Hoppa yfir valmynd
3. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Vetrarráðstefna sálfræðinga á Norður- og Austurlandi

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á vetrarráðstefnu sálfræðinga á Norður- og Austurlandi sem haldin var á Akureyri 24. febrúar 2014.

Sælir sálfræðingar og takk fyrir að bjóða mér á vetrarráðstefnu ykkar til að segja nokkur orð.

Það sést vel á dagskrá ráðstefnunnar hvað viðfangsefni sálfræðinga varða mikilvæga þætti velferðarinnar og snerta á málefnum sem eru oft til umræðu í samfélaginu – og ekki að ástæðulausu. Lengi býr að fyrstu gerð er orðatiltæki sem felur í sér mikil sannindi og liggur beint við að heimfæra á mikilvægi þess að huga vel að aðbúnaði og þroskaskilyrðum barna frá fyrstu tíð.

Leiðin frá bernsku til fullorðinsára er löng og á þeirri leið geta verið margvíslegir krókar og keldur. Það skiptir miklu máli að búa börnum sem best skilyrði með góðum aðbúnaði, sterkum og jákvæðum fyrirmyndum og hvatningu til að þroska félagsfærnina, getu sína og hæfileika.

Margt getur farið úrskeiðis og verkefni foreldra og forráðamanna að koma barni til manns er ævintýralega viðamikið og vandasamt. Vissulega lánast þetta jafnan vel, enda skortir sjaldnast viljann til að leysa þetta vel af hendi. Það er þó að mörgu að hyggja, enda eru einstaklingarnir ólíkir, aðstæður og þarfir sömuleiðis og misjafnt hvað best hentar hverjum og einum.

Við vitum að börn og foreldrar þeirra geta þurft á ýmis konar stuðningi og ráðgjöf að halda þegar erfiðleikar gera vart við sig. Það reynist heilladrýgst að sem fyrst sé gripið inní með faglegri aðstoð og stuðningi þegar svo ber undir og forvarnarstarf er einnig mikilvægt.

Heilsugæslan getur gegnt veigamiklu hlutverki í þessum efnum og ég held að á engan sé hallað þótt ég nefni sérstaklega hvernig Heilsugæslustöðin á Akureyri hefur um langan tíma lagt rækt við að styðja foreldra í vandasömu hlutverki sínu. Þróunarverkefnið Nýja barnið sem unnið var á árunum 1992 – 1997 reyndist gott fordæmi. Þar var áhersla lögð á þverfaglegt samstarf og byggt ofan á hefðbundna mæðra- og ungbarnavernd sem þegar var til staðar. Verkefnið fékk árið 1997 viðurkenningu Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og hugmyndafræðin að baki verkefninu hefur verið innleidd víða með góðum árangri.

Ég er eindreginn talsmaður þess að heilsugæslan í landinu fái skýrara og sterkara hlutverk en hún hefur haft hingað til og verði hinn raunverulegi fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu sem svo lengi hefur verið rætt um. Til þess að svo megi verða tel ég mikilvægt að efla þar þverfaglegt samstarf og ég tel sálfræðinga meðal þeirra fagstétta sem gætu styrkt verulega þá þjónustu sem heilsugæslan þarf að vera fær um að veita.

Það hefur sýnt sig að tilfinningavandi, þunglyndi og kvíði þjakar marga þeirra sem leita til heilsugæslunnar. Árið 2011 var gerð rannsókn á algengi tilfinningavanda og úrræða á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan leiddi í ljós að a.m.k. þriðjungur þeirra sem þangað leitaði átti við einhvers konar tilfinningavanda að etja og um helmingur fann fyrir einhverjum einkennum þunglyndis eða kvíða, allt frá vægum einkennum til alvarlegra.

Meiri hluti þessa hóps eða um 80% var í einhvers konar meðferð af þessum ástæðum. Flestir þeirra voru í lyfjameðferð en einungis um 11% þeirra í sálfræðimeðferð. Það sem er hins vegar sláandi var að um 53% þeirra töldu sjálf að sálfræðimeðferð myndi vera þeim gagnleg og heimilislæknarnir voru enn frekar á þeirri skoðun, því þeir mátu hana gagnlegt úrræði fyrir 58% af þessum hópi.

Íslendingar eiga allmörg vafasöm met í notkun lyfja og þar eru áberandi ýmis örvandi lyf, róandi lyf, svefnlyf og þunglyndislyf svo eitthvað sé nefnt. Notkun metylfenidatslyfja vegna meðhöndlunar ofvirkni og athyglisbrests hér á landi hefur vakið mikla athygli. Skemmst er að minnast þegar Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna sá ástæðu til að vara við þessari miklu notkun hér á landi og mögulegum afleiðingum hennar. Í þessu máli er mikið í húfi. Við verðum að finna leiðir til að stemma stigu við þessari miklu notkun með því að tryggja vandaða greiningu og skoða hvort og hvenær er hægt að beita öðrum úrræðum en lyfjameðferð.

Auðvitað eru lyf oft besta og áhrifaríkasta leiðin til að meðhöndla sjúkdóma en það bendir samt ýmislegt til að við vanmetum aðrar leiðir og lausnir, ekki síst þegar um er að ræða vandamál sem tengjast geðrænum eða andlegum vanda. Þarna held ég að við eigum færi til sóknar með því að leggja rækt við fjölbreyttari úrræði.

Í byrjun þessa árs hleypti ég formlega af stokkunum stóru verkefni sem gengur undir heitinu Betri heilbrigðisþjónusta.

Yfirskriftin Betri heilbrigðisþjónusta felur í sér nokkur afmörkuð og skýr verkefni um endurbætur á heilbrigðiskerfinu og stefnt er að því að þau verði komin til framkvæmda að fullu árið 2017. Eitt þessara verkefna er að innleiða þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu þar sem heilsugæslan verður í lykilhlutverki. Við skipun vinnuhóps um þjónustustýringu lagði ég áherslu á að fulltrúi sálfræðinga ætti þar sæti, því eins og ég hef áður sagt, ég tel að sú stétt eigi mikið erindi inn í heilsugæsluna til að styrkja þjónustuna þar.

Góðir gestir.

Ég sé á dagskrá ráðstefnunnar að hér verður fjallað um vímuefnanotkun 10. bekkinga á Akureyri skólaárið 2013 – 2014. Það leiðir vissulega hugann að þeim vanda sem þjóðfélaginu stafar af misntokun áfengis og annarra vímugjafa og eins því hvernig við reynum að verjast honum. Þar hefur náðst góður árangur á liðnum árum. Neysla á tóbaki, áfengi og vímuefnum í grunnskólum landsins hefur dregist ört saman síðustu ár og staðan hér á landi með því allra besta sem þekkist meðal þjóða samkvæmt rannsóknum. Neyslan og viðhorf nemenda til hennar virðist hins vegar stökkbreytast þegar í framhaldsskólann kemur og eins virðist sem foreldrarnir verði mun andvaralausari og slaki á taumhaldi þegar börnin komast á framhaldsskólaaldur. Ég tel engan vafa á því að við þurfum skýra stefnu í þessum málum og áætlun um þau verkefni sem við viljum vinna að til að sporna gegn þeim vanda sem stafar af neyslu áfengis og ólöglegra vímuefna.

 

Að undanförnu hefur verið mikil umfjöllun um aðstæður barna, ungmenn með fjölþætt vandamál vegna neyslu og geðrænna vandamála. Kerfið þykir að ýmsu leyti vanbúið til að takast á við þessi mál, ekki síst vegna þess hve úrræðin eru víða og á margra hendi og vandratað um frumskóga kerfisins. Ég get ekki annað en tekið undir margt af því sem hefur verið sagt í þessum efnum og tel fulla ástæðu til að taka slíkar athugasemdir til greina, þótt ég sjái ekki í hendi hvernig þessum málum verði best fyrir komið. Þetta er eitt af mörgum stórum viðfangsefnum velferðarkerfisins sem við er að glíma og mikilvægt að rasa ekki um ráð fram.

Ég ætla mér ekki að benda á hvaða meðferðarformum skuli helst beitt við margvíslegum veikindum og vanda fólks, enda er það ekki mitt, heldur fagfólksins. Ég vil hins vegar hvetja til þess að fagfólk ræði þessi mál og að fagstéttir með mismunandi bakgrunn og menntun leggi saman í leit að bestu lausnum. Það sýnir sig á öllum sviðum að þverfagleg samvinna getur skilað miklu meiri árangri í stað þess að menn reisi í kringum sig múra og vilja ekki ráðfæra sig eða ræða við aðra en sína líka.

Góðir fundarmenn.

Ég óska ykkur góðrar og gagnlegrar ráðstefnu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum