Fréttir

Viðurkenning líknarlækninga og sérhæfðra verkjalækninga sem viðbótarsérgreina

10/1/2017

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um  menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Með reglugerðarbreytingunni eru líknarlækningar og sérhæfðar verkjalækningar viðurkenndar sem viðbótarsérgreinar.

Reglugerðarbreytingin var gerð eftir samráðs- og umsagnarferli þar sem m.a. var horft til erindis líknardeildar Landspítala þessa efnis, ályktunar frá stjórn læknaráðs Landspítala, umsagna Læknafélags Íslands, Taugalækningafélagi Íslands, Svæfinga- og gjörgæslulæknafélagi Íslands, mats- og hæfisnefndar sem starfar skv. reglugerð nr. 467/2015 og að höfðu samráði við Embætti landlæknis.

Til að læknir geti hlotið sérfræðileyfi í líknarlækningum sem viðbótarsérgrein skal hann hafa hlotið sérfræðileyfi í aðalsérgrein. Þetta á þó ekki við hafi læknir einungis hlotið sérfræðileyfi í atvinnu- og umhverfislækningum, sérgreinum innan lækningarannsókna, erfðalækningum, lýðheilsufræði, myndgreiningu, réttarlæknisfræði og klínískri taugalífeðlisfræði. Til að öðlast viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið að minnsta kosti tveggja ára viðurkenndu viðbótarsérnámi í líknarlækningum.

Til að læknir geti hlotið sérfræðileyfi í sérhæfðum verkjalækningum sem viðbótarsérgrein skal hann hafa hlotið sérfræðileyfi í aðalsérgrein. Þetta á þó ekki við hafi læknir einungis hlotið sérfræðileyfi í atvinnu- og umhverfislækningum, sérgreinum innan lækningarannsókna, erfðalækningum, lýðheilsufræði, myndgreiningu, réttarlæknisfræði og klínískri taugalífeðlisfræði. Til að öðlast viðurkenningu skal viðkomandi hafa lokið að minnsta kosti tveggja ára viðurkenndu viðbótarsérnámi í sérhæfðum verkjalækningum.

Nýtt undanþáguákvæði vegna sérnáms

Reglugerðarbreytingin felur einnig í sér að heimilt verður að veita umsækjanda um sérfræðileyfi takmarkaða undanþágu á einstaklingsgrundvelli frá hluta sérnáms, hafi hann þegar lokið við þann hluta í öðru sérnámi í læknisfræði og öðlast sérfræðileyfi á grundvelli þess. Undanþágan má ekki taka til meira en helmnings af lágmarkstíma í viðkomandi sérnámi.

Til baka Senda grein