Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lög um greiðslur til líffæragjafa

Alþingi hefur samþykkt frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar þurfi þeir að vera frá námi eða vinnu í tengslum við líffæragjöfina. Markmiðið er að líffæragjöf hafi ekki í för með sér fjárhagslega byrði fyrir gjafann þótt jafnframt sé áhersla lögð á að hún feli ekki í sér fjárhagslegan ávinning. Lögin taka gildi 1. janúar 2010.

Með lögunum er líffæragjöfum sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði veittur réttur til tekjutengdra greiðslna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum geti þeir ekki stundað vinnu sína vegna gjafarinnar. Ef líffæragjöf leiðir til þess að líffæragjafi þarf að minnka starfshlutfall sitt tímabundið getur hann átt rétt á hlutfallslegum greiðslum í samræmi við minnkað starfshlutfall.

Mánaðarlegar tekjutengdar greiðslur geta að hámarki numið 587.127 krónum og er það sama hámark og gert er ráð fyrir í lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Lágmark mánaðarlegra greiðslna verður 147.193 krónur.

Gert er ráð fyrir að greiðslur til námsmanna sem uppfylla skilyrði laganna fyrir tímabundinni fjárhagsaðstoð vegna líffæragjafar verði 147.193 krónur.

Lögin eru byggð á tillögum vinnuhóps sem félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra skipuðu til þess að fjalla um stöðu lifandi líffæragjafa. Niðurstaða hans var sú að bæta þyrfti réttarstöðu þeirra sem gefa líffæri með því að tryggja þeim tímabundna fjárhagsaðstoð missi þeir tekjur vegna líffæragjafar. Í skýrslu hópsins kom fram að einstaklingar sem hafa lýst sig fúsa til að gefa nýra hafi sumir ekki treyst sér til þess af fjárhagslegum ástæðum, þar sem launamissir vegna fjarvista frá vinnu í kjölfar aðgerðar hefur ekki verið bættur.

Nýru eru þau líffæri sem oftast eru grædd í sjúklinga hér á landi og hafa nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum verið framkvæmdar hér á landi frá árinu 2003. Líffæragjafi verður í flestum tilvikum óvinnufær um tíma í tengslum við líffæragjöf. Að jafnaði er fólk orðið vinnufært eftir um sex vikur en þó þykir ástæða til að gera ráð fyrir að óvinnufærni geti varað í allt að þrjá mánuði, enda tilvikin misjöfn.

Tenging frá vef ráðuneytisinsLög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar

Tenging frá vef ráðuneytisinsFerill málsins hjá Alþingi



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum