Hoppa yfir valmynd
7. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Bráðadagur Landspítala: Þegar á reynir

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Góðir gestir.

Takk fyrir gott boð á metnaðarfulla dagskrá málþings bráðasviðs Landspítala; Þegar á reynir.

Það reynir svo sannarlega á marga þætti þegar slys eða bráð veikindi ber að. Þá er jafn gott að hver og einn sem hlutverki hefur að gegna sé reiðubúinn, þekki hlutverk sitt og verkefni og geti leyst þau af hendi fumlaust og af fagmennsku. Við slíkar aðstæður þurfa margir að vinna saman eins og ein heild, - ekkert má út af bera því minnstu mistök, hik eða fát getur haft afdrifaríkar afleiðingar.

Fyrstu viðbrögð á vettvangi geta skipt sköpum og ég sé að á dagskrá þessa málþings er áhersla lögð á sjúkraflug og mikilvægi þess. Þetta er verðugt umfjöllunarefni, því þróun heilbrigðisþjónustunnar gerir vaxandi kröfur til sjúkraflutninga eftir því sem sérhæfing eykst og hlutverk heilbrigðisstofnana breytist víða um land.

Í ljósi þess hve sjúkraflutningar skipta miklu máli þarf engan að undra að á stundum er hart tekist á um fyrirkomulag þessara mála og að áform um breytingar eru líkleg til að mæta andstöðu. Öryggi þessarar þjónustu skiptir öllu máli og því er skiljanlegt að fólk láti í sér heyra telji það að öryggi verði á einhvern hátt skert með breyttu skipulagi.

Ég vil sjálfur ekki hrapa að ákvörðunum og því taldi ég nauðsynlegt  að endurskoða áform forvera míns í velferðarráðuneytinu um fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni sem taka átti gildi í byrjun þessa árs. Það er ekki ólíklegt að fyrirhuguð sameining heilbrigðisstofnana muni hafa áhrif á það hvernig sjúkraflutningum verður best hagað í framtíðinni svo tryggja megi öryggi fólks í einstökum byggðarlögum. Þetta vil ég skoða í samhengi og því taldi ég ekki tímabært að ráðast í umræddar breytingar nema þar sem augljóst væri að fækkun bíla hefði ekki neikvæð áhrif á þjónustuna.

Ég útiloka alls ekki að breytingar verði gerðar – en þær þarfnast meiri undirbúnings. Þar tel ég ekki síst að huga verði að menntunarmálum þeirra sem að flutningunum koma og tryggja að á fámennari svæðum - þar sem ekki er hægt að tryggja skjóta aðkomu heilbrigðisstarfsfólks - sé formlegt skipulag með vettvangshjálparliðum úr hópi heimamanna sem geta veitt fyrstu aðstoð og hafi til þess nauðsynlega þjálfun og þekkingu. Þetta fyrirkomulag er þekkt og hefur reynst ágætlega.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um fyrirkomulag og framtíð sjúkraflugs, enda ræðir Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu um það sérstaklega í erindi sínu hér á eftir. Í stuttu máli þó sé ég ekki fyrir mér neinar kúvendingar hvað sjúkraflugið varðar á næstu árum. Sjúkraflug var fyrst boðið út árið 2000 og var í kjölfarið samið við þrjá aðila um að sinna þessari þjónustu.

Frá árinu 2010 hefur einn aðili; Mýflug hf. annast almennt sjúkraflug hér á landi fyrir utan þá brýnu flutninga sem Landhelgisgæslan annast með þyrlum sínum í bráðum tilvikum, einkum þegar sjúkrabílum eða flugvélum verður ekki komið við.

Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til Alþingis í ágúst á liðnu ári um sjúkraflug á Íslandi og niðurstöður þeirrar úttektar voru í heildina jákvæðar. Þar er bent á mikilvægt hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri í sjúkraflutningum sem varasjúkrahús Landspítala. Eins segir þar að upplýsingar um veður og aðstæður á flugvöllum landsins sýni að flugvöllurinn á Akureyri henti vel til sjúkraflugs og staðsetning hans sé sömuleiðis hentug miðað við landið í heild.

Að mati Ríkisendurskoðunar leiddu þær breytingar sem gerðar voru árið 2010 til verulegra umbóta á aðbúnaði og öryggi sjúklinga sem og aðstöðu lækna, sjúkraflutningamanna og aðstandenda. Fram kemur að meðalviðbragðstími flugvéla hafi styst, þótt einnig sé bent á að heildartími sjúkraflugs frá Vestfjörðum og Vestmannaeyjum, þ.e. tíminn sem líður frá því að beiðni berst þar til sjúklingur er kominn undir læknishendur á áfangastað, hafi aftur á móti lengst að meðaltali. Að mati velferðarráðuneytisins er þetta þó ekki að því marki að öryggi sjúklinga sé ógnað.

Ríkisendurskoðun setur hins vegar fram í athugasemdum að innanríkisráðuneytið þurfi að taka formlega ákvörðun um aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að sjúkraflugi og í framhaldi af því sé nauðsynlegt að velferðarráðuneytið móti framtíðarstefnu sem tryggi faglegan og fjárhagslegan grundvöll sjúkraflugsins til langtíma.

Ég er alveg sammála því að það væri bót í því að skýra betur og með formlegri hætti en nú er aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi og tel víst að ráðuneytin tvö geti komist að skynsamlegri niðurstöðu í því máli.

Gott fólk.

Nú er ég búinn að tala miklu meira um sjúkraflug en ég ætlaði mér – en dagskrá Bráðadagsins snýst að sjálfsögðu um svo ótalmargt fleira en það. Framundan eru margvísleg fagleg erindi um bráðaþjónustu – og ég ætla ekki að hætta mér inn í slíka umræðu. Aftur á móti leiða umfjöllunarefni dagsins hugann að því hvernig megi fyrirbyggja bráðatilvik, jafnt slys og ýmis bráðaveikindi. Forvarnir skipta miklu máli í þessum efnum og þar má margt nefna, hvort sem eru áfengis- og vímuvarnir, slysavarnir eða forvarnir sem lúta að hreyfingu og mataræði. Þetta eru þættir sem ég vil leggja mikla áherslu á og þigg með þökkum allar góðar ábendingar frá ykkur fagfólkinu sem úr störfum ykkar hafið miklu að miðla.

Bestu þakkir fyrir áhugaverða ráðstefnu og megi dagurinn verða til gagns og ánægju.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum