Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Allra úrræða leitað áður en kemur til nauðungarsölu

Íbúðalánasjóður leitar allra úrræða áður en til nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði einstaklinga og fjölskyldna kemur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði vegna fjölmiðlaumfjöllunar að undanförnu um fjölda nauðungarsala. Tilkynning Íbúðalánasjóðs er eftirfarandi:

„Ef viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs hafa ekki greitt af lánum sínum í 5 ½ mánuð eða lengur og hafa ekki leitað greiðsluerfiðleikaúrræða óskar Íbúðalánasjóður eftir nauðungarsölu. Ef fólk hefur samband við Íbúðalánasjóð er nauðungarsölu frestað og leitað allra leiða eins og að gera samning um greiðslu vanskila til að koma í veg fyrir nauðungarsölur. Frestun á byrjun uppboðs er aldrei hafnað ef fólk sækist eftir fresti og er nóg að hafa samband símleiðis. Í mörgum tilfellum hefur fólk því miður ekki samband.

Einnig er mikilvægt að það komi fram að Íbúðalánasjóður er u.þ.b. með um 50-60% af fasteignaveðlánum í landinu. Því er ekki óeðlilegt að sjóðurinn sé beiðandi uppboðsmála í sama hlutfalli.

Ennfremur er vert að benda á að oftar en ekki er Íbúðalánasjóður á 1.veðrétti og þarf því að verja kröfu sína þar ef síðari veðhafar fara fram á uppboð.

Nokkuð hefur verið um að aðrar fjármálastofnanir geri ekki kröfur um uppboð eða mæti ekki til uppboðs, þar sem það liggur ljóst fyrir að kröfur þeirra á síðari veðréttum séu utan markaðsverðs íbúða. Fjármálastofnanir eru þá að afskrifa þær kröfur strax eftir uppboð án þess að koma að uppboðsmálunum sjálfum, þar sem lánveitingar þeirra hafa í raun enga veðstöðu lengur.

Að undanförnu hefur Íbúðalánasjóður haft samband við uppboðsþola í þeim tilfellum þar sem sjóðurinn er eini gerðarbeiðandi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir yfirvofandi uppboð.

Boðið er upp á skuldbreytingu vanskila samhliða frystingu og einnig samning um greiðslu vanskila. Ef þessi úrræði duga ekki þá vísar Íbúðalánasjóður viðkomandi á umboðsmann skuldara.

Frá því að embætti umboðsmanns skuldara var sett á fót hefur Íbúðalánasjóður afturkallað uppboð eingöngu með því að fá staðfestingu umboðsmanns á því að einstaklingurinn hafi leitað til hans óháð niðurstöðu umboðsmanns. Margir hafa nýtt sér þetta en ekki er komið í ljós hvort þetta er lausn fyrir skuldarana. Í þeim tilfellum þar sem framhaldsuppboð fer fram samþykkir Íbúðalánasjóður í öllum tilfellum lengri samþykkisfrest og þá eins langan og sýslumaður er tilbúinn að veita.

Nokkuð er um að nauðungarsölur séu afturkallaðar á samþykkisfresti, en samþykkisfrestur er sá viðbótartími sem gerðarþola er veittur til að ganga til samninga við kröfuhafa þannig að þeir falli frá uppboði.

Að lokum er rétt að benda á að í þeim tilvikum sem nauðungarsala fer fram er íbúum eignanna ávallt boðið að leigja íbúðina. Um er að ræða leigusamninga til a.m.k. eins árs. Fyrir liggur frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra sem heimilar Íbúðalánasjóði að selja þær íbúðir, sem sjóðurinn hefur eignast við nauðungarsölu, með kaupleiguréttarformi. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi mun núverandi leigjendum Íbúðalánasjóðs verða boðið að gera nýjan kaupréttarsamning í stað leigusamnings.“

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum