Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana á Ísafirði 30. apríl 2014
Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Sæl öll.

Alltaf finnst mér gaman að koma til Ísafjarðar, héðan á ég góðar minningar enda bæjarstjóri í hálft fjórða ár og ekki spillir að hitta skemmtilegt fólk og ræða um stór, mikilvæg og áhugaverð málefni.

Það stakk mig í augun að sjá yfirskrift dagskrárinnar sem nú stendur, þ.e. spurninguna um hvort öldrun á Íslandi sé stærsta vá heilbrigðisstofnana eða verðugt verkefni framtíðar. Mér finnst ekki hægt og ekki rétt að tala um vá í þessu samhengi. Vissulega sjáum við fram á að öldruðum mun fjölga hratt á næstu árum og áratugum. Það er ekki vá, heldur til marks um velmegun. Lífslíkur fólks hér á landi eru með því sem besta þekkist í heiminum og fólk nær að jafnaði háum aldri.

Þótt vissulega aukist líkur á sjúkdómum og vanheilsu með hækkandi aldri er ekki beint línulegt samband þarna á milli. Það hefur ekki aðeins gerst að ár hafa bæst við líf fólks, heldur hefur þróunin einnig orðið sú að líf hefur bæst við árin. Fólk er almennt heilbrigðara en áður og lifir almennt við ágæta heilsu þótt það nái háum aldri. Ef við veltum fyrir okkur heilbrigðisútgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar þá getum við vænst þess að heilbrigðisútgjöld falli að meðaltali til síðar á lífsleið fólks en áður. Ýmsar rannsóknir benda einmitt til þess að öldrun hafi ekki í för með beina línulega aukningu heilbrigðisútgjalda af þessari ástæðu.

Ég neita því ekki að breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar þar sem fólki á vinnualdri fækkar hlutfallslega en lífeyrisþegum fjölgar skapar ákveðin vandamál sem verður að leysa. Það getur vel verið að til lengri tíma litið þurfi fólk að vinna lengur en nú tíðkast – og í ljósi batnandi heilsufars er það alls ekki fráleitt. En þetta er ekki viðfangsefni fundarins hér í dag, svo ég ætla ekki nánar út í þá sálma.

En aftur að heilbrigðisstofnununum og spurningunni um öldrun sem vá eða verðugt verkefni framtíðarinnar.

Áður en lengra er haldið vil ég segja það skýrt og skorinort að málefni aldraðra eru verðugt verkefni samfélagsins í heild, jafnt í nútíð og framtíð. Stærstur hluti aldraðra lifir góðu og virku lífi árum saman og þarfnast ekki endilega mikillar heilbrigðisþjónustu, aðstoðar eða stuðnings fyrr en komið er nærri lífslokum. Við þurfum hins vegar að einbeita okkur að því að sinna þeim vel sem þurfa á umönnun að halda.

Í lögum um málefni aldraðra er kveðið á um að tryggja eigi öldruðum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á viðeigandi þjónustustigi eftir þörf og ástandi hvers og eins. Aldraðir skuli eiga þess kost að búa sem lengst við eðlilegt heimilislíf en fái þjónustu á stofnun þegar þess gerist þörf.

Þar sem dagskráin gerir ekki ráð fyrir að ég tali hér einn í allan dag ætla ég nú að stikla á stóru en reyna að draga upp heildarmynd af þessum málum eins og mér finnst hún blasa við.

Í fyrsta lagi: Samkvæmt einföldum framreikningi miðað við óbreyttar aðstæður og mannfjöldaþróun á Íslandi er áætlað að byggja þurfi um 100 ný hjúkrunarrými á ári til að sinna þörf fyrir þetta úrræði eftir því sem öldruðum fjölgar.

Í öðru lagi: Við skulum setja alla hugsanlega varnagla við þessa beinu framreikninga, því þeir byggja á óbreyttum aðstæðum og engri þróun eða breytingum að öðru leyti. Ef við hefðum framreiknað sama dæmi fyrir fimmtán tuttugu árum út frá forsendum þess tíma þyrftum við miklu fleiri rými, því þá skorti þær áherslur sem síðar komu fram um að styðja fólk til að vera sem lengst heima.

Í þriðja lagi: Hættum að tala um öldrunarmál eins og þau snúist fyrst og síðast um hjúkrunarrými og fjölgun þeirra. Það er fáránleg einföldun, því öldrunarmál snúast um svo margt annað og öldrunarmál eiga að fjalla um fólk og þarfir þess, ekki steinsteypu.

Góðir gestir.

Veltum nú fyrir okkur tækifærunum.

Það er stórt hagsmunamál allra að skapa aðstæður sem ýta undir heilbrigða og virka öldrun. Einstaklingar bera sjálfir ríka ábyrgð á eigin velferð og heilsu og geta sjálfir haft mikil áhrif með heilbrigðum lífsstíl. Við sjáum þann mikla samfélagslega ávinning sem orðið hefur af stórminnkuðum reykingum fólks og bættri heilsu vegna þess. Ef við náum sambærilegum árangri í baráttu gegn offitu, ofneyslu áfengis og margvíslegum tengdum lífsstílstengdum sjúkdómum leiðir það til heilbrigðari öldrunar og álag á heilbrigðiskerfið stórminnkar. Við þurfum að höfða til ábyrgðar fólks í þessum efnum og jafnframt að beita markvissum forvörnum.

Með bættri lýðheilsu fækkar þeim sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu og öðrum stuðningi að halda – og það skapar samfélaginu svigrúm til að sinna hinum vel sem þarfnast heilbrigðisþjónustu og annarrar umönnunar.

Við eigum að styðja miklu betur við þá stefnu að gera fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili og ýta undir þá þróun sem þegar hefur orðið í þessa átt. Þess vegna ber að efla þjónustu við fólk í heimahúsi, ekki síst þjónustu sem styður við og ýtir undir heilbrigði og sjálfsbjargargetu.

Í þessu ljósi var nýlega ákveðið að hefja tilraunaverkefni sem felur í sér ákveðna endurhæfingu í heimahúsi í samstarfi við  Heimaþjónustu Reykjavíkur. Verkefnið kallast „Að gera sem mest á eigin heimili“ og hefur það að markmiði að gera þá eldri borgara sem þess þurfa betur færa til að sjá um sig sjálfa með því að endurhæfa þá og styrkja í ýmsum efnum. Um er að ræða tímabundið endurhæfingarprógramm þar sem þess er vænst að viðkomandi þurfi minni eða enga aðstoð að því loknu. Nú er unnið að því hjá Sjúkratryggingum Íslands að ganga frá samkomulagi við Heimaþjónustu Reykjavíkur um þetta.

Undanfarin misseri hefur staðið yfir ýmis konar vinna í tengslum við fyrirhugaðan flutning á málefnum aldaðra til sveitarfélaga. Þótt ákveðið hafi verið að hægja á yfirfærslunni hefur verið haldið áfram með ýmis nauðsynleg og gagnleg verkefni sem ég bind vonir við að skili árangri.

Það hefur stundum verið bent á að veiting öldrunarþjónustu hér á landi sé ekki nógu markviss og nýtist því ekki eins og best skyldi þeim sem helst þurfa hennar með. Það hefur verið talað um að „smyrja þunnt“ þar sem mjög margir fá einhverja þjónustu, sumir sem jafnvel þurfa ekki á henni að halda – en þeir sem mest þurfa fái of litla þjónustu.

Undanfarið hefur verið unnið að þróunarverkefni sem snýst um að breyta þessu. Það byggist á því að þróa og beita samræmdu mati - eins konar styttri útgáfu - af s.k. RAI-home care mælitækinu, til að meta á áreiðanlegan hátt þörf fólks fyrir öldrunar- og heimaþjónustu. Við köllum þetta Upphafsmat og leggjum áherslu á að hafa það tiltölulega einfalt í notkun. Nú er búið að forprófa Upphafsmatið hjá fimm sveitarfélögum og fyrstu niðurstöður benda til að það gefi góða og skýra mynd af þörf fólks fyrir þjónustu. Þær benda einnig til  að misbrestur hefur verið á því hvernig ákvarðanir um þjónustu eru teknar og ákvarðanir ekki alltaf í samræmi við þarfir eða heilsufar fólks. Töluvert stór hópur fólks sem virðist ekki þurfa þjónustu fær hana samt, meðan aðrir sem virkilega eru þjónustu þurfandi fá hana ekki í þeim mæli sem þeir þurfa.

Þróun upphafsmatsins er komin það langt að ég sé því nú ekkert til fyrirstöðu að taka það í notkun um allt land. Þannig tryggjum við betur samræmt, sanngjarnt og rétt mat á því hvaða þjónustu fólk þarfnast og ákvarðanir verða byggðar á því. Með þessu móti er hægt að vinna betur í samræmi við markmið laga um málefni aldraðra um að veita fólki þá þjónustu sem það þarf á viðeigandi þjónustustigi. Með þessu móti nýtum við fjármuni betur og beinum þeim á skynsamlegan hátt þangað sem þeirra er þörf.

Fleira er í bígerð. Þið þekkið öll færni- og heilsumatsnefndirnar sem meta þörf aldraðra fyrir dvöl á hjúkrunarheimilum. Þessar nefndir eru í öllum landshlutum, sjö talsins, og eru skipaðar þverfaglegum hópi fólks sem annast matið út frá gögnum og upplýsingum sem fylgja umsókn um mat frá fagaðilum á hverjum stað þar sem hinn aldraðri býr. Nú er í skoðun að fækka matsnefndunum til að auka enn frekar samræmi við mat á þjónustuþörf, hvar á landinu sem fólk býr.

Gott fólk. Ég ætla ekki að láta alveg undir höfuð leggjast að tala um hjúkrunarheimili og þjónustuna sem þar er veitt, því vissulega er það þáttur sem skiptir máli. Í opinberri umræðu að undanförnu hefur töluvert verið rætt um fjárframlög til reksturs hjúkrunarheimila, að daggjöldin séu of lág til að standa undir kröfum um þjónustu, ekki sé hægt að manna heimilin á fullnægjandi hátt og fleira í þeim dúr. Á einu heimili var rætt um að notkun fjötra og róandi lyfja hefði aukist af þessum ástæðum, sem er vissulega alvarlegt ef það er rétt. Ég legg áherslu á að skoða í samhengi nýtingu fjármuna á hjúkrunarheimilum, mönnun og niðurstöður mælinga á gæðum þjónustunnar sem þar er veitt. Við höfum mælikvarða í svokölluðum RAI - gæðavísum sem Embætti landlæknis fylgist með og ég vil gera niðurstöður þessara mælinga sýnilegar. Landlæknir hefur um skeið stefnt að því að birta þessar niðurstöður og ég hef komið því á framfæri við embættið að hrinda þessu í framkvæmd sem fyrst.

Ég vil líka nefna það hér að Ríkisendurskoðun vinnur nú, samkvæmt minni ósk, að viðamikilli úttekt á afkomu og fjárhagslegri stöðu hjúkrunarheimila. Meðal þess sem skoðað verður er hvort rekstrarframlag ríkisins í formi daggjalda nái að mæta hjúkrunarþyngd íbúa og þörf þeirra fyrir þjónustu. Þar verður einnig horft til þess að hvaða leyti fjárframlög taka tillit til þátta sem geta haft áhrif á rekstrarhagkvæmni, s.s. stærð heimila og staðsetning, skipulag þeirra o.fl.

Úttekt Ríkisendurskoðunar verður mikilvægt innlegg í þá vinnu sem framundan er til að stuðla að skynsamlegri nýtingu fjármuna og bættu rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila til framtíðar. Við verðum að ræða um þennan rekstur á skynsamlegum nótum, byggja á staðreyndum og skoða málin í samhengi, þ.e.a.s. gæði þjónustunnar, fjárhagslegan rekstur, húsnæði, mönnun og aðra þætti sem máli skipta.

Góðir gestir.

Mig grunar að ég hafi þegar talað lengur en dagskráin gerir ráð fyrir. Það verður að hafa það. Ég hefði svo sannarlega getað talað miklu lengur, því um margt er hægt að ræða en ætla að setja punkt hér. Bestu þakkir fyrir áhugaverðan fund og ég hlakka til umræðunnar í pallborði hér á eftir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum