Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýr aðstoðarmaður velferðarráðherra

Gunnar Axel Axelsson
Gunnar Axel Axelsson

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ráðið Gunnar Axel Axelsson í starf aðstoðarmanns, í samræmi við 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Gunnar Axel er viðskiptafræðingur að mennt og situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Gunnar Axel lauk prófi í viðskiptafræðum frá Háskólanum á Bifröst árið 2003. Á árunum 2003-2004 lagði hann stund á nám í alþjóðaviðskiptum við Viðskiptaháskólann í Árósum og stundar nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Frá árinu 2005 hefur Gunnar Axel starfað sem sérfræðingur í launa- og kjararannsóknum hjá Hagstofu Íslands.

Gunnar Axel er kvæntur Katrínu Nicolu Sverrisdóttur leikskólakennara og eiga þau fjögur börn.

Meginhlutverk aðstoðarmanna er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.

Frá því að Guðbjartur tók við embætti velferðarráðherra hefur Anna Sigrún Baldursdóttir verið aðstoðarmaður hans og mun hún gegna því starfi áfram ásamt Gunnari Axel.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum