Hoppa yfir valmynd
18. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Alþýðusambands Íslands

Ágætu ársfundargestir.

Á síðasta ári fagnaði Alþýðusamband Íslands því með glæsilegum hætti að 90 ár voru liðin frá stofnun þess. Nú er að hefjast áfangi í átt að aldarafmæli Alþýðusambandsins sem fagnað verður árið 2016.

Heil öld er langur tími og sú öld sem að baki er hefur verið öld stórstígra breytinga. Fyrir einni öld var jarðvegur þeirrar verkalýðshreyfingar sem við þekkjum í dag að myndast hér á landi. Fyrir nákvæmlega 100 árum, haustið 1907, var gerð tilraun til að stofna Verkamannasamband eftir fyrirmynd frá Norðurlöndunum. Í því samhengi var meðal annars rætt um að arður af vinnu rynni til vinnandi fólks, um jafnrétti meðal kynja og að almannatryggingum yrði komið á. Þetta voru miklir breytingatímar og gerjun í samfélaginu var mikil.

Í sögu verkalýðshreyfingarinnar á vef Alþýðusambands Íslands segir orðrétt: „Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar jókst dýrtíðin og auður færðist á fárra manna hendur, örbirgðin fór vaxandi. Krafan um víðtækt samstarf verkalýðsfélaganna varð æ háværari. Úr þessum jarðvegi er Alþýðusamband Íslands sprottið.“

Jóhanna Sigurðardóttir ávarpar ársfund ASÍÁgætu ársfundargestir.

Hér í dag sitja tæplega 300 fulltrúar frá 64 aðildarfélögum Alþýðusambandsins um land allt. Þið eruð komin víða að til þess að móta stefnu Alþýðusambands Íslands haustið 2007.

Og hver eru viðfangsefnin. Kann að vera að þau séu að hluta til hin sömu og þau voru haustið 1907, fyrir réttri öld síðan? Getur verið að meginumfjöllunarefnið á ársfundi ykkar sé hið norræna velferðarkerfi og hvernig við getum nýtt okkur það besta frá öðrum Norðurlöndum á vinnumarkaði okkar?

Getur verið að við séum á Íslandi í dag að ræða um hvort vinnandi fólk eigi að njóta þess arðs sem verður til í samfélaginu? Getur verið að við séum að ræða um hvort konur og karlar búi við jafnrétti á Íslandi í dag? Getur verið að við séum að ræða framtíð almannatryggingakerfisins hér á landi?

Án umhugsunar getum við svarað öllum þessum spurningum játandi.

Rétt eins og fyrir 100 árum er það hlutverk okkar að horfa gagnrýnum augum á samfélagið og fram á veginn. Nú spyrjum við okkur hvort við séum á réttri leið. Við spyrjum okkur í dag hvort það samfélag sem við búum í sé það samfélag sem við raunverulega viljum. Rétt eins og fyrir 100 árum skiptir það samfélag okkar afar miklu máli að slík lifandi umræða fari fram á vettvangi hinna vinnandi stétta enda er það ekki síst þaðan sem velferðin sækir þróttinn og stöðugan endurnýjunarkraft.

Hver er myndin sem blasir við okkur og hver eru viðfangsefni okkar í dag, ykkar í verkalýðshreyfingunni og okkar í stjórnmálunum? Ég mun hér fara yfir það í nokkrum orðum.

Heimsmyndin og þjóðfélagsmyndin árið 2007 er vissulega önnur en sú mynd sem blasti við verkalýðshreyfingunni þegar hún var stofnuð hér á landi. Alþjóðavæðingin sem leiðir meðal annars til aukins flæðis vinnuafls í hnattvæddu umhverfi, skapar ný vandamál og viðfangsefni og hætta er á félagslegum undirboðum og að skattar skili sér ekki með eðlilegum hætti inn í velferðarkerfið okkar. Við þurfum að berjast gegn því að alþjóðavæðingin grafi undan þeim réttindum sem barist hefur verið fyrir og okkur þykja sjálfsögð og viljum ekki fyrir nokkurn mun láta af hendi Þetta eru ný viðfangsefni sem við verðum að takast á við á nýrri öld.

Samvinna við Alþýðusambandið á sviði alþjóðamála er og verður mikilvæg. Þið hafið meðal annars knúið ákveðið á um að Ísland fullgildi fleiri samþykktir ILO og leggi þannig sitt af mörkum til að tryggja launafólki mannsæmandi vinnuskilyrði hvar sem er í heiminum. Þessi mál og þá meðal annars ILO-samþykkt númer 158 eru í mínum huga mikilvæg og ég mun fylgjast grannt með þeirri yfirferð sem nú á sér stað á vettvangi félagsmálaráðuneytisins í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Við vitum að uppi hefur verið ágreiningur meðal aðila vinnumarkaðarins um þetta mál sem hefur tafið afgreiðslu þess úr hófi. Menn verða að fara að leiða þetta mál til lykta. Það er ekki endalaust árum saman hægt að kasta svo mikilvægu máli á milli sín án nokkurrar niðurstöðu.

Margt fleira er breytt í þjóðfélaginu sem skapar ný viðfangsefni. Atvinnulífið breytist, verkefnin verða önnur og fjölbreyttari, þjónustustörfum fjölgar og þörfin fyrir símenntun og endurmenntun hefur aldrei verið meiri.

Mesta atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi, í samanburði meðal OECD-ríkja, krefst enn öflugara velferðarkerfis en ella við umönnun barna, sjúkra og aldraðra og það er viðfangsefni sem við verðum að leysa. Jafnt atvinnuframlag bæði kvenna og karla til samfélagsins er afar mikilvægt og krefst þess að við samþættum atvinnulíf og fjölskyldulíf. Öflugt velferðarkerfi er lykilatriði.

Verkefni velferðarkerfisins og almannatrygginga eru margþætt. Við megum ekki missa sjónar á mikilvægi þess og þeirri staðreynd að fólk á Ísland býr því miður við misjöfn kjör árið 2007. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að samanburðarrannsóknir, sem byggja á sömu viðmiðum og notuð eru innan Evrópusambandsins, benda til þess að árið 2004 hafi 9,7%, eða 27.600 manns hér á landi, 16 ára og eldri, verið undir fátæktarmörkum.

Fyrir liggja tölur um fátækt, ótal skýrslur hafa verið unnar um þetta efni og fram hafa komið tillögur til úrbóta. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum í umbótum á velferðarkerfinu að draga úr fátækt. Ég hef ítrekað lýst minni skoðun á þessum málum og ég óska eftir samráði við verkalýðshreyfinguna og sveitarfélögin um leiðir til þess að sporna gegn fátækt hér á landi. Það verður ekki lengur undan því vikist að auka hlutdeild þeirra fátæku í þjóðarauðnum.

 

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍÁgætu ársfundargestir.

Við erum að hefja kjörtímabil nýrrar ríkisstjórnar og tónninn er gefinn í stefnuyfirlýsingunni. Í henni endurspeglast forgangsröð sem byggir á velferð fyrir alla, ekki síst þeirra sem minna mega sín og eiga af mismunandi ástæðum erfitt uppdráttar í samfélagi okkar. Ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að vinna að þeim mikilvægu málaflokkum sem félagsmálaráðuneytið fer með. Að mínu mati er þetta áhugaverðasta ráðuneytið í Stjórnarráðinu, ráðuneytið sem hefur flesta snertifleti við fólkið í landinu.

Um næstu áramót mun ráðuneytið taka við nýjum, þýðingarmiklum og umfangsmiklum málaflokkum. Það er ekki lítið verkefni að fá að kljást við almannatryggingar og málefni lífeyrisþega.

Mér finnst þessir málaflokkar snerta þann kjarna sem hvert samfélag snýst um. Ég legg ríka áherslu á að við stöndum vörð um heilbrigðan og öflugan vinnumarkað hér á landi á sama tíma og við treystum stoðir velferðarkerfisins. Starfsendurhæfingarmálin eru mikilvægur þáttur í heildarmyndinni og ég vil sjá að þau fái stóraukið vægi á næstu árum.

 

Já, viðfangsefnin mín og ykkar eru fjölmörg og ég nefni hér þau helstu.

Hlutfallsleg fjölgun aldraðra hér á landi eins og í öðrum vestrænum samfélögum krefst þess að við skoðum framtíðaruppbyggingu almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins og samspil þessara grundvallarþátta og heilbrigðisþjónustuna og þjónustu í þágu aldraðra almennt, hvort sem þeir eru utan heilbrigðisþjónustu eða innan. Allir þessir þættir auka framtíðarverkefni velferðarkerfisins.

Almannatryggingar framtíðarinnar eiga í rúmum skilningi að styðja við fulla atvinnuþátttöku kvenna, fjölgun aldraðra, styðja við fjölskyldulíf og samkeppnishæfni og leysa úrlausnarefni tengd innflytjendum og hnattvæðingu. Almannatryggingar þurfa að taka á grunngildum jöfnuðar í samfélaginu eins og um jöfnun tækifæra, minnkun fátæktar, öryggi, þátttöku og samheldni í nýju þjóðfélagsumhverfi, í nýju alþjóðlegu umhverfi. Það kallar á nýjar lausnir, nýjar útfærslur og nýtt skipulag.

