefur tekið heldur lengri tíma en til stóð, en mér sýnist þó að við sjáum brátt fyrir endann á því máli.

Varðandi málefni fatlaðs fólks má nefna að velferðarráðuneytið hefur fengið óskir frá nokkrum sveitarfélögum um undanþágur frá því að uppfylla skilyrði um lágmarksíbúafjölda innan þjónustusvæðis. Undanþáguheimildir vegna þessa eru skýrar í lögum þar sem undanþága skal veitt á á grundvelli landfræðilegra aðstæðna, enda hafi viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög sýnt fram á getu til að veita lögbundna þjónustu. Nokkrum sveitarfélögum var veitt undanþága frá viðmiði um íbúafjölda í febrúar síðastliðnum og ráðuneytið er nú að leggja lokahönd á afgreiðslu fyrirliggjandi beiðna um þetta efni.

Ég vil loks tæpa á málefni sem töluvert hefur verið rætt og stundum af miklum tilfinningahita, bæði nú og áður, en þá er ég að vísa til heimildar fyrir sveitarfélögin til að skilyrða fjárhagsaðstoð. Eftir því sem ég kemst næst var frumvarp um þetta efni fyrst lagt fram á alþingi árið 1996 en var þá synjað og sama gerðist þegar frumvarp þessa efnis fór fyrir Alþingi árið 2009. Bæði einstök sveitarfélög og Samband sveitarfélaga hafa ítrekað óskað eftir þessari heimild og ég tel að í frumvarpi sem nú liggur fyrir og verður lagt fram á haustþingi sé búið að skapa slíkum skilyrðingum góða og vandaða umgjörð sem verður til bóta og í þágu einstaklinganna sem málið á allt að snúast um, verði frumvarpið að lögum.

Góðir gestir.

Við Halldór, formaður Sambands sveitarfélaga, ætlum að setjast á rökstóla eftir smástund, og þá ætti að gefast svigrúm til að fara yfir ýmis önnur mál sem varða samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag. Ég vil eiga góð og traust samskipti við sveitarfélögin í landinu og hef góða reynslu af þeim kynnum sem ég hef átt hingað til, jafnt við sveitarstjórnarmenn, og faglega stjórnendur hjá sveitarfélögunum. Ég er ekki í vafa um að svo mun verða áfram.

Þakka ykkur fyrir, góðir gestir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum