Hoppa yfir valmynd
6. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Landspítala 6. maí 2014

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Góðir gestir, það er ánægjulegt fyrir mig að sitja í fyrsta sinn sem heilbrigðisráðherra ársfund Landspítala, sem að þessu sinni ber svo réttilega yfirskriftina Þjóðarsjúkrahús á tímamótum. Ársfundir marka ávallt tímamót, þar sem annars vegar er litið yfir farinn veg í lærdómsskyni – og hins vegar horft til framtíðar og stefnan mörkuð.

Landspítalinn er svo sannarlega þjóðarsjúkrahús, hvort sem við horfum til þeirra verkefna sem hér er sinnt – eða skoðum þann sess sem þjóðarsjúkrahúsið á í hugum allra landsmanna. Landspítalinn á vísan hlýhug og velvild fólks, hvar á landinu sem það býr. Fólk ber traust til spítalans og þeirra sem þar vinna og vill standa vörð um starfsemina. Þetta sést í allri opinberri umræðu um málefni Landspítalans – og síðast en ekki síst eru þeir margir sem sýna hug sinn í verki ár hvert með fjáröflunarstarfsemi til margvíslegra verkefna og með þátttöku í fjáröflunum, eða með einstaklingsbundnum gjöfum, stórum og smáum til spítalans.

Það er mikils vert að almenningur treysti Landspítalanum og beri hag hans fyrir brjósti – en ekki síður finnst mér gott að sjá í verki hvernig starfsfólkið hefur trú á spítalanum og þar með metnað til þess að leggja mikið á sig í þágu hans og sjúklinga. Þetta hefur sýnt sig á erfiðum tímum undanfarin ár þar sem starfsfólkið hefur lagst saman á árarnar til að halda óbreyttri stefnu þrátt fyrir erfiðan mótvind.

Svo ég haldi nú áfram með líkingar úr sjómennsku, þá vil ég nefna nauðsyn þess að hafa skýr siglingamerki til að halda rétta stefnu.

Á Landspítalanum hefur verið unnið ötullega að því að safna og gera aðgengilegar margvíslegar tölfræðilegar upplýsingar um starfsemina, gera kannanir á viðhorfum notenda til þjónustunnar og kannanir meðal starfsfólks á líðan þess og viðhorfum til vinnustaðarins. Á þessum grunni hafa verið búnir til mælikvarðar og sett markmið sem fylgst er með reglulega. Það er ómetanlegt að hafa þessa vísa, til að fylgjast með stöðu og þróun starfseminnar. Þeir virka í senn hvatning til að gera sífellt betur og veita vísbendingu í tíma ef eitthvað þarf að bæta.

Landspítalinn lét gera þjónustukönnun árið 2013 þar sem spurt var um viðhorf fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu spítalans. Þótt ég þekki ekki niðurstöðurnar í þaula veit ég að þær voru í heild jákvæðar. Til að mynda sögðu yfir 90% aðspurðra að starfsfólk spítalans hefði alltaf komið fram við sig af virðingu meðan á dvöl stóð, aðrir svöruðu stundum - en eitt prósent taldi sig ekki hafa mætt virðingu starfsfólks. Mat fólks á meðferðinni var almennt mjög jákvætt, sama máli gengdi um viðhorf sjúklinganna til samstarfs lækna og hjúkrunarfræðinga. Það er gott að sjá niðurstöður svona könnunar – og það er mikilvægt að slíkar kannanir séu endurteknar reglulega til að fylgjast með og vinna með niðurstöðurnar eftir þörfum ef eitthvað þarf að bæta.

Starfsánægja skiptir miklu  og þar hafa margir þættir áhrif sem vert er að sinna markvisst, því starfsemi og góður árangur Landspítalans byggist fyrst og síðast á starfsfólkinu.

Því er ánægjulegt að vita til þess að niðurstöður mælinga á starfsánægju, sem heldur hafa látið undan síga síðustu árin, stefna nú upp á við miðað við svör við fyrirspurn um líðan í starfi sem lögð var fyrir starfsfólk á þessu ári. Ég veit að mörgum verkefnum hefur verið ýtt úr vör til að bæta aðbúnað og líðan starfsfólks. Á lyflækningasviði stefndi í óefni vegna mikils álags, en þar var vondri þróun snúið við með markvissum aðgerðum. Þær virðast vera að skila sér og ein ánægjuleg vísbending um það er að 25 læknar sóttu  um 12 stöður sem  voru auglýstar fyrir skömmu.

Það skiptir miklu á öllum vinnustöðum að starfsfólkið vinni saman sem ein heild. Á stórum og flóknum vinnustað eins og Landspítala er þetta augljóst og verkefnin krefjast þess. Til að svo megi vera þarf öfluga og styrka forystu. Björn Zoega stóð í brúnni á erfiðum tímum og skilaði sínu afar vel. Hann ákvað seint á liðnu ári að draga sig í hlé og snúa sér að öðrum störfum. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir vel unnin störf á erfiðum tímum.

Með réttu má halda því fram að starf forstjóra Landspítalans – þjóðarsjúkrahússins – sé eitt það erfiðasta hér á landi. Það hafa allir skoðun á starfsemi spítalans, allir gera miklar kröfur til starfsfólks hans og fjölmiðlar fylgjast með öllu stóru sem smáu. Það er því ekki einföld eða léttvæg ákvörðun að taka að sér þetta vandasama starf, hvað þá með litlum fyrirvara líkt og Páll Matthíasson núverandi forstjóri gerði. Hann  hefur frá fyrsta degi axlað öll sín verkefni með miklum sóma. Það gladdi mig að hann skyldi sækja um forstjórastarfið þegar það var síðar auglýst og ég vil nota tækifærið hér til að þakka honum kjarkinn og áræðið til að takast á við þetta stóra verkefni.

Hann hefur staðið undir væntingum mínum og trausti. Ég met mikils hve ríka áherslu hann leggur á þjónandi forystu með áherslu á liðsheild og samvinnu og ég vænti góðs samstarfs við hann á komandi árum.

Góðir gestir.

Landspítalinn er að mestu kominn fyrir vind og róðurinn er að léttast. Í fjárlögum þessa árs raungerðist vilji þingsins til að styrkja rekstrargrundvöll spítalans og ekki síst stórauka fé til tækjakaupa á þessu ári og næstu þremur á eftir, með það að markmiði að framlög uppfylli þar eftir árlega þörf fyrir viðhaldi og endurnýjun tækja miðað við 1,8% af heildarveltu.

Ég lít þannig á að varnarbáráttan sé að baki. Tími sóknar og uppbyggingar taki nú við. Og ég veit að við höfum almenning með okkur í liðinu.

Það er rík samstaða meðal almennings um að hlúa að þessari stofnun og ég sem ráðherra heilbrigðismála vil það svo sannarlega. Landspítalinn er þjóðarspítali, því þótt Landspítalinn sé einnig héraðssjúkrahús höfuðborgarsvæðisins nemur sú starfsemi einungis um 20% af verkefnum hans. Landsmenn eiga þennan spítala saman, treysta á hann og vilja því veg hans sem mestan og bestan. Það vil ég líka.

Ég þekki  vel allar áherslur í byggingaráformunum og þeim hefur verið haldið lifandi, þótt núverandi ríkisstjórn hafi sett sem forgangsverkefni að leggja fram hallalaus fjárlög. Það er ekki í digra sjóði ríkisins að sækja til að fjármagna tug-milljarða framkvæmdir – allra síst á neðan við náum tökum á ríkisfjármálunum. Vandinn snýst hins vegar ekki um fjármögnun. Það er hægt að ganga frá fjármögnun nýja Landspítalans á nokkrum dögum. 

Vandinn  snýr að því að ríkissjóður hefur ekki bolmagn til að standa undir fjármagnskostnaði og  greiða til baka það fé sem fengið er að láni.

Ég set alla fyrirvara við fullyrðingar um að standa megi undir afborgunum lána með hagræðingu í rekstri spítalans af þeirri einföldu ástæðu að 70-80% af rekstri hans eru laun starfsfólks. Auðvitað mun nást töluverð hagræðing með nýjum spítala þegar fram líða stundir, bæði vegna minna viðhalds og rekstrarkostnaðar og ekki síst þegar ekki þarf lengur að reka tvöfaldar vaktir þegar bráðastarfsemi verður komin á einn stað. En við megum ekki falla í þá gryfju að ofmeta þennan þátt og ég endurtek efasemdir mínar um að standa megi undir lánakostnaði framkvæmdanna með sparnaði í launakostnaði heilbrigðisstarfsfólks.

Ég tel því augljóst að við verðum að fjármagna byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss með  öðrum hætti en þeim að gera eingöngu út á væntanlega hagræðingu.  

Þegar ég tók við embætti heilbrigðisráðherra á liðnu ári, lagði ég áherslu á nauðsyn þess að forgangsraða í rekstri ríkisins. Ég hélt því fram að við Íslendingar höfum ekki efni á því að gera allt sem hugurinn stendur til en láta á sama tíma reka á reiðanum í heilbrigðismálum þjóðarinnar.  Þess vegna væri nauðsynlegt að forgangsraða.

Þannig eigum við að nálgast það mikla verkefni sem er bygging þjóðarsjúkrahúss. Sameiginlega eigum við Íslendingar sem betur fer töluvert miklar eignir – við höfum bundið fé í fyrirtækjum og fasteignum.

Það er tímabært að við ræðum opinskátt og án upphrópana hvort ekki sé skynsamlegt að losa um eitthvað af þessum eignum og nýta fjármunina í að reisa þjóðarsjúkrahús.  Þannig forgangsröðum við í þágu allra landsmanna.

Ég er sannfærður um að mikill meirihluti landsmanna styður hugmyndir af þessu tagi. Og það er ekki aðeins hlutverk okkar stjórnmálamanna að leiða umræðuna heldur ekki síður ykkar sem lifið og hrærist inn heilbrigðiskerfisins. Að gefnu tilefni er nauðsynlegt að það komi  skýrt fram að ákvörðun um staðsetningu Landspítalans liggur fyrir og ég læt ekki hvarfla að mér að hefja nýja umræðu um það mál með öllu sem því fylgir. Niðurstaðan er skýr, deiliskipulag þessa efnis hefur verið staðfest og nýr Landspítali verður byggður upp á þessum stað í samræmi við áætlanir.

Þegar ég tók við embætti síðastliðið vor var nýlega búið að leggja fram tímasetta áætlun um framkvæmdir og kostnað vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Í ljósi stöðunnar í ríkisfjármálum fól ég stjórn Nýs Landspítala að rýna þessa áætlun og huga að því hvort unnt sé að áfangaskipta verkefninu enn frekar en áður var ráðgert. Þessi rýnivinna stendur nú yfir og jafnframt bauð Háskóli Íslands fram aðstoð Hagfræðistofnunar við að skoða kostnað og ábata af byggingu nýs spítala. Ég tel nauðsynlegt að bíða þessara úttekta áður en ákvarðanir verða teknar um næstu skref. Óhögguð stendur 100 milljóna króna fjárveiting á þessu ári til að hefja fullnaðarhönnun Sjúkrahótels á lóð Landspítala við Hringbraut en allar meginbyggingar hafa þegar verið forhannaðar.

Ég hef nýlega beint því til stjórnar Nýs Landspítala ohf. að halda áfram í því forvalsferli sem hófst sumarið 2013 og lauk um haustið þegar valdir voru fimm hönnunarhópar sem fullnægðu hæfis- og hæfnisskilyrðum til að fullhanna sjúkrahótelið. Á næstunni munu þessir fimm hópar fá tækifæri til að taka þátt í lokuðu útboði um fullnaðarhönnun Sjúkrahótelsins.

Gildistími forvalsins er til 21. maí nk. og ætti fullnaðarhönnun að ljúka í marsmánuði 2015. Fyrir þann tíma og fyrir umræðu um fjárlög ársins 2015 ættu umræddar úttektir að liggja fyrir þannig að ljóst sé hvort möguleiki sé á að áfangaskipta verkinu meira. Samkvæmt lögum hef ég heimild til að ákveða að minnstu byggingarhlutarnir verði boðnir út í formi leiguleiðar, en lög gera ráð fyrir að annarsvegar meðferðarkjarninn sem er áætlað að kosti tæpa 37 milljarða og rannsóknarhúsið sem er á ætlun upp á um 9 milljarða verði hefðbundnar opinberar framkvæmdir. Þetta er langstærsti kostnaðarhluti framkvæmdanna eða um 80%. Þessum framkvæmdum þarf að finna stað í framkvæmdaáætlun ríkisins svo unnt sé að halda áfram með verkefnið.

Góðir ársfundargestir.

Ég lýk þessum orðum mínum með ítrekuðu þakklæti til alls starfsfólks Landspítala sem á hverjum degi vinnur kraftaverk af ýmsum stærðum og gerðum, en vinnur fyrst og fremst alla daga að því að veita góða og örugga heilbrigðisþjónustu í þágu allra landsmanna. Þannig stendur Landspítalinn undir nafni sem spítali allrar þjóðarinnar og fyrir þetta er ég þakklátur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum