Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2000 Heilbrigðisráðuneytið

19. - 25. ágúst

Fréttapistill vikunnar
19. - 25. ágúst

Ráðstefna um vímuefnaneytendur og afbrot, 6. september.

Háskóli Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið efna til ráðstefnu um vímuefnaneytendur og afbrot í hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands miðvikudaginn 6. september kl. 13:00-16:50. Frummælendur verða dr. Bruce Ritson, geðlæknir við Royal Hospital of Edinburgh og ráðgjafi á sviði vímuefna- og afbrotamála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), og dr. Harvey Milkman, prófessor í sálarfræði við Denver-háskólaog höfundur fjölmargra bóka um vímuefnaneyslu og afbrot. Að fyrirlestrunum loknum gefst ráðstefnugestum tækifæri til að beina fyrirspurnum til fyrirlesaranna og loks fara fram pallborðsumræður. Ráðstefnustjóri verður Sigurlína Davíðsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
Dagskrá ráðstefnunnar >

Þrjár reglugerðir á sviði almannatrygginga taka gildi 1. september.
Þann 1. september næstkomandi taka gildi þrjár reglugerðir á sviði almannatrygginga:
1. Ákvörðun um frítekjumörk ellilífeyris, örorkulífeyris og tekjutryggingar er tekin 1. september ár hvert. Er það gert til að aðlaga bætur almannatrygginga að verðbólguþróun og tekjubreytingum milli ára, en eftir 1. september koma framtöl vegna tekna síðasta árs til skoðunar. Nú hækka frítekjumörk um 7%, en það er sú meðalhækkun eigintekna ellilífeyrisþega sem orðið hefur milli ára. Verðbólga var lægri en þessu nam og hafði því ekki áhrif á þessa ákvörðun.
2. Reglugerð um stofnanaþjónustu fyrir aldraða verður breytt á sömu lund hvað varðar frítekjumörk fyrir vistþega á dvalarheimilum og á langlegudeildum, eða um 7%.
3. Allar bætur almannatrygginga hækka um 0,7% 1. september næstkomandi, en þar með eru bætur almannatrygginga aðlagaðar meðalhækkun launa, sem orðið hefur á tímabilinu.

Upplýsingar vegna gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof um næstu áramót.
Þann 1. janúar næstkomandi taka gildi lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og heyrir sú löggjöf undir félagsmálaráðuneytið. Athygli er vakin á því að félagsmálaráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um lögin og breytingar á reglum sem gildistaka þeirra hefur í för með sér. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins.
Sjá upplýsingasíðu félagsmálaráðuneytisins >

Vísbending um erfðavísi sem veldur brjóstakrabba.

Vísindamenn á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði hafa ásamt hópi erlendra starfsfélaga fundið vísbendingu um erfðavísi sem talinn er geta skýrt myndun brjóstakrabbameins í sumum konum sem tilheyra fjölskyldum þar sem slíkt mein er algengt. Rannsóknin er mjög umfangsmikil og hefur fengið marga vísindastyrki, meðal annars tæplega 35 milljónir króna frá Norræna krabbameinssjóðnum NCU. Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í ágústhefti bandaríska tímaritsins Proceedings of the National Academy of Sciences.
Nánar á heimasíðu Landspítalans>

Aðalfundur Læknafélags Íslands.
Aðalfundur Læknafélags Íslands hófst í dag [25. ágúst] á Ísafirði. Fundurinn hófst með ávarpi sem Davíð Á Gunnarsson, ráðuneytisstjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, flutti fyrir hönd Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Auk umræðna um innri mál félagsins var í dag kynnt greinargerð stjórnar Læknafélags Íslands um viðræður við Íslenska erfðagreiningu hf. Aðalfundinum lýkur á morgun en þá verður m.a. haldið málþingi undir yfirskriftinni Læknar á "frjálsum markaði". Framtíð í ljósi útboða og samkeppnisreglna?



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
25. ágúst 2000


























Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum