Hoppa yfir valmynd
21. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stéttarfélagsaðild starfsfólks svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra

Réttindi starfsfólks svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra verða að fullu tryggð komi til breytinga á stéttarfélagsaðild við flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu afhenti Guðbjarti Hannessyni, félags- og tryggingamálaráðherra, mótmælaskjal í dag þar sem mótmælt var kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að starfsfólk svæðisskrifstofa málefna fatlaðra skipti um stéttarfélag við yfirfærslu málaflokksins um áramót.

Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherraRáðherra leggur áherslu á að starfsfólki svæðisskrifstofa verði tryggð öll sömu réttindi og það hefur hjá SFR komi til þess að það skipti um stéttarfélag: „Það er mikilvægt að hafa það alveg skýrt að enginn þarf að fyrirgera réttindum sínum að neinu leyti vegna breytinga á stéttarfélagsaðild komi til þess. Ég legg hins vegar megináherslu á að þetta atriði verði ekki til þess að tefja fyrirhugaðan flutning málaflokksins til sveitarfélaganna. Við munum vinna að því að ná samkomulagi í þessu máli sem báðir aðilar geta sætt sig við og ég er fullviss um að það muni takast.“

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum