Hoppa yfir valmynd
15. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Viljayfirlýsing Evrópuþjóða um réttindi hinsegin fólks

Umræður um réttindi hinsegin fólks
Umræður um réttindi hinsegin fólks

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra, undirritaði í gær viljayfirlýsingu um réttindi hinsegin fólks ásamt fulltrúum sextán annarra Evrópuþjóða sem sátu IDAHO-ráðstefnuna á Möltu. Eygló tók þátt í pallborðsumræðum um aðgerðir stjórnvalda til þess að vinna gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki og sagði meðal annars nauðsynlegt að stjórnvöld setji sér aðgerðaáætlun í þessu skyni.

Með viljayfirlýsingunni er áhersla lögð á mikilvægi mannréttinda hinsegin fólks. Lýst er yfir vilja þeirra þjóða sem að yfirlýsingunni standa til þess að rannsaka og skrá hatursáróður og glæpi gagnvart hinsegin fólki, stuðla að ákærum í slíkum málum, tryggja friðhelgi einkalífs hinsegin fólks, virða rétt þess til að stofna fjölskyldu og enn fremur að beita lögum og markvissri stefnumótun til þess að vinna gegn mismunun.

Á ráðstefnunni kom fram að þótt réttindi hinsegin fólk hafi styrkts víða í Evrópu séu þó einnig lönd þar sem staða þess hefur versnað. Í réttindabaráttunni þyrfti að hafa hugfast að markmiðið væri fyrst og síðast að tryggja hinsegin fólki sömu réttindi og gagnkynhneigðu fólki.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tók þátt í pallborðsumræðum um aðgerðir stjórnvalda til þess að vinna gegn fordómum í garð hinsegin fólks. Hún sagði þar að ekki sé nóg að tryggja réttindi hinsegin fólks með lögum, það þurfi að tryggja að þeim sé framfylgt og vinna gegn fordómum á markvissan hátt. Því sé mikilvægt að stjórnvöld setji sér skýra aðgerðaáætlun með þessi atriði að leiðarljósi. Ráðherra ræddi einnig um stöðu hinsegin fólks í viðkvæmum hópum og nefndi fatlaða, aldraða og flóttafólk í því samhengi. Hún sagði jafnframt frá því að á Íslandi sé um þessar mundir verið að undirbúa komu flóttafólks og að ákveðið hafi verið í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að bjóða velkomið hinsegin fólk, enda sé það afar viðkvæmur hópur flóttafólks sem sæti ofsóknum og mannréttindabrotum í heimalöndum sínum.

Ráðherra undirritar yfirlýsinguna

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum