Fréttir
  • Jafnrétti
    Jafnrétti

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands 19. júní

14/6/2016

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhendir styrki úr Jafnréttissjóði Íslands við athöfn í Iðnó sunnudaginn 19. júní kl. 16:00. Tæplega 100 milljónir króna eru til úthlutunar. Við styrkveitinguna verða sýndar svipmyndir frá baráttu liðinna ára fyrir auknu kynjajafnrétti.

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015, með ályktun Alþingis nr. 13/144 , í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Markmiðið er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 milljónir króna ár ári, til ársloka 2020 og starfar samkvæmt reglum sem um hann gilda nr. 365/2016.

Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnhagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

Alþingi kaus fimm manna stjórn Jafnréttissjóðs Íslands 15. mars 2016. Formaður stjórnar er Anna Kolbrún Árndóttir og varaformaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Aðrir í stjórn eru Guðni Elísson, Gunnar Þór Sigbjörnsson og Rachel Lona Johnstone. Varamenn í stjórn eru  Árni Matthíasson, Ingvar Jónsson, Margrét Katrín Erlingsdóttir, Steinunn Stefánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.

Nánari upplýsingar veita starfsmenn Jafnréttissjóðs Íslands: Lovísa Lilliendahl, lovisa.lilliendahl@vel.is og Rósa Guðrún Erlingsdóttir, rosa.erlingsdottir@vel.is

 

Til baka Senda grein