Ég vænti mikils af þessu starfi og ég vænti mikils af samstarfi við Alþýðusambands Íslands við mótun framtíðarstefnu á sviði almannatrygginga.

Á vettvangi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hefur verið unnið að nýju kerfi veikinda-, slysa- og örorkuréttinda fyrir félagsmenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands á almennum vinnumarkaði. Ég fagna því að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins leggi svo mikla áherslu á eflingu starfsendurhæfingar, eins og raun ber vitni.

Margt í þessum tillögum stuðlar að auknum lífsgæðum fólks og eykur möguleika þess á að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði í kjölfar slysa og veikinda. Tillögurnar um snemmtæka íhlutun við skerta starfsgetu einstaklinga, einstaklingsmiðaða endurhæfingarþjónustu og færnimat í stað örorkumats eru í fullu samræmi við tillögur nefndar forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar, sem nú starfar áfram sem framkvæmdahópur um tillögur nefndarinnar.

Hitt er svo annað mál að það þarf að skoða miklu betur hvort rétt sé að ábyrgð á örorkumati og eftirliti með þjónustunni verði í höndum aðila vinnumarkaðarins. Við hljótum að ígrunda vel kosti þess og galla ef grunnþjónusta og framfærslukerfi fólks með skerta starfsgetu verði á ábyrgð annarra en opinberra aðila. Hér þarf að tryggja samspil margra þátta og það getur verið erfitt og skapað ójafnræði að þróa þessi kerfi óháð hvert öðru. Með þessu er ég alls ekki að hafna því áfallatryggingakerfi sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa undirbúið heldur einungis að segja að það eru mörg álitaefni uppi sem þarf að skoða.

Hér þarf að fara að með gát og hyggja vel að því hvert er verið að stefna. Það velferðarkerfi sem við höfum búið við undanfarna áratugi dregur dám af því sem hefur verið við lýði á Norðurlöndunum tekur til allra óháð stétt eða stöðu í þjóðfélaginu. Þetta er eitt af því sem á að ræðast í tengslum við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu sem nú er að hefjast.

Þá hlýtur þetta mál að verða til umræðu á vettvangi nefndar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem fjallar nú um málefni öryrkja í víðu samhengi og ég vil jafnframt tengja þetta með beinum hætti þeirri starfsendurhæfingu sem við viljum byggja upp á vettvangi Vinnumálastofnunar. Þar hafa aðilar vinnumarkaðarins virka aðkomu sem er í mínum huga mjög mikilvægt.

  

Húsnæðismál eru einn af hornsteinum velferðarkerfisins. Samkvæmt nýrri könnun sem félagsmálaráðuneytið lét gera á högum fólks á húsnæðismarkaðnum eru 2.750 manns á biðlistum eftir félagslegu húsnæði.

Af þeim sem eru á biðlistum hjá sveitarfélögum og Öryrkjabandalaginu hafa rúm 70% heildartekjur undir 150.000 krónum á mánuði. Margir þeirra eiga ekki kost á að halda eigið heimili þar sem leiga á almennum markaði er orðin svo há að hún er óviðráðanleg fyrir lágtekjufólk, en á sama tíma hefur grunnfjárhæð húsaleigubóta ekki hækkað frá árinu 2001. Algengt er að fólk greiði 110–130.000 krónur fyrir þriggja herbergja íbúð á almennum leigumarkaði.

Þetta ástand hefur leitt til þess að biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði sveitarfélaga og félagasamtaka hafa ekki styst þrátt fyrir fjölgun íbúða. Fólk í sárustu neyð, oft og tíðum með börn á framfæri, býr nú hjá ættingjum eða vinum og getur ekki haldið eigið heimili. Hér er um alvarlegt samfélagslegt vandamál að ræða sem ríki og sveitarfélög verða að sameinast um að leysa á næstu misserum og verkalýðshreyfingin einnig. Þar eigum við samleið.

Þetta er þó engin tilviljun. Á sama tíma og húsnæðisverð hefur nær tvöfaldast hefur verið dregið úr félagslegu hlutverki íbúðalánakerfisins.

Nú er svo komið að þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð þurfa að eiga á bilinu þrjár til fimm milljónir til að kaupa tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu miðað við núverandi lánafyrirkomulag. Í könnuninni kemur fram að um 7.000 manns hafi reynt að kaupa húsnæði á síðastliðnum árum en fallið frá því. Af þeim sem hyggja á fasteignakaup á næstunni er skortur á eigin fé stærsta hindrunin.

Ungt fólk þarf að skuldsetja sig mikið til að komast á fasteignamarkaðinn og vaxtagreiðslur heimilanna af íbúðarhúsnæði vaxa ár frá ári. Í nýrri greinargerð sem unnin hefur verið fyrir mig kemur fram að vaxtagjöld heimilanna jukust um 125,3% að raungildi frá 1994 til 2005 en vaxtabætur heimilanna jukust á sama tíma aðeins um 4,7%. Vaxtabæturnar hafa ekki haldið í við þróun fasteignaverðs og heimilin greiða nú mun hærri hlutdeild ráðstöfunartekna sinna í vaxtagjöld vegna húsnæðis en þau gerðu fyrir tímabil verðhækkana á fasteignamarkaði. Sá ávinningur sem heimilin höfðu af lækkun vaxta á fasteignalánum árið 2004 hefur orðið að litlu eða engu vegna hækkaðs fasteignaverðs og aukinnar skuldsetningar.

Á þessu öllu þarf að taka af skynsemi í ljósi fenginnar reynslu og byggja upp þann framtíðarhúsnæðismarkað sem við viljum sjá hér á landi, með fjölbreytt úrræði sem mætir mismunandi aðstæðum.

 

Ágætu ársfundargestir.

Ég spyr sjálfa mig oft að því af hverju okkur hafi ekki tekist að afnema kynbundinn launamun og af hverju svo lítið hafi þokast sem raun ber vitni frá árinu 1961 er sett voru lög sem kváðu á um afnám kynbundins launamunar innan fárra ára.

Jafnréttismálin, kynbundni launamunurinn og málefni umönnunarstéttanna eru meðal forgangsmála þessarar ríkisstjórnar og að þeim verkefnum vill ríkisstjórnin vinna með samstarfi hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins.

Ég fagna mjög þeim áherslum sem forseti ASÍ lagði á þessi mál.

Á komandi missirum verðum við að stíga markviss skref í átt að þessum mikilvægu markmiðum ríkisstjórnarinnar. Við verðum að brjótast út úr áratuga stöðnun í launamálum kynjanna og treysta grundvöll velferðarkerfisins, með endurmati þeirra mikilvægu starfa sem þar eru unninn. Komandi kjarasamningar geta orðið fyrsta stóra varðan á þeirri vegferð.


Ágætu ársfundargestir.

Verkefnin og viðfangsefnin eru óþrjótandi. Ég hef farið hér yfir þau helstu en stóra málið fyrir ykkur og samfélagið í heild er að hér sé farið að settum reglum á innlendum vinnumarkaði. Slíkt er í senn grundvöllur öflugs efnahagslífs og velferðarsamfélags. Ég nefndi hér áhrif alþjóðavæðingarinnar og viðfangsefni tengd henni sem eru og verða viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar í framtíðinni. Því miður hefur pottur verið brotinn í eftirliti hér á landi gagnvart erlendu vinnuafli eins og ég hef ítrekað bent á og stjórnvöld fóru alltof seint af stað. Alltof seint. Alþýðusambandið hefur hins vegar að mörgu leyti verið til fyrirmyndar í viðleitni sinni við að upplýsa, mennta og verja kjör þeirra erlendu starfsmanna sem hingað hafa komið.

Annan október síðastliðinn hleypti Vinnumálastofnun af stokkunum sérstöku eftirlitsátaki með fyrirtækjum vegna erlendra starfsmanna undir heitinu „Allt í ljós“, í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og Alþýðusambandið. Átakið felur í sér margþættar aðgerðir sem þegar hafa skilað árangri.

Aldrei hafa fleiri skráningar erlendra starfsmanna borist Vinnumálastofnun en í síðasta mánuði eða tæplega 1.600. Um miðjan þennan mánuð höfðu 870 skráningar borist, mun fleiri en yfir venjulegan heilan mánuð og er það rakið beint til átaksins. Þá hefur orðið veruleg aukning á skráningum starfsmanna starfsmannaleiga og í þjónustuviðskiptum. Átakið og umræðan er því að skila okkur árangri eins og að var stefnt.

 

Ágætu ársfundargestir.

Þið hafið sett hér saman metnaðarfulla dagskrá sem snertir meginviðfangsefni samfélags okkar í dag sem sýnir að verkalýðshreyfingin er vel vakandi. Verkalýðshreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki við að skapa það jafnvægi sem nauðsynlegt er í hverju samfélagi. Það er jafnvægi á milli sveigjanleika og velferðar sem einkennt hefur norræna velferðarmódelið og verið fyrirmynd annarra þjóða. Á þeirri sýn eigum við að byggja. Hún hefur skipað okkur í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði og þeirri forystu ber okkur að halda.

 

Ég óska ykkur góðs í ykkar mikilvægu störfum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum