Hoppa yfir valmynd
15. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna um samfélagsleg áhrif kláms 16. október

Mannamót
Mannamót

Velferðarráðherra hvetur til hreinskiptinnar umræðu um aðgengi að klámi í íslensku samfélagi, áhrif þess á viðhorf, kynhegðun, hugsanleg bein áhrif á ofbeldi og mansal og annars konar misbeitingu. Hann skrifar um málið í grein sem birtist í Fréttablaðinu um helgina og minnir á ráðstefnu á morgun þar sem þetta verður til umræðu. 

Innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands standa að ráðstefnunni sem er liður í samráðsferli ráðuneytanna þriggja um málaflokkinn. Markmiðið er að efna til umræðu um hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera þegar kemur að klámi, með tilliti til dreifingar, notkunar og einstaklingsbundinna og samfélagslegra áhrifa. Samkvæmt almennum hegningarlögum er dreifing, innflutningur, sala, útbýting og prentun kláms refsiverð á Íslandi. Í seinni tíð hefur sjaldan verið refsað fyrir brot á þessum lögum og takmörkuð umræða hefur farið fram um hvar mörkin liggja á milli kláms og kynferðislega opinskás efnis.

Í blaðagrein velferðarráðherra bendir hann á að klám sé bannað á Íslandi samkvæmt lögum en þrátt fyrir það blasi klámfengið efni víða við, í blöðum og tímaritum, auglýsingum og kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og á vefsíðum sem beinlínis dreifa klámi: „Hvernig stendur á því að klám er jafn útbreitt og raun ber vitni? Hafa yfirvöld gefist upp í baráttunni gegn því og er það orðið viðtekið? Á að láta klámvæðinguna, sem verður sífellt áleitnari í daglegu lífi okkar, afskiptalausa eða á að skera upp herör gegn henni ekki síst til að verja börn fyrir óæskilegum ranghugmyndum um samskipti kynjanna og kynlíf? Þurfum við að verja okkur, eldri sem yngri, fyrir efni sem særir siðferðiskennd okkar og veldur hugarangri? Gott samstarf hefur náðst milli þjóða í baráttu við klám þar sem börn eru viðfangsefnið. Hvað eftir annað hefur tekist að uppræta klámhringi sem bæði framleiða klámefni með börnum og dreifa því. Slík starfsemi á auðvitað ekki að líðast en þarf ekki líka samkomulag um að sporna við klámvæðingu í almannarýminu og setja skýr og ákveðin mörk?“ spyr velferðarráðherra í greininni og hvetur til hreinskiptinnar umræðu um málið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum