Fréttir
  • Embætti landlæknis
    Embætti landlæknis

Nýir svæðisbundnir lýðheilsuvísar hafa mikið notagildi

13/6/2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir nýbirta lýðheilsuvísa Embættis landlæknis mikilvægt tæki með fjölþætt notagildi í þágu almennings, fagfólks og stjórnvalda. Horft er til þess m.a. að heilbrigðiskerfið og sveitarfélögin geti á grundvelli lýðheilsuvísa unnið saman að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.

Embætti landlæknis kynnti nýverið nýútgefna lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi. Birting vísanna er liður í því að veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti ávarp á kynningarfundi þar sem lýðheilsuvísarnir voru kynntir og ræddi þar m.a. um hagnýtingu þeirra og nytsemi. Hann sagði lýðheilsuvísana hafa mikið notagildi þar sem margir þeirra geti hjálpað fólki að axla ábyrgð á eigin heilsu þar sem þeir leiðbeini um breytni og lífsstíl og hafi þannig mikilvægt forvarnargildi. Í höndum fagfólks geri þeir kleift að greina stöðuna í heilbrigðisumdæmum og vinna að forvörnum með sveitarfélögunum og fyrir heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld almennt geti þeir komið að notum við stefnumótun og ákvarðanatöku í fjölmörgu samhengi.

Lýðheilsuvísarnir eru aðgengilegir á vef Embættis landlæknis og þar má sjá ýmsar upplýsingar sem skýra nánar tilurð þeirra, innihald og notagildi.

Upptökur frá kynningarfundi Embættis landlæknis um lýðheilsuvísa

Til baka Senda grein