Önnur þjónusta við aldraða

Litið yfir farinn vegVelferðarráðuneytið annast stefnumótun og áætlanagerð um málefni aldraðra fyrir landið í heild og hefur eftirlit með framkvæmd laga um málefni aldraðra og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga.

Félagsleg heimaþjónusta

Aldraðir í heimahúsum eiga rétt á heimaþjónustu geti þeir ekki hjálparlaust annast heimilishald og persónulega umhirðu. Sveitarfélög veita þessa þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en setja sjálf nánari reglur um framkvæmdina.

Heimahjúkrun

Heimahjúkrun er ætlað að gera þeim sem þjónustunnar njóta kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest. Heilsugæslustöðvar annast alla jafna heimahjúkrun, þó ekki í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins þar sem heimahjúkrun er veitt af Heimaþjónustu Reykjavíkur, sem heyrir undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þar hefur félagsleg heimaþjónusta verið sameinuð heimahjúkrun. Á Akureyri og Höfn í Hornafirði heyrir heimahjúkrun einnig undir sveitarfélagið. Ekkert gjald er tekið fyrir heimahjúkrun.

Félagsstarf aldraðra

Mörg sveitarfélög starfrækja félagsmiðstöðvar þar sem fram fer félagsstarf. Markmið félagsstarfsins er að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun með því að bjóða upp á opið félags- og tómstundastarf auk námskeiða. Félagsstarfið stuðlar að samskiptum og veitir félagsskap. Þar er meðal annars boðið upp á mat og kaffi, tómstundaiðju og hreyfingu. Nánari upplýsingar fást hjá sveitarfélögum.

Þjónustuíbúðir

Sum sveitarfélög leigja út þjónustuíbúðir til eldri borgara sem þurfa meiri þjónustu en hægt er að fá í heimahúsum án þess að hafa þörf fyrir  dvöl  á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Í lögum um málefni aldraðra er skilgreint hvaða þjónusta skuli veitt í þjónustuíbúðum og segir að í þeim skuli vera öryggiskerfi og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti og þrifum, og aðgangur að félagsstarfi. Íbúar í þjónustuíbúðum eiga sama rétt á heimaþjónustu og aðrir íbúar sveitarfélagsins. Upplýsingar um þjónustuíbúðir eru veittar hjá viðkomandi sveitarfélögum.


Til baka Senda grein