Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félagsmálaráðherra vegna styrks til Sjónarhóls

Góðir gestir.

Mér að það mikið ánægjuefni að undirrita hér í dag þetta samkomulag milli Sjónarhóls og félagsmálaráðuneytisins. Samkomulagið er til þriggja ára og tekur við af samkomulagi sem hefur verið í gildi frá upphafi starfseminnar 2004 að undangenginni landssöfnun sem tryggði öflugt stofnframlag.

Þjóðarátakið á haustmánuðum 2003 til þess að koma Sjónarhóli á laggirnar er mér raunar sérstaklega eftirminnilegt. Það sýndi að við landsmenn erum sammála um að manngildið og samhjálpin skuli í heiðri höfð. Söfnunin leiddi í ljós svo ekki varð um villst að við viljum enn sem fyrr standa saman og styðja þannig einnig í verki við þá sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda, í þessu tilviki börn með margvíslegar sérþarfir – sérstök börn – og fjölskyldur þeirra.

Það er einnig afar ánægjulegt að verða vitni að þeirri samfélagslegu ábyrgð sem aðrir bakhjarlar Sjónarhóls sýna með stuðningi sínum. Fjögur fyrirtæki, sem eru meðal þeirra öflugustu í landinu, auk Hringsins og Pokasjóðs, láta af hendi rakna fjármagn sem er sem næst til jafns við framlag félagsmálaráðuneytisins til þess að tryggja þá merku starfsemi sem hér fer fram. Það ber ekki einungis vitni um gott árferði og að fyrirtækjunum vegni vel. Það er einnig til marks um þá vitund sem mér virðist fara vaxandi í atvinnulífinu almennt að auðgildið eitt ráði ekki alfarið ríkjum, manngildinu og samhjálpinni skuli goldið sitt, til farsældar fyrir samfélagið allt.

Mér er kunnugt um að hátt á fimmta hundrað fjölskyldur hafa notið margvíslegrar aðstoðar Sjónarhóls undanfarin þrjú ár. Ég geri mér jafnframt grein fyrir því að í hverju tilviki eru að baki ótal viðtöl, erindi og málaleitanir við aðra aðila til samstarfs og samræmingar í þjónustu, fjölbreytileg ráðgjöf og stuðningur – og svo má lengi telja. Hér er unnið afar mikilvægt starf sem ég veit að létt hefur álagi af miklum fjölda fólks. Við skulum gera okkur grein fyrir því að í kringum hvert barn eru ekki einungis foreldrar heldur fjöldi annarra aðstandenda.

Ég vil að lokum óska Sjónarhóli alls velfarnaðar á komandi árum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum