Fréttir
  • Hreyfing er heilsubót
    Hreyfing er heilsubót

Hreyfiseðlar nýttir í meðferðarskyni um allt land

21/6/2016

Innleiðingu hreyfiseðla um allt land er lokið. Hreyfiseðlum er nú ávísað í meðferðarskyni á öllum opinberum heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum, stofnunum utan spítala, þ.e. á Reykjalundi og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, hjá sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum (sérstök áhersla er lögð á gigt-, geð-, öldrunar-, innkirtla-, lungna-, og hjartalækna) og hjá sjálfstætt starfandi heilsugæslulæknum. Notkun hreyfiseðla eykst hratt.

Hreyfiseðill er meðferðarúrræði sem læknir skrifar upp á í samráði við sjúkling og er ávísun á hreyfingu eftir forskrift. Sjúklingi er vísað til hreyfistjóra sem útbýr hreyfiáætlun í samráði við hann. Sjúklingurinn framfylgir áætluninni upp á eigin spýtur en undir eftirliti hreyfistjóra sem fylgist með árangri og meðferðarheldni. Sýnt hefur verið fram á að með markvissri hreyfingu megi draga úr lyfja­notkun,  lækna­heim­sókn­um og inn­lögnum. Markmið með innleiðingu hreyfiseðla er að taka upp gagnlega og hagkvæma meðferð við langvinnum sjúkdómum og stuðla að því að hreyfingu sé beitt á markvissari hátt til forvarna og meðferðar í heilbrigðisþjónustu.

Innleiðing hreyfiseðla hér á landi hófst sem tilraunaverkefni á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í byrjun árs 2011. Í tengslum við áætlunina Betri heilbrigðisþjónusta 2013 – 2017 var tekin ákvörðun um að innleiða hreyfiseðla í heilbrigðisþjónustu um allt land. Skipuð var þriggja manna verkefnisstjórn til að annast innleiðinguna og veittar 50 m.kr. á ári til verkefnisins.

Lokaáfanginn í innleiðingu hreyfiseðla var að taka þá í notkun á Landspítala og lauk því í maí sl. Verkefnisstjórnin mun fylgja eftir innleiðingu og notkun hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu til loka þessa árs. Í því felst m.a. að greina hvar mest þörf er á hvatningu og fræðslu um notkun hreyfiseðla. Samstarf er við Embætti landlæknis um fræðslu og kynningu á hreyfiseðlum.

Tafla um þróun og fjölgun ávísaðra hreyfiseðla árin 2013 – 2014

  Fjöldi Konur Karlar Meðalaldur Meðferðarheldni Aukning
2013 264 178 86 49 64%  
2014 606 383 223 48 69% 230%
2015 1017 676 341 48 66% 60%
1.04.´16 300     49 77% 25%

 

Til baka Senda grein