Hoppa yfir valmynd
18. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Réttur til atvinnuleysisbóta lengdur um eitt ár

Réttur til atvinnuleysisbóta lengdur úr þremur árum í fjögur

Alþingi samþykkti í dag breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar sem lengir rétt fólks til atvinnuleysisbóta tímabundið um eitt ár, úr þremur árum í fjögur. Réttur til fjögurra ára greiðslutímabils nær til þeirra sem misstu atvinnu og fengu atvinnuleysisbætur greiddar í fyrsta skipti 1. mars 2008 eða síðar. Lenging greiðslutímabilsins mun auka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs. Aftur á móti má ætla að útgjöld til fjárhagsaðstoðar hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna aukist minna en ella. Er þá horft til þess að atvinnuleitendur þurfi síður á fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna að halda meðan þeir eiga rétt til atvinnuleysisbóta. Breytingin er gerð vegna sérstakra og tímabundinna aðstæðna á innlendum vinnumarkaði og aukins langtímaatvinnuleysis. Gildistími ákvæðisins er því tímabundinn til 31. desember 2011.

Gilditími ákvæðis um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur framlengdur

Í lögum um atvinnuleysistryggingar er ákvæði um tímabundna heimild til þess að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna án þess að greidd laun fyrir hlutastarf skerði atvinnuleysisbætur viðkomandi. Annað ákvæði kveður á um tímabundna heimild fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga til að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Með breytingunni nú er gildistími þessara ákvæða framlengdur til 30. júní 2011. Engin efnisleg breyting er gerð á ákvæðinu sem snýr að rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga. Aftur á móti er sú breyting gerð á ákvæði um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur launamanna að til þess að greiðsla hlutfallslegra atvinnuleysisbóta komi til greina þarf starfshlutfall viðkomandi að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður. Þetta gildir um þá sem skrá sig í fyrsta skipti án atvinnu hjá Vinnumálastofnun 1. janúar 2011 eða síðar. Þeir sem þegar fá greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samhliða allt að 29% skertu starfshlutfalli geta fengið áfram greiddar atvinnuleysisbætur til 30. júní næstkomandi.

Atvinnuleitendum tryggður veikindaréttur

Með lagabreytingunni er tekið tillit til tilfallandi veikinda atvinnuleitenda en þeir munu teljast vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir veikindin í allt að fimm daga samtals. Heimilt er að nýta dagana í tvennu lagi á hverju tólf mánaða tímabili enda hafi atvinnuleitandi verið skráður innan kerfisins í fimm mánuði samtals frá fyrstu skráningu á sama greiðslutímabili. Eins og verið hefur ber atvinnuleitanda ávallt að tilkynna um veikindin til Vinnumálastofnunar. Þetta ákvæði laganna öðlast gildi 1. mars 2011. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum