Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra boðar til stefnumóts við þriðja geirann

Stefnumót við „þriðja geirann“ er yfirskrift ráðstefnu sem Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra hefur boðað til þann 24. mars næst komandi. Til stefnumótsins er boðið fulltrúum 95 félagasamtaka sem sinna verkefnum sem falla að starfssviði heilbrigðisráðuneytisins.

Stefnumótið er hugsað sem samráðsvettvangur þar sem fulltrúum félagasamtaka gefst tækifæri til að hitta ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins, skiptast á skoðunum og varpa fram nýjum hugmyndum. Meginþemu og umræðuefni á þessu fyrsta stefnumóti ráðuneytisins við þriðja geirann verða lífsgæði og grunnþjónusta.

Frjáls félagasamtök, eða þriðji geirinn eins og þau eru stundum nefnd, eru mikilvægur hluti af samfélaginu. Þau veita landsmönnum óeigingjarna og mikilvæga þjónustu um leið og þau veita fólki tækifæri til að sameinast um málefni og hafa áhrif. Alþjóðlegar stofnanir og samtök hafa um langt skeið átt samráð og samstarf við þriðja geirann með góðri góðum árangri. Slíkt vinnulag er hluti af opnu lýðræði og hæfir vel á tímum gagnsæis og opinnar stjórnsýslu.

Væntanlegir þátttakendur sem hafa spurningar eða tillögur sem þeir vilja fá til umræðu á stefnumótinu eru beðnir um að senda erindi sín til ráðuneytisins á netfangið [email protected] í síðasta lagi fyrir 26. febrúar.

Stefnumótið verður haldið á Grand Hótel, Sigtúni 38, miðvikudaginn 24. mars nk. kl. 13:30-16:00.

Bréf sem sent var félagasamtökum (pdf 50 KB – opnast í nýjum glugga)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum