Hoppa yfir valmynd
25. september 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Aðalfundur Læknafélags Íslands

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Sælir læknar og takk fyrir að bjóða mér til ykkar á aðalfund.

Það er líf og fjör í umræðum um heilbrigðismál landsmanna þessa dagana. Það er ekkert nýtt. Heilbrigðisþjónusta snertir alla landsmenn, allt frá vöggu til grafar. Það stendur því engum á sama um hvernig heilbrigðisþjónustan er af hendi leyst. Margir hafa á því skoðun og ég hygg að flestir telji að heilbrigðiskerfið þurfi á meiri fjárveitingum að halda en það fær. Þessi umræða fylgir ávallt framlagningu fjárlagafrumvarpsins eins og nótt fylgir degi – og ekkert óeðlilegt við það. Því miður leiðist umræðan hins vegar oft út í karp fremur en rökræðu um leiðir og lausnir á því sem betur má fara, hvernig við tryggjum hag allra landsmanna sem best, hvernig við nýtum takmarkaða (og þeir verða alltaf takmarkaðir) fjármuni sem best, og hvernig við skipuleggjum heilbrigðiskerfið þannig að það laði til sín hæfileikafólk á öllum sviðum heilbirgðisþjónustu.  

Ég stend ekki hér til að reyna að sannfæra ykkur eða aðra um að íslenska heilbrigðiskerfið sé eins og best verður á kosið og hafið yfir gagnrýni. Ég veit eins vel og þið að þannig er það ekki. Ég, eins og þið, veit að við getum gert miklu betur. En mér finnst hins vegar mikilvægt að þeir sem best þekkja til, þ.e.a.s. heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisstarfsfólk og stjórnmálamenn, reyni eftir bestu getu að draga upp sanna mynd af þeim aðstæðum sem eru til umfjöllunar hverju sinni – máli ekki skrattann á veginn til að þjóna eigin hagsmunum en vekja um leið ótta í hugum þeirra sem við eigum að þjóna.

Ég hitti ykkur á aðalfundi Læknafélagsins í fyrra – og var kvaddur með orðum eitthvað á þá leið að við myndum hittast að ári og gætum þá farið yfir hvort og þá hvað hefði gerst til tíðinda í heilbrigðismálum á tímabilinu. Þetta ætla ég að gera hér og tæpa á því helsta í stuttu máli. Af ýmsu er að taka.

Á fundinum fyrir ári lagði ég áherslu á að fyrir lægju miklar upplýsingar og greiningar á íslenska heilbrigðiskerfinu með ábendingum um úrbætur á ýmsum sviðum, leiðir til að auka skilvirkni og bæta þjónustu. Þessi gögn vildi ég nýta og koma mikilvægum tillögum í framkvæmd.

Eftir ítarlega skoðun þessarra gagna kynnti ég um áramótin heildstæða áætlun undir yfirskriftinni Betri heilbrigðisþjónusta þar sem undir falla sjö stór verkefni sem hverju um sig er ætlað að efla og bæta heilbrigðiskerfið. Ég ræði um stöðu einstakra verkefna hér á eftir en nefni áður en lengra er haldið að framlög til heilbrigðismála voru í fjárlögum þessa árs aukin um 6,8 milljarða að raunvirði. – Það er ágætt að halda þessari staðreynd til haga því hún vill gleymast. Því má einnig bæta við að samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs verða framlög til heilbrigðismála aukin um 5,3 milljarða króna, Í tengslum við fjárlagagerðina fyrir yfirstandandi ár var gerð sérstök áætlun um endurnýjun tækja á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akueyri. Áætlunin felur í sér 5,5 milljarða króna aukningu til tækjakaupa á fimm ára tímabili og er markmiðið að fjármagn þessu merkt verði þegar upp er staðið um 1,8% af veltu hvors sjúkrahúss, sem er talið ásættanlegt.

 

Ég hef ítrekað lýst því yfir opinberlega að staða ríkissjóðs leyfi ekki að tugmilljarða nýbyggingar Landspítalans eða önnur viðreisn heilbrigðisþjónustunnar verði fjármögnuð með lántökum. Bolmagn ríkisins til að standa undir fjármagnskostnaði er ekki fyrir hendi og lamandi vaxtagreiðslur draga úr möguleikum okkar til að standa undir öflugu heilbrigðiskerfi til framtíðar.

Um nauðsyn þess að ráðast í nýbyggingar við Landspítala, endurnýjun eldra húsnæðis og tækjakaup er ekki lengur deilt. En það er í besta falli óskynsamlegt að ganga út frá því að væntanleg hagræðing í rekstri spítalans standi undir kostnaði við fjármögnun, ekki síst þegar haft er í huga að við verðum að styrkja samkeppnisfærni okkar við önnur lönd til að laða að gott starfsfólk á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

Ef það er einlægur vilji alþingismanna og almennings að efla og styrkja þjóðarsjúkrahúsið í náinni framtíð verður það ekki gert með öðrum hætti en þeim að færa til eignir ríkissjóðs sem eru bundnar í einhverju formi og færa verðmæti þeirra í nýja eign sem væri þjóðarsjúkrahúsið.  Slíkt er í góðu samræmi við þingsályktun sem samþykkt var einróma á Alþingi um endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans. Með samþykkt þingsályktunarinnar er ríkisstjórninni falið að ljúka „eins fljótt og verða má undirbúningi“ og „hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð“.

Ég geri mér vonir um að tillögur um hvernig best sé staðið að málum Landspítalans líti dagsins ljós fyrri hluta komandi ár.

Slíkar tillögur verða eðli máls unnar í samvinnu við fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti, en þær verða að fá hljómgrunn og víðtækan stuðning – ekki aðeins innan heilbirgðiskerfisins heldur ekki síður meðal almennings – þeirra sem greiða og njóta þjónustunnar. Í umræðum á komandi mánuðum getið þið lagt þung lóð á vogarskálarnar.

Aukin framlög á næsta ári endurspegla þær áherslur í heilbrigðismálum sem ég hef boðað og falla undir verkefni áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónusta. Efling heilsugæslunnar er forgangsmál og er gert ráð fyrir raunaukningu á framlagi til heilsugæslu og sjúkraflutninga. Þessari aukningu verður varið til verkefna eins og fjölgunar á sérnámsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun, verkefni um miðlæga símaráðgjöf um heilbrigðisþjónustu á landsvísu, innleiðingu þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu og eflingu heimahjúkrunar til að mæta þörfum þeirra sem bíða eftir dvöl á hjúkrunarheimilum.

Eitt af verkefnum Betri heilbrigðisþjónustu felst í uppbyggingu og samtengingu rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu sem unnið er að hjá Embætti landlæknis. Rafræn sjúkraskrá er forgangsverkefni þar sem hún er forsenda svo margra stórra og mikilvægra verkefna til úrbóta í heilbrigðiskerfinu.

Sameining heilbrigðisstofnanavar eitt verkefna áætlunarinnar um Betri heilbrigðisþjónustu – þar sem ég lagði áherslu á að ljúka því verkefni sem hófst fyrir löngu, - að sameina stofnanir þannig að ein umdæmisstofnun sé í hverju heilbrigðisumdæmi.

Þetta hefur  gengið eftir og nýjar sameinaðar heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum taka til starfa 1. október.

Og áfram um verkefni áætlunarinnar um Betri heilbrigðisþjónustu. Endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga er eitt þeirra. Markmiðið er að fella undir eitt kerfi allan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að ræða læknisþjónustu, lyf, rannsóknir, þjálfun o.s.frv. og setja hámark á greiðsluþátttöku fólks. Pétur Blöndal alþingismaður er formaður nefndar sem vinnur að þessu verkefni og ég reikna með að innan tíðar komi fram raunhæfar tillögur að samræmdu kerfi sem þessu.

Í þessu sambandi vil ég að nota tækifærið og leiðrétta misskilning sem gætt hefur í umræðu um fyrirhugaða greiðsluþátttöku fólks í S-merktum lyfjum. Hið rétta um þessi áform er að greiðsluþátttakan verður bundin við að þeim sé ávísað á sjúkling með lyfseðli og að notkun þeirra fari fram utan sjúkrahúsa, ekki í innlögn og ekki á göngudeildum. Núverandi kerfi mismunar sjúklingum eftir sjúkdómum og tegundum lyfja og það er ólíðandi.

Til viðbótar því sem ég hef hér að framan nefnt vil ég geta um nokkur verkefni til viðbótar sem unnið hefur verið að á mínum vegum frá síðasta aðalfundi ykkar. Þar vil ég fyrst nefna að gerður var samningur við stóran hóp ykkar félaga, svonefnda sérgreinalækna, sem verið höfðu samningslausir við Sjúkratryggingar Íslands í þrjú ár.

Á vegum ráðuneytisins er um þessar mundir verið að leggja lokahönd á vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar til árisins 2020 sem ég vonast eftir að verði lögð fram á Alþingi til umræðu og afgreiðslu á þessu hausti.

Enn fremur er í vinnslu krabbameinsáætlun sem vonandi verður kynnt á fyrrihluta næsta árs. Einnig er unnið að gerð geðheilbrigðisstefnu og loks vil ég nefna að ráðherranefnd um lýðheilsumál er tekin til starfa.

Ég nefndi hér í upphafi að heilsugæslan fær umtalsvert auknar fjárveitingar á á næstu fjárlögum. Orð mín um að efla hana eru ekki orðin tóm, enda er það bjargföst skoðun mín að heilsugæslan er - og á að vera grundvöllur heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Ég hef áhyggjur af læknaskorti í ákveðnum greinum og heimilislækningar eru þar ofarlega á blaði – og það verður eitthvað að gera til að bregðast við þessu.

Í störfum mínum sem heilbrigðisráðherra hef ég sannfærst um að ein stærsta áskorunin sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir á komandi árum er að tryggja og auka samkeppnishæfni íslenska heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að horfast í augu við þá staðreyndir að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eru eftirsóttir í öðrum löndum. Þar skipta launakjör auðvitað miklu en ekki síður sá aðbúnaður og sú aðstaða sem boðið er upp á. Við stöndum því ekki aðeins frammi fyrir miklum fjárfestingum í innviðum heldur ekki síður í þeim mikla mannauði sem er innan heilbrigðiskerfisins.

Því miður erum við sem þjóð ekki alltaf samkeppnisfær við önnur og stærri lönd til að mynda hvað varðar launakjör fyrir þessi störf. En þar eigum við að gera betur og  þurfum að gera það til að standast samkeppnina sem við blasir.

 

Það er margt annað sem hægt er að gera og þarf að gera, svo sem að fjölga námsstöðum og bæta starfsumhverfi og vinnuskilyrði.

Ég nefni líka að nú er að ljúka vinnu við endurskoðun reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Endurskoðunin felur í sér ýmis nýmæli sem ég bind vonir við að munu meðal annars auka tækifæri til sérnáms lækna hér á landi og ekki síður að gera námið markvissara og betra. Ég geri ráð fyrir að gefa þessa nýju reglugerð út innan skamms.

En við leysum ekki alla vanda eingöngu með auknum fjármunum. Við þurfum að leysa úr læðingi þann kraft sem ég fengið að kynnast í starfi mínu sem heilbrigðisráðherra. Það gerum við m.a. með því að huga að hornsteini heilbrigðiskerfisins – heilsugæslunni. Á mínum vegum er unnið að því að gefa heimilislæknum raunverulegan kost á því að stunda sjálfstæða starfsemi líkt og öðrum sérfræðingum. Ég vil um leið gera heimilislæknanám eftirsóknarvert.

Það sem ég er einfaldlega að segja: Við þurfum að bregðast við áskorunum í framtíðinni meðal annars með kerfisbreytingum og fjármagni – sumir gætu sagt að nauðsynlegt sé að hleypa súrefni inn í kerfið. Að þessum breytingum hef ég unnið og þeirri vinnu er langt í frá lokið.

Kerfisbreytingar, fjárfesting í innviðum og mannauði, betri nýting fjármuna samhliða auknum möguleikum til vísindarannsókna munu styrkja samkeppnishæfni okkar, auka og bæta þjónustuna.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða framlög til vísinda- og nýsköpunar aukin umtalsvert á næsta ári.

 

Byggt er á samþykktri stefnu Vísinda- og tækniráðs og aðgerðaáætlun sem henni fylgir þar sem miðað er við að opinber framlög í samkeppnissjóði verði hækkuð um 2,8 milljarða króna á árunum 2015 og 2016 og að á móti komi fimm milljarða aukin fjárfesting atvinnulífsins, m.a. með tilkomu skattalegra hvata. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun framlag ríkisins til samkeppnissjóða hækka varanlega á næsta ári um 800 milljónir króna og ætlunin er að varanlegt framlag til þessara sömu sjóða verði aukið um tvo milljarða króna árið 2016.

Ágætu læknar

Ríkisstjórnarflokkarnir og Alþingi allt varð við ákalli og kröfu um að styrkja fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar á síðasta hausti  og útgjöld til heilbrigðismála á þessu ári voru aukin verulega þrátt fyrir þrönga stöðu ríkissjóðs. En við eigum margt óleyst og stór verkefni bíða okkar, allt frá endurbyggingu Landspítalans, til öflugri heilsugæslu, frá uppbyggingu öldrunarheimila til forvarna og baráttu við lífsstílstengda sjúkdóma. Við þurfum að ráðast í sérstakt átak í geðheilbrigðismálum og herða baráttuna gegn krabbameini með forvörnum og ekki síður með því að nýta þekkingu okkar á sviði erfðafræðinnar.

Með sama hætti og nauðsynlegt er að forgangsraða rétt í útgjöldum ríkisins og hafa þor til að velja og hafna, er mikilvægt að við tökum um það ákvörðun hvort ekki sé skynsamlegt að nýta hluta ríkiseigna með öðrum hætti en gert er og þá til uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar um allt land auk greiðslu skulda.  

Hér skal það fullyrt að uppbygging heilbrigðisþjónustunnar sé einhver besta og arðbærasta fjárfesting sem Íslendingar geta ráðist í.

Þegar saman fara fjárhagsleg arðsemi og aukin lífsgæði alls almennings verður vart  hjá því komist að ráðast í fjárfestinguna. Hægt er að taka svo djúpt í árinni og segja að ríkisstjórn og þingmönnum beri skylda til þess.

Að þessu sögðu, ítreka ég þakkir mínar til ykkar í þeirri fullvissu að við munum eiga gott og árangursríkt samstarf í mikilvægu verkefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum