Hoppa yfir valmynd
4. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Afmælishátíð í tilefni af 75 ára afmæli fyrstu barnaverndarlöggjafar á Íslandi

Ágæta barnaverndarfólk.

Ég vil hefja mál mitt á því að óska okkur öllum til hamingju með þessi tímamót sem eru um þessar mundir þegar 75 ár eru liðin frá upphafi skipulegs barnaverndarstarfs á Íslandi. Ég mun ekki fjalla um þessa sögu enda mun verða flutt hér á eftir erindi um það efni. Ég get hins vegar ekki látið hjá líðast að minnast í örfáum orðum á viss söguleg tímamót sem urðu í fyrri ráðherratíð minni í félagsmálaráðuneytinu þegar barnaverndarmálin fluttust frá menntamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis frá 1. janúar 1993.

Aðstoðarmanni mínum þá og núverandi forstjóri Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandssyni, var það mikið kappsmál að blása lífi í fullbúin frumvarpsdrög sem legið höfðu í möppu í menntamálaráðuneytinu um allnokkra hríð. Samkvæmt þeim frumvarpsdrögum var gert ráð fyrir að málaflokkurinn flyttist til félagsmálaráðuneytisins. Markmiðið var að sjálfsögðu að hefjast síðan handa um endurskoðun laganna strax og það hefði fengið afgreiðslu og barnaverndarmálin væru komin undir mína forsjá. Þetta gekk eftir.

Á þessum tíma skipaði ég jafnframt nefnd til að hafa umsjón með undirbúningi alþjóðaári fjölskyldunnar, sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að yrði árið 1994. Fól ég henni að gera ýmsar tillögur til úrbóta í fjölskyldumálum, einkum er varðar málefni barna.

Jafnframt skipaði ég nýja stjórnarnefnd Unglingaheimilis ríkisins og fól henni að gera tillögur um nýskipan í málefnum barna á vegum ríkisins. Í þessari vinnu var leitað til færustu sérfræðinga í málefnum barna hér á landi þannig að margir lögðu hönd á plóg.

Einn helsti árangur þessarar vinnu var óumdeilanlega stofun Barnaverndarstofu í kjölfar breytingar á barnaverndarlögum árið 1995. Með stofnun hennar held ég að flestir geti orðið sammála um að brotið hafi verið blað í sögu barnaverndar á Íslandi. Í fyrsta skipti var stjórn þessa mikilvæga málaflokks komið fyrir hjá einni stofnun sem hafði það meginhlutverk að efla barnaverndarstarf í landinu öllu. Ekki var vanþörf á því barnaverndarnefndir voru hátt í tvö hundruð á þessum tíma, flestar án þess að hafa starfsfólk í þjónustu sinni.

Í kjölfarið var síðan meðferðarkerfi ríkisins fyrir börn og unglinga stokkað upp þannig að það þjónaði betur en áður var þörfum þeirra barna sem barnaverndarnefndir höfðu á sínum vegum.

Á starfstíma Barnaverndarstofu hafa margar aðrar nýjungar í barnavernd verið innleiddar hérlendis, til dæmis á sviði fósturmála, samstarf við 112 um framkvæmd tilkynningaskyldu almennings í barnaverndarmálum og starfsemi Barnahúss sem vakið hefur verðskuldaða alþjóðlega athygli.

Ég hef fylgst af miklum áhuga með þeirri athygli sem Barnahúsið hefur vakið á erlendri grundu. Sú staðreynd að Svíþjóð hefur nú sett upp átta slík hús, Noregur tvö og fleiri eru í bígerð hlýtur að fylla barnaverndarfólk á Íslandi stolti yfir árangri í barnaverndarmálum hér á landi.

Við erum ekki lengur þiggjendur frá nágrannaþjóðum okkar á öðrum Norðurlöndum heldur gefendur þar sem þeir leita í smiðju til okkar. Sú staðreynd að forstjóra Barnaverndarstofu var falið að halda opnunarfyrirlestur á Evrópuþingi alþjóðlegu barnaverndarstamtakanna, sem haldið var í síðustu viku og var sótt af um 800 sérfræðingum um allan heim, lýsir vel þeirri virðingu sem Ísland hefur í alþjóðasamfélaginu í barnavernd.

Þótt margt hafi áunnist er engum þó ljósara en ykkur að mikil verkefni eru óunnin á sviði barnaverndar í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir að lög hafi kveðið á um það síðan núgildandi barnaverndarlög tóku gildi árið 2002 að leggja skuli framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til fimm ára fyrir Alþingi hefur það aldrei verið gert. Það mun ég gera á vorþingi, en Barnaverndarstofa hefur skilað tillögum til mín að slíkri áætlun og mun ég kalla eftir sjónarmiðum barnaverndarnefnda í landinu varðandi þær tillögur áður en þær verða lagðar fyrir Alþingi.

Barnaverndarstofa hefur nú í áraraