Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur starfshóps velferðarráðherra á grundvelli skýrslu um Farsæld

Farsæld. Baráttan gegn fátækt á Íslandi
Farsæld. Baráttan gegn fátækt á Íslandi

Starfshópur í velferðarráðuneytinu sem velferðarráðherra fól að vinna tillögur um aðgerðir til að vinna gegn fátækt hefur skilað honum niðurstöðum sínum. Tillögurnar byggjast á skýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins í Reykjavík; Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi.

Fjölmargir aðilar mynduðu Samstarfshóp um enn betra samfélag og unnu að gerð skýrslunnar með Hjálparstarfi kirkjunni og Rauða krossinum. Þetta voru meðal annars fulltrúar háskólasamfélagsins, hagsmunasamtaka, hjálparsamtaka, sveitarfélaga og ríkisins. Niðurstaða af starfi hópsins birtist í ábendingum og tillögum þar sem er m.a. fjallað um nokkrar tilgreindar fátæktargildrur í samfélaginu og leiðir til að bæta þar úr. Lagði hópurinn áherslu á aukna samhæfingu og ýmsar lagfæringar eða breyttar áherslur sem snúa að ákveðnum þáttum velferðarkerfisins, atvinnulífs og félagasamtaka.

Samstarfshópurinn um enn betra samfélag kynnti velferðarráðherra skýrslu sína og tillögur og í kjölfarið setti hann á fót starfshóp til að leggja mat á tillögurnar og leiðir til að hrinda þeim í framkvæmd. Í meðfylgjandi greinargerð starfshóps velferðarráðherra eru dregnar saman þær tillögur sem lagt er til að unnið verði að. Eins og fram kemur í inngangi var byggt á þeim þáttum skýrslunnar „Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi“ sem eru aðgerðamiðaðar, framkvæmanlegar og snúast að mestu um verkefni sem varða málasvið ráðuneytisins: „Starfshópurinn tekur undir þær hugmyndir sem fram koma í skýrslunni um mikilvægi þess að ná  þjóðarsátt um samfélagssáttmála, og að til þess þurfi fræðsluátak og samræður alls samfélagsins, í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og þriðja geirans þar sem unnið verði að sameiginlegri sýn á mikilvægi virkni og þátttöku allra. Bent er á að velferðavaktin gæti verið heppilegur vettvangur til að koma af stað fræðslu og samstarfi um samfélagssáttmála og velferðarhugtakið.  Það fellur bæði vel að hlutverki hennar og í stjórn hennar eru fulltrúar allra helstu samfélagsafla og gerenda í íslensku samfélagi.“


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum