Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skriflegur rökstuðningur fyrir skipan í embætti umboðsmanns skuldara

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur kynnt Ástu S. Helgadóttur skriflegan rökstuðning fyrir ákvörðun ráðherra um skipan í embætti umboðsmanns skuldara. Ákvörðun ráðherra var í samræmi við sjálfstætt hæfnismat ráðningarskrifstofunnar STRÁ MRI sem mat Runólf Ágústsson hæfari.

Í kjölfar þess að Runólfur Ágústsson var skipaður umboðsmaður skuldara óskaði Ásta S. Helgadóttir, fyrrverandi forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og öllum gögnum er vörðuðu skipunina, með bréfi dagsettu 29. júlí síðastliðinn.

Umsækjendur um embætti umboðsmanns skuldara voru níu og fól félags- og tryggingamálaráðuneytið ráðningarskrifstofunni STRÁ MRI að vinna úr umsóknum með ráðuneytinu. Tveir umsækjendur voru metnir hæfir til starfans og voru þeir boðaðir í starfsviðtal.

Í kjölfar viðtala var ráðningarfyrirtækinu falið að gera ítarlegt hæfnismat á hvorum umsækjendanna fyrir sig. Var þar tekið mið af almennum hæfisskilyrðum sem sett voru í auglýsingu um embættið, auk annarra málefnalegra sjónarmiða sem ráðuneytið taldi nauðsynlegt að leggja til grundvallar. Var sérstaklega litið til reynslu og þekkingar umsækjendanna sem nýst gætu í starfi, mat á leiðtogahæfni, sjálfstæði og fagmennsku í vinnubrögðum, hæfni í mannlegum samskiptum og færni til að tjá sig í ræðu og riti. Horft var til frammistöðu umsækjenda í starfsviðtali og tekið mið af umsögnum um þá sem aflað hafði verið. Við mat á umsækjendum um embætti umboðsmanns skuldara var ekki litið til persónulegra fjárreiðna þeirra og í auglýsingu voru engar skilgreindar kröfur hvað það varðar enda þess ekki krafist í lögum um umboðsmann skuldara.

Í rökstuðningi ráðuneytisins er því lýst hvaða sjónarmið réðu úrslitum við ákvörðun ráðherra um að skipa Runólf Ágústsson í embættið.

Eins og fram er komið sagði Runólfur Ágústsson sig frá embætti umboðsmanns skuldara 3. ágúst síðastliðinn, sama dag og hann hóf störf. Ástu S. Helgadóttur hefur því í ljósi hæfnismats verið boðið embætti umboðsmanns skuldara og hefur hún tekið sér tíma til umhugsunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum