Hoppa yfir valmynd
24. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jafnréttisráðstefnan „Hvaðan kemur hræðslan við jafnrétti?“

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að þakka þeim sem standa að þessari ráðstefnu fyrir gott framtak. Sérstaklega finnst mér mjög vel til fundið að nota tæknina eins og gert er hér í dag svo fleiri geti tekið þátt í þessari nauðsynlegu umræðu um stöðu jafnréttismála og leiðir til að auka jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Þetta er ekkert einkamál fárra heldur landsmanna allra, kvenna og karla, og viljum við því fá fleiri sjónarmið inn í umræðuna.

Það er ótrúlegt og þyngra en tárum taki að nær fimm áratugum eftir að fyrstu jafnlaunalögin voru samþykkt frá Alþingi þurfi enn á Íslandi að halda sérstakar ráðstefnur í tilefni kvennafrídagsins í því skyni að ræða jafnlaunamál og stöðu kvenna almennt á vinnumarkaði.

Á það ekki síst við þar sem löng hefð er fyrir mikilli atvinnuþátttöku kvenna hér á landi og vinnuframlag kvenna ekki síður mikilvægt fyrir efnahagslíf okkar Íslendinga en framlag karlanna.

Við konur erum því ekki að stíga okkar fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði. Við höfum haldið baráttufundi sem voru svo fjölmennir að eftir var tekið í útlöndum, lög ítrekað verið sett, framkvæmdaáætlanir aftur og aftur í jafnréttismálum samþykktar á Alþingi þar sem ítrekað eru gefin fögur fyrirheit um framkvæmdir en lítið orðið úr þeim. Sama gildi um jafnréttisáætlanir sem opinberar stofnanir og fyrirtæki eiga að setja sér, þær hafa skilað alltof litlum árangri, og má til dæmis nefna að einungis þriðjungur fyrirtækja á almenna markaðnum hefur sett sér jafnréttisáætlanir. Ég ætla mér þó ekki að nýta tíma minn hér til að amast yfir fortíðinni og hve margir fara á hraða snigilsins þegar jafnréttismálin eru annars vegar. Við þekkjum fortíðina í þessum efnum, en við þurfum hins vegar að læra af henni og horfa fram á veginn.

Í mínum huga er tími aðgerða löngu kominn í þessum efnum – aðgerða sem eru til þess fallnar að skila árangri.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að mikilvægt sé að afnema svokallaða launaleynd á íslenskum vinnumarkaði en ég tel að sú samningsbundna launaleynd sem hefur verið við lýði hér á landi, og færst í vöxt ef eitthvað er hin síðustu ár, hafi átt stóran þátt í því að viðhalda kynbundnum launamun. Í launaleyndinni og alls kyns duldum og ósýnilegum greiðslum hefur launamisréttinu verið við haldið.

Með nýju frumvarpi til jafnréttislaga sem ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna hafa nú samþykkt og lagt verður fyrir Alþingi í byrjun næsta mánaðar verður stigið mikilvægt skref til að afnema launaleyndina.

Þar er lagt til að launafólki verði tryggður réttur til að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Er það jafnframt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í vor. Þá bind ég líka miklar vonir við það ákvæði jafnréttisfrumvarpsins sem kveður á um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi fyrir málsaðila.

Enn fremur er lagt til með framangreindu frumvarpi að Jafnréttisstofu verði veittar ríkari heimildir til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna að viðlögðum dagsektum í vissum tilvikum. Þetta tel ég mjög mikilvægt til að auka líkur á því að jafnréttislögin nái markmiðum sínum. Er meðal annars gert ráð fyrir markvissu eftirliti Jafnréttisstofu með því að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn geri sér jafnréttisáætlanir og framkvæmdaáætlanir á grundvelli þeirra og samþætti jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína.

Jafnréttisáætlanir eiga ekki að vera sýndaráætlanir sem dregnar eru fram í dagsljósið á tyllidögum. Fyrirtæki og stofnanir eiga að nýta sér þær til að greina stöðuna á vinnustöðunum, setja sér markmið í átt að frekara jafnrétti og leita lausna á þeim vandamálum sem koma fram, þar á meðal að tímasetja aðgerðir til að jafna launamun kynjanna.

Ég nefni kynbundinn launamun sérstaklega í þessu samhengi því hann er til staðar í fjölda fyrirtækja og stofnana, það hefur ítrekað verið staðreynt með könnunum ólíkra aðila. Forsvarsmenn fyrirtækja og stofnana sem starfa á innlendum vinnumarkaði hafa lögbundnar skyldur til að útrýma þessum kynbundna launamun. Það er ekki hægt að líða það að forstöðumenn opinberra stofnana sem eiga að ganga á undan með góðu fordæmi skuli taka þátt í að viðhalda kynbundnum launamun – en kannanir sýna að hann er ekkert síður fyrir hendi á opinbera markaðnum en hinum almenna.

Ég veit hins vegar mæta vel af fyrri reynslu að lagasetning á þessu sviði gerir ekki kraftaverk og dugar engan veginn ein og sér. Lögin eru hins vegar nauðsynlegt tæki til að styðja við jafnréttisbaráttuna en það þarf miklu meira til. Þar vil ég aftur nefna að vilji forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana til að jafna stöðu kvenna og karla á vinnustöðum þeirra er lykilatriði og grundvöllur þess að koma megi á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Í síðustu viku sat ég fund norrænna jafnréttisráðherra í Finnlandi. Á þeim fundi kynnti framkvæmdastjóri norrænu rannsóknastofnunarinnar í kynjafræðum niðurstöður nýrrar rannsóknar sem sýnir að fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja í Finnlandi hefur áhrif á afkomu fyrirtækjanna. Rannsóknin sýnir að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla, en þessi rannsókn náði til 14.000 fyrirtækja, þ.e. allra fyrirtækja í Finnlandi með fleiri en tíu starfsmenn. Þetta kemur heim og saman við rannsókn sem gerð var af Catalyst í Bandaríkjunum þar sem fram kom að þar sem konur stjórna þá er afkoma fyrirtækja betri og arðsemi eigin fjár meiri.

Hér á landi eigum við sannarlega langt í land með að viðunandi jafnræði ríki milli kynjanna í stjórnun fyrirtækja. Já, við eigum því miður mjög langt í land með að nýta til forystustarfa á vinnumarkaðnum þann auð sem býr í krafti kvenna. Á sama tíma eru konur meirihluti þeirra sem útskrifast úr vissum greinum í háskólum og standa sig þar einstaklega vel. Hvernig má þetta vera?

Lítum á nokkrar staðreyndir sem blasa við á íslenskum vinnumarkaði í dag en þessar upplýsingar eru fengnar frá Rannsóknarsetri vinnuréttar- og jafnréttismála á Bifröst.

Samkvæmt jafnréttiskennitölunni um jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjum á Íslandi er hlutfall kvenna í stjórnum þeirra nú, árið 2007, um 8%, og það vekur sérstaka athygli að hlutfallið hefur lækkað úr því að vera 12% árið 2005. Konur skipa 32 sæti í stjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins, þar af eru þrjú fyrirtæki með stjórnarformann sem er kona eða 3%. Ég endurtek, 3%! Hér hefur hlutfallið einnig lækkað frá árinu 2005 en þá voru fimm af 100 stærstu fyrirtækjunum með stjórnarformann sem er kona.

Þetta er afturför en ekki framþróun og þetta gerist á sama tíma og eftirfarandi rök hafa verið færð fram í skýrslu nefndar iðnaðar- og viðskiptaráðherra um aukinn hlut kvenna í yfirstjórnum fyrirtækja.

Þar segir orðrétt: „Helstu rökin fyrir því að fjölga eigi konum í stjórn fyrirtækja eru þau að ávinningur sé af fjölbreytileika, ákvarðanir stjórna taki meira mið af markaðinum og það að virkja konur í yfirstjórnir fyrirtækja hagnýti hæfni og þekkingu sem fyrirtæki myndu ellegar fara á mis við. Enn fremur hefur verið sýnt fram á tengsl milli fjölda kvenna í stjórnum og bættra stjórnarhátta, og bent hefur verið á að fjölgun kvenna í lykil- og valdastöðum auki líkur á að viðskiptalífið byggi á gildum og viðhorfum beggja kynja og sé því líklegra til að njóta krafta og hæfni starfskrafta af báðum kynjum.“

Þurfum við frekari rökstuðnings við? Ég segi nei og ég spyr hvað hluthafar sem ekki byggja á þessum sjónarmiðum séu eiginlega að hugsa? Dettur nokkrum lifandi manni í hug að 3% hlutfall kvenna í stjórnarformennsku 100 stærstu fyrirtækjunum hér á landi byggi á þeirri staðreynd að karlarnir séu svo miklu hæfari? Karlar sem hafa notið sambærilegrar menntunar og konur. Nei, það dettur ekki nokkrum manni í hug að halda því fram. Að baki þessari staðreynd liggur allt annað, kannski hræðslan við jafnrétti.

Það skiptir alla máli að konur og karlar komi jöfnum höndum að áhrifastöðum jafnt í viðskiptalífinu sem annars staðar. Við þurfum ekkert að ræða þetta lengur, ekki mínútu lengur, því atvinnulífið og samfélagið allt tapar miklu á að virkja ekki þann auð til forystu sem býr í krafti kvenna.

 

Ágætu ráðstefnugestir.

Þessi ríkisstjórn hefur sett sér metnaðarfull markmið í jafnréttismálum og er það eitt af forgangsmálunum að taka á jafnlaunamálunum. Í stefnuyfirlýsingunni segir að gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu. Þar höfum við líka sett okkur það markmið að fyrir lok kjörtímabilsins hafi kynbundinn launamunur verið minnkaður um helming. Einnig höfum við leitað eftir samstarfi um þetta mikilvæga mál við aðila vinnumarkaðarins á almenna markaðnum.

Misrétti á vinnumarkaði kemur einnig fram í þeirri tilhneigingu að störf fjölmennra kvennastétta, ekki síst í umönnunarstörfum, eru lægra metin í peningum talið en störf margra karlastétta. Það er hreint óþolandi ástand að konur þurfi að flýja störfin sem þær hafa menntað sig til að sinna til að sjá sér og sínum farborða. Þessu þarf að breyta en það er jafnframt markmið núverandi ríkisstjórnar að kjör kvenna hjá hinu opinbera verði endurmetin og þá einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Ég hef skipað tvær nefndir sem eiga að einbeita sér að þessum mikilvægu verkefnum út kjörtímabilið. Annars vegar aðgerðanefnd undir forystu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra og bankastjóra, sem mun einbeita sér að úrbótum á almenna vinnumarkaðnum. Í þeirri nefnd eiga einnig sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Hins vegar hef ég skipað ráðgjafarnefnd undir forystu Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns sem mótar tillögur að aðgerðum, metur þær tillögur sem fram koma og fylgjast með raunverulegum árangri þeirra aðgerða sem ráðist verður í.

Í ráðgjafanefndinni sitja auk Láru fulltrúar Jafnréttisstofu, Jafnréttisráðs, Kvenréttindafélags Íslands, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. Þriðji starfshópurinn sem kemur að þessu verki fyrir hönd fjármálaráðherra mun fara með þessi mál að því er varðar opinbera vinnumarkaðinn.

Við ætlum sem sagt ekki að sitja við orðin tóm. Við höfum viljann til að leiðrétta kynbundinn launamun hjá hinu opinbera og við gerum okkur grein fyrir því að til þess þarf aukið fjármagn. Forystumenn launþegahreyfingarinnar og nýafstaðin þing þeirra hafa einnig lýst yfir einbeittum vilja og ásetningi um að nýta komandi kjarasamninga til að taka á þessu máli. Ég trúi því og treysti að það sé sambærilegur vilji hjá forsvarsmönnum fyrirtækjanna er starfa á almenna vinnumarkaðnum til að koma með í þessa vegferð og þá hljótum við að ná árangri.

Ég hef þá staðföstu trú að við fáum það margfalt til baka að tryggja hér jafnrétti á vinnumarkaði, meðal annars í aukinni starfsánægju og framleiðni, sem er til þess eins fallið að auka enn frekar á hagsæld okkar og þá ekki síst þegar horft er til framtíðar. Það er okkar hlutverk að laga þessa hluti og ég heiti kröftum mínum í þessi mikilvægu verkefni.

 

Ágætu ráðstefnugestir.

Við erum hér saman komin í dag á vettvangi háskólanna og á það afar vel við á kvennafrídaginn árið 2007. Nýjar tölur Hagstofunnar sýna að konur voru tveir þriðju (67,1%) þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi skólaárið 2005–2006 og karlar þriðjungur (32,9%) útskrifaðra. Þá vekur athygli hversu miklu fleiri konur en karlar ljúka stúdentsprófi. Skólaárið 2005–2006 luku 1.450 konur stúdentsprófi, 73,3% af fjölda tvítugra það ár en 1.002 karlar, 49,2% af fjölda tvítugra.

Hér í dag verða flutt afar áhugaverð erindi þar sem leitast verður við að svara þeirri spurningu hvort við séum hrædd við jafnrétti. Getur verið að þjóð þar sem konur eru í meirihluta þeirra sem sækja sér framhaldsmenntun sé hrædd við jafnrétti? Því trúi ég ekki. Ég trúi því að við sjáum tækifæri í jafnrétti og tryggjum saman að það endurspeglist á öllum sviðum þjóðlífsins. Það er mín framtíðarsýn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum