Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Fræðadagar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2013

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Heil og sæl öll og kærar þakkir fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á þessum fimmtu Fræðadögum heilsugæslunnar sem nú eru að hefjast. Metnaðarfull og áhugaverð dagskrá.

Ég þykist vita að starfsfólk heilsugæslunnar sé önnum kafið alla daga, enda koma stöðugt til úrlausnar aðkallandi verkefni sem fæst þola bið. Það er engu að síður mikilvægt – og kannski einmitt sérstaklega mikilvægt þegar annríkið er mikið – að taka sér tíma frá daglegu amstri og ræða málefni heilbrigðisþjónustunnar í víðara samhengi en færi gefst á frá degi til dags. Stundum er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvar við stöndum, á hvaða leið við erum og hvernig við ætlum þangað. Endur- og símenntun heilbrigðisstarfsfólks er sömuleiðis mjög mikilvæg. Fræðadagar heilsugæslunnar eru því að öllu leyti nauðsynlegt innlegg í faglega umræðu og uppbyggilegt starf.

Það er tvímælalaust mikilvægt fyrir fagfólk í heilbrigðiskerfinu að hittast, skiptast á skoðunum og hugmyndum og fræða hvert annað. Það skiptir líka miklu máli að hver og einn horfi stundum út fyrir sérsvið sitt, gefi sér tóm til að skoða heildarmyndina og velta fyrir sér hvernig sú þjónusta sem veitt er í heilbrigðiskerfinu virkar. Það er mikilvægt að skoða málin út frá heilbrigðiskerfinu sjálfu og innra skipulagi þess – en ekki síður út frá því hvernig kerfið skilar hlutverki sínu og þjónar notendunum sem allt á auðvitað að snúast um. Notendurnir og hvernig þeim vegnar er mælikvarðinn á skipulag, öryggi og gæði þjónustunnar.

Við könnumst öll við orðatiltækið; meira vinnur vit en strit. Nú ætla ég ekki að frýja neinum vits hér en ég velti því hins vegar fyrir mér hvort við þurfum ekki að skoða betur hvernig staðið er að því að veita heilbrigðisþjónustu á heildina litið. Hvort ekki þurfi að skoða betur árangurinn af því sem gert er og hvort við getum í einhverjum tilfellum fundið aðrar og betri leiðir til að ná árangri.

Ég veit að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er orðið langþreytt eftir niðurskurð liðinna ára og leitt á því að heyra æ ofan í æ að enn sé þó hægt að ganga lengra í þeim efnum með því að skera burt fitu og hagræða. Þannig sé hægt að veita sömu þjónustu fyrir minni pening. Ég vil taka það fram að þetta er ekki sú hugsun sem ég er að reyna að koma á framfæri. Það sem við þurfum að skoða er hvort við getum mögulega veitt öðruvísi þjónustu, hagkvæmari og skilvirkari þjónustu sem skilar jafngóðum eða betri árangri þegar horft er til útkomunnar. Og þegar ég tala um útkomuna á ég við þegar við horfum á heilsufar þeirra sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.

Þegar fólk er undir miklu vinnuálagi – og álagið heldur bara áfram að aukast, þá er flestum eðlilegt að hlaupa sífellt hraðar. Fólk reynir að gera meira á skemmri tíma, hamast eins og hægt er í von um að sjá verkefnalistann styttast, eða í það minnsta koma í veg fyrir að hann lengist frekar. Ég vil taka það fram hér að ég ætlast ekki til þess að starfsfólk heilbrigðiskerfisins hlaupi hraðar en það gerir nú þegar. Mig langar hins vegar að fá fagfólk heilbrigðiskerfisins til að staldra við og ræða hvort og hvað megi gera til að breyta aðferðum við veitingu heilbrigðisþjónustu. Það er mikil og brýn þörf fyrir uppbyggilega umræðu af þessu tagi. Við verðum að leita nýrra leiða og lausna áður en verkefnið ber okkur ofurliði.

Efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008 bar brátt að, þar sem segja má að allar aðstæður hafi gjörbreyst á einni nóttu. Við slíkar aðstæður á uppbyggileg og lausnamiðuð umræða erfitt uppdráttar og það hefur einmitt verið vandi okkar á liðnum árum. Nú þurfum við að snúa vörn í sókn. Það þarf að greina þjónustuna og kerfið, skoða hvað gengur vel og hvað miður. Við þurfum opna og stuðla að skapandi umræðu þar sem fólk er óhrætt við að leggja til breytingar og nýjar leiðir.

Góðir fundarmenn.

Ástæðan fyrir því að ég ræði við ykkur á þessum nótum er ekki fyrst og fremst þröngur fjárhagur ríkissjóðs, heldur miklu fremur sú staðreynd að útgjöld til heilbrigðismála fara ört vaxandi, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar í hinum vestræna heimi. Spár OECD gera ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum verði ekkert að gert. Þörf fyrir umræðu, nýja sýn og nýja nálgun er því alls ekki bundin við litla Ísland, heldur snýst um framtíð heilbrigðisþjónustu víða um lönd. Þarfir fjöldans fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins hafa breyst mikið á liðnum áratugum. Helstu heilsufarsógnir nútímans eru faraldur ósmitnæmra, langvinnra sjúkdóma sem margir hverjir teljast til svokallaðra lífsstílssjúkdóma. Það er ástæða til að ætla að breytingar á sjúkdómabyrðinni og aðrar lýðheilsuógnir en þær sem áður voru meginvandi heilbrigðiskerfisins kalli á endurskoðun, nýjar nálganir og nýjar lausnir. Þið þekkið eflaust öll hvernig útgjöld til lyfjamála aukast einnig statt og stöðugt. Sífellt koma á markaðinn ný lyf, mörg þeirra geysilega dýr, jafnvel þannig að meðferð eins sjúklings getur hlaupið á tugum milljóna á ári.

Í níunda tölublaði Læknablaðsins 2013 er ágæt grein eftir læknana Pál Torfa Önundarson og Einar Stefán Björnsson þar sem þeir ræða um ábyrgð lækna sem sitja undir stöðugum þrýstingi lyfjafyrirtækja um að skipta út gamalreyndum og ódýrum lyfjum fyrir önnur ný og miklu dýrari. Þeir nefna dæmi um ný blóðþynningarlyf sem myndu auka meðferðarkostnað um 544 milljónir króna á ári ef þeim væri beitt í stað hinna gömlu. Þeir telja raunhæfan ávinning lítinn og snúast meira um þægindi sjúklinga fremur en virkni og öryggi meðferðarinnar. Fyrir aukinn kostnað vegna notkunar nýju lyfjanna væri hægt að reka Blóðbankann í heilt ár svo tekið sé dæmi sem greinarhöfundarnir nefna.

Hér á landi eru ýmsir þættir heilbrigðisþjónustunnar framúrskarandi í alþjóðlegum samanburði þegar mat er lagt á árangurinn, þ.e. á árangur meðferðarinnar á heilsufar sjúklinganna og lýðheilsu landsmanna. Hér vil ég sérstaklega nefna góðan árangur í ungbarna- og mæðravernd innan heilsugæslunnar og eins heilsugæslu í skólum. Ég nefni líka árangur tengdan skimun og meðferð ýmissa krabbameina, ekki síst brjóstakrabbameina, meðferð tengdri kransæðastíflu, ekki síst hjartaþræðingar og fleira mætti telja. Það er full ástæða til að skoða hvað liggur að baki góðum árangri, leita skýringa og hvort hægt sé að yfirfæra eitthvað yfir á aðra þætti þar sem árangur er ekki sem skyldi.

Meira eða minna í öllum heilbrigðiskerfum Vesturlanda er almennt talið að sóun sé veruleg og nefndar hafa verið tölur allt upp í þrjátíu prósent í því samhengi. Þessi sóun stafar ekki af því að fólk vinni ekki vinnuna sína heldur er hún rakin til kerfislægra þátta sem erfitt getur verið að höndla. Ég hef ekki frekar en flestir aðrir lausnir á þessu en við þurfum að horfast í augu við staðreyndir og gera allt sem hægt er til að uppræta kerfislægar skekkjur sem kosta okkur útgjöld án ávinnings.

Ég tel ekkert ofsagt þótt ég haldi því fram hér að við stöndum á tímamótum sem krefjast endurskoðunar á öllum þáttum heilbrigðiskerfisins. – Aukin áhersla á þætti sem geta bætt lýðheilsu er hluti af þessu. Þá er ég ekki fyrst og fremst að vísa til heilbrigðisþjónustunnar, heldur marga annarra þátta sem leitt geta til bættrar lýðheilsu. Breytingar sem verða á lífsstíl almennings geta verið afdrifaríkar, jafnt til góðs og ills. Því skiptir geysilega miklu máli að leggja rækt við forvarnir og fræðslu og ýta undir það að fólk taki sjálft sem mesta ábyrgð á eigin heilsu með því að temja sér heilbrigða lífshætti.

Góðir gestir.

Ég hugsa að flestum ykkar sé kunnugt um þau verkefni í heilbrigðiskerfinu sem ég hef lagt áherslu á að ráðist verði í sem allra fyrst. Þar nefni ég eitt samræmt greiðsluþátttökukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu, innleiðing þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu með heilsugæsluna í lykilhlutverki, innleiðingu hreyfiseðla í meðferðarskyni og sólarhringssímaþjónustu ásamt gagnvirkri vefsíðu til að bæta aðgang fólks að ráðgjöf og upplýsingum um heilbrigðisþjónustuna og einnig vil ég nefna sameiningu heilbrigðisstofnana.

Ég hef valið að horfa til lengri framtíðar í þessu erindi, þótt verkefnin í samtímanum séu mörg og ærin. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir mega samt ekki verða fyrir okkur eins og trén sem byrgja sýn á skóginn. Við þurfum að horfa fram á við, hugsa skýrt og vera opin fyrir allri nýbreytni sem getur skapað okkur tækifæri og aukinn ávinning.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum