Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Eygló Harðardóttir skipuð samstarfsráðherra Norðurlanda

Norðurlandaráð/Norræna ráðherranefndin
Norræna ráðherranefndin

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að skipa Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í embætti samstarfsráðherra Norðurlanda. Samstarfsráðherra ber ábyrgð á norrænu ríkisstjórnarsamstarfi innan Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir hönd forsætisráðherra.

Saman fara samstarfsráðherrar hverrar þjóðar með stjórn norræna ríkisstjórnarsamstarfsins og taka stefnumótandi ákvarðanir. Árið 2014 fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og fellur þá í hlut Eyglóar að leiða samstarf þjóðanna á þessum vettvangi.

Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971. Markmiðið með norrænu samstarfi er annars vegar að gera Norðurlöndin aðlaðandi til búsetu, atvinnu og fyrirtækjarekstur og hins vegar að efla norrænu ríkin á alþjóðavettvangi. Samstarfið er fjölþætt, meðal annars á sviði rannsókna, umhverfismála, velferðar og menningar.

Fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda hittast í ráðherranefndinni og móta meðal annars norræna samninga og sáttmála. Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar starfa tíu nefndir fagráðherra, sem hittast reglulega og ræða sameiginleg málefni.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherraEygló Harðardóttir, nýskipaður samstarfsráðherra Norrænu ráðherranefndarinnar, segist taka við embættinu full tilhlökkunar, hún muni leggja mikinn metnað í starfið sem sé afar mikilvægt: „Verkefni á sviði norræns samstarfs eru mörg og stór. Það skiptir mjög miklu máli að leggja rækt við samstarfið og sinna því vel, því þessar þjóðir eiga svo margt sameiginlegt, hafa margt að kenna hver annarri og sameinaðar geta þær fengið miklu áorkað á alþjóðlegum vettvangi. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og þar munum við leggja línurnar um þau verkefni sem við viljum gera hátt undir höfði í samstarfinu. Af mörgu er að taka og ég mun leggja kapp á að vel takist til með val á verkefnum og framvindu þeirra.“

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum