Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Vestnorrænir ráðherrar ræddu samstarf á sviði heilbrigðismála

Guðbjartur Hannesson, Agathe Fontain og Karsten Hansen
Guðbjartur Hannesson, Agathe Fontain og Karsten Hansen

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ræddi meðal annars um möguleika á auknu samstarfi á sviði lyfjamála með áherslu á lyfjaöryggi, þegar hann fundaði með Karsten Hansen, heilbrigðisráðherra Færeyja, og Agathe Fontain, heilbrigðisráðherra Grænlands, á Ísafirði í gær. Þetta er í annað sinn sem vestnorrænu ráðherrarnir halda formlegan samráðsfund en fyrsti fundur þeirra var haldinn í Nuuk á Grænlandi fyrir tæpu ári.

Á fundinum lagði Guðbjartur áherslu á ýmsa þætti sem líkir eru með löndunum þremur sem geri samstarf þeirra áhugavert: „Við eigum margt sameiginlegt; þjóðirnar eru litlar í stóra samhenginu en standa engu að síður undir fullburða samfélögum með öllum þeim fjölmörgu verkefnum og skyldum sem því fylgja. Landfræðileg lega, fámenni og dreifðar byggðir kalla á fjölbreyttar lausnir svo unnt sé að veita öllum íbúunum trausta og góða velferðarþjónustu óháð búsetu. Þetta eru viðfangsefni sem við eigum sameiginleg og getum því án efa deilt reynslu og hugmyndum okkur til gagns – og einnig staðið saman og unnið saman til að standa betur að vígi gagnvart flóknum verkefnum“ sagði ráðherra meðal annars á fundinum.

Íslendingar og Grænlendingar eiga samstarf um sjúkraflug og töluvert samstarf er milli Landspítalans í Reykjavík og Landspítalans í Færeyjum sem Guðbjartur sagðist gjarna vilja efla: „Núna í vikunni verður undirritaður nýr samstarfssamningur og tel ég það af hinu góða, vonandi boðar hann aukið og farsælt samstarf við Færeyjar.“

Aukið samstarf á sviði lyfjamála

Árið 2005 var undirritaður samningur milli Íslands og Færeyja á sviði lyfjamála varðandi útboð og innkaup en eftir efnahagshrunið hefur þessu samstarfi lítið verið sinnt. Guðbjartur sagðist á fundi ráðherranna hafa áhuga á að taka upp þráðinn að nýju og víkka út samstarfið með aðild Grænlands ef áhugi stæði til þess: „Þar sem markaðir eru litlir er meiri viðkvæmni fyrir utanaðkomandi breytingum og áhrifaþáttum. Hærra lyfjaverð er þekktur vandi og hætta á lyfjaskorti er meiri en á stórum markaðssvæðum. Í tengslum við þetta mætti horfa til samstarfs þjóðanna vegna neyðarlyfja, til dæmis með sameiginlegum neyðarlyfjalistum, samstarfi um neyðarlyfjalagera og sameiginlegum útboðum á þessum lyfjum. Framleiðsla Færeyinga á dreypilyfjum gæti einnig skipt máli þessu samhengi. Samstarf vegna bóluefna mætti einnig skoða og eflaust margt fleira. Samstarfi þjóðanna á sviði lyfjamála gætu fylgt margir kostir, ekki síst aukið lyfjaöryggi þar sem þjóðirnar gætu aðstoðað hver aðra þegar vandi steðjar að. Má í þessu sambandi minna á afleiðingar Eyjafjallagossins þegar flugsamgöngur röskuðust verulega sem hefði getað skapað mikil vandamál til lengri tíma litið“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum