Ráðgjöf og úrræði vegna fjármála heimilanna

| Fréttir | Lög og reglugerðir |Farið yfir reikninga

Úrræði vegna greiðsluerfiðleika og skuldavanda heimilanna falla undir velferðarráðuneytið og heyra þar til skrifstofu lífskjara og vinnumarkaðar. Embætti umboðsmanns skuldara heyrir undir ráðuneytið og er hlutverk þess að gæta hagsmuna og réttinda skuldara eins og nánar er kveðið á um í lögum um umboðsmann skuldara.

Upplýsingar um einstök úrræði má til að mynda nálgast á vefjum Umboðsmanns skuldara, Íbúðalánasjóðs og hlutaðeigandi fjármálastofnana.

Úrræði

Uppfært 07.12.2015

Allir geta lent í erfiðleikum með fjármál sín og óvænt atvik geta komið upp sem hafa áhrif á fjárhag fólks og afkomu. Ýmis úrræði eru í boði fyrir heimili til að takast á við vandann, mismunandi eftir umfangi hans og aðstæðum hvers og eins. Mikilvægt er að leita aðstoðar sem fyrst.

Eftirfarandi samantekt er ekki tæmandi upptalning á úrræðum heldur frekar hugsuð til að veita yfirsýn og vísbendingar um hvert má leita eftir frekari upplýsingum.

Úrræði Íbúðalánasjóðs

ÍbúðalánasjóðurLántakendur hjá Íbúðalánasjóði í greiðsluerfiðleikum geta leitað til Lögfræðisviðs Íbúðalánasjóðs, viðskiptabanka síns eða til Umboðsmanns skuldara eftir umfangi vandans.

Greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs eru:

 • Samningar
 • Skuldbreytingarlán
 • Frestun afborgana
 • Greiðslujöfnun
 • Lenging lánstíma

Lántakandi leitar til Lögfræðisviðs Íbúðalánasjóðs sé greiðsluvandi óverulegur og hægt að leysa hann með samningi um greiðsludreifingu vanskila í allt að 18 mánuði.

Lántakandi leitar til viðskiptabanka síns þar sem almenn viðskipti eða vanskil umsækjanda eru mest, ef greiðsluvandi er verulegur, og gerð er tillaga að úrræði til Íbúðalánasjóðs. Úrræði geta verið skuldbreyting á þeirri fjárhæð sem er í vanskilum og/eða tímabundin frestun á greiðslum á lánum Íbúðalánasjóðs sem varir minnst í 1 ár og mest í 3 ár. Unnt er að sækja um lengingu láns í allt að 15 ár.

Lántakandi leitar til Umboðsmanns skuldara ef fjarhagsvandi er verulegur eða hann kominn í þrot með fjármál sín. Umboðsmaður skuldara gerir tillögu um úrræði til Íbúðalánasjóðs. Úrræði geta verið lán fyrir vanskilum og/eða tímabundin frestun á greiðslum á lánum Íbúðalánasjóðs. Einnig er unnt að sækja um lengingu láns um allt að 15 ár.

Önnur úrræði

 • Aflétting krafna umfram söluverð

 - Sjá nánar á heimasíðu Íbúðalánasjóðs...

Umboðsmaður skuldaraÚrræði embættis Umboðsmanns skuldara

Hjá Umboðsmanni skuldara, sem aðstoðar heimili í fjárhagserfiðleikum, eru  mál flokkuð með eftirfarandi hætti:

Ráðgjöf vegna greiðsluerfiðleika

Ráðgjöfin felst m.a. í gerð greiðsluerfiðleikamats til að öðlast heildarsýn á fjármálin og leita leiða til lausnar. Við vinnslu greiðsluerfiðleikamats er m.a. aflað upplýsinga frá kröfuhöfum um eftirstöðvar lána og um vanskil ef svo ber undir. Þegar greiðslu-geta liggur fyrir er leitað lausna til að aðlaga greiðslubyrði að greiðslugetu. Lausnirnar geta verið mismundi og sem dæmi geta þær falist í ráðgjöf, milligöngu í samningum við kröfuhafa, aðstoð við umsókn um greiðslufrestun lána eða greiðsluaðlögun svo fátt eitt sé nefnt.

Greiðsluaðlögun einstaklinga

Markmið með greiðsluaðlögun er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Með greiðsluaðlögun má kveða á um:

 • Algera eftirgjöf einstakra krafna
 • Hlutfallslega lækkun einstakra krafna
 • Gjaldfrest á einstökum kröfum 
 • Skilmálabreytingar
 • Greiðslu einstakra krafna með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á ákveðnu tímabili
 • Breytt form greiðslu krafna
 • Allt framangreint í senn

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt af Umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimils og framfærslu. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.

Tilteknar ákvarðanir umboðsmanns skuldara á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, er unnt að kæra til Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta

Markmið úrræðisins er að gera einstaklingum, sem eiga í verulegum greiðsluörðugleikum og hafa leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs eða ekki er talið að önnur greiðsluvandaúrræði séu til þess fallin að leysa greiðsluvandann, kleift að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu skv. 1. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Fjárhagsaðstoð verður aðeins veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

 1. umsækjandi á í verulegum greiðsluörðugleikum og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma,
 2. umsækjandi getur ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna hans og framfærslubyrði,
 3. önnur greiðsluvandaúrræði hafa verið reynd eða umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda.

Þá verður fjárhagsaðstoð ekki veitt ef:

 1. aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér óheiðarlega til þess að geta leitað fjárhagsaðstoðar,
 2. skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu,
 3. skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu,
 4. skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
 5. skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
 6. greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. c- og d-lið 1. mgr. og d–g-lið 2. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga. 

Ákvarðanir umboðsmanns skuldara á grundvelli laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014, er unnt að kæra til félags- og húsnæðismálaráðherra.

Erindi

Eitt hlutverka umboðsmanns skuldara er að taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds.

- Sjá nánar á heimasíðu umboðsmanns skuldara...

Úrræði fjármálastofnanna

Mismunur getur verið á úrræðum og framkvæmd þeirra fjármálastofnanna á milli. Nánari upplýsingar veita viðeigandi stofnanir.


Áhugavert

Verklagsreglur

 

 

Til baka Senda grein