Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Lyfjaverslun Íslands- nýtt húsnæði

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
við opnun nýs húsnæðis Lyfjaverslunar Íslands, Lynghásli 13
8.02 2002


Góðir gestir.
Ég vil byrja á því að óska eigendum, stjórnendum og starfsmönnum til hamingju með glæsileg húsakynni og ég þakka jafnframt þann heiður sem mér er sýndur með því að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð.

Fyrir átta árum var Lyfjaverslun ríkisins breytt í Lyfjaverslun Íslands og fyrirtækið gert að hlutfélagi. Ári síðar var fyrirtækið selt á almennum markaði og eins og menn eflaust muna þá seldust bréfin á augabragði. Breytingin var dæmi um velheppnaða einkavæðingu fyrirtækis sem í eðli sínu var full ástæða til beyta og selja.

Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað mörg undanfarin ár eins og sjálft tilefni þess að við erum hér saman komin í dag sýnir best. Og í raun og veru hefur Lyfjaverslunin alla tíð verið afskaplega farsælt fyrirtæki - allt frá því grunnurinn var lagður innan vébanda Áfengisverslunar ríkisins árið 1921.

Lyfjaverslun Íslands hefur haslað sér víða völl á heilbrigðissviðinu. Fyrirtækið veitir umfangsmikla þjónustu og stundar viðskipti með heilsu- og lækningavörur auk sjálfra lyfjanna, og fyrirtækið leggur nú vaxandi áherslu á nýjungar og nýsköpun.

Starfsemi þess er gott dæmi um þá nýsköpun og útrás íslenskra fyrirtækja sem einkennt hefur atvinnulífið hin síðari ár.

Öflug útrás fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustunnar, eins og við höfum dæmi um hér, hvílir að mínum dómi á nokkrum grundvallarþáttum.

Í fyrsta lagi almennum skilyrðum sem fyrirtækin íslensku búa við og eru sambærileg við það sem gengur og gerist í helstu viðskiptalöndum okkar.
Í öðru lagi hæfu og vel menntuðu starfsfólki, og

í þriðja lagi, öflugu heilbrigðiskerfi sem víðtæk sátt er um, og sem veitir öllum sömu eða svipaða þjónustu - óháð stöðu sinni.

Og ef við ætlum að sækja fram, eins og mér sýnist þið ætla að gera á þessu sviði, þá verðum að huga vel að þessum grundvelli - þessu bjargi sem framtíðins byggist á.

Í fyrsta lagi verðum við að tryggja til langrar framtíðar vaxtarskilyrði og möguleika fyrirtækis eins og þessa. Þetta þýðir að við þurfum á frelsi í viðskiptum að halda, hvarvetna.

Í öðru lagi verðum við að efla möguleika barna okkar og barnabarna á almennri og sérhæfðri menntun, bæði innanlands og utan, og

í þriðja lagi verðum við að efla heilbrigðisvísindi og hátæknilausnir byggðar á því besta sem okkar ágæta heilbrigðisþjónusta hvílir á og ég gat um hér að framan.

Með þessu sköpum við Lyfjaverslun Íslands skilyrði til að dafna, með þessu getum við vænst þess að sjá lyfjaiðnað og þjónustufyrirtæki við heilbrigðiskerfið eflast og á þennan hátt eflum við almennt íslenskt atvinnulíf.

Grunnurinn að því sem við sjáum hér var lagður á síðustu öld öndverðri. Innan fyrirtækisins eru margar vistarverur í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og með glæsilegum húskynnum vonast ég til að hér sé lagður grunnur að nýrri og glæsilegri framtíð.

Til hamingju.


____________
Talað orð gildir




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum