Hoppa yfir valmynd
31. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Reykja minnst evrópskra ungmenna

Hlutfall 15-16 ára unglinga sem reykja
Hlutfall 15-16 ára unglinga sem reykja
Verulega hefur dregið úr reykingum meðal íslenskra ungmenna síðastliðin 16 ár, mun meira en meðal ungmenna í öðrum Evrópulöndum. Hlutfall ungmenna á aldrinum 15–16 ára sem reykja er hvergi lægra í Evrópu en hér á landi. 
 

Nýjar upplýsingar um tóbaksreykingar unglinga voru kynntar í Stokkhólmi í dag í tilefni Dags án tóbaks sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stendur fyrir 31. maí ár hvert. Niðurstöðurnar eru fengnar úr evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD) sem gerð er á fjögurra ára fresti og tekur til 36 Evrópulanda. Rannsóknin var fyrst gerð árið 1995 og hefur Ísland tekið þátt frá upphafi.  

Þróunin hér á landi vekur athygli þar sem niðurstöðurnar sýna að verulega hefur dregið úr tóbaksreykingum íslenskra unglinga á síðustu 16 árum meðan hlutfallið hefur lítið breyst að meðaltali í Evrópu eins og sést á myndinni hér að ofan.

Árið 1995 hafði um það bil einn af hverjum þremur íslenskum unglingum reykt síðastliðna 30 daga en aðeins einn af hverjum tíu árið 2011. Árið 2011 höfðu að meðaltali 29% evrópskra unglinga reykt síðastliðna 30 daga en tæp 10% hér á landi. Ekki er marktækur munur á reykingum íslenskra stráka og stelpna.  

Nánar er sagt frá niðurstöðum evrópsku könnunarinnar ESPAD í meðfylgjandi fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri forvarna við Háskólann á Akureyri sem sér um framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar á Íslandi. 

Auk þessa má benda á niðurstöður úr evrópsku rannsóknarverkefni sem Ísland tók þátt í þar sem kannað var umfang og áhrif reykinga í kvikmyndum. Niðurstöðurnar sýna að reykingar í kvikmyndum hafa áhrif á börn og því oftar sem ungt fólk sér reykingar í kvikmyndum því líklegra er það til þess að hafa prófað að reykja. Nánar er sagt frá þessu á vef Embættis landlæknis.

Fréttatilkynning Rannsóknaseturs forvarna við Háskólann á Akureyri

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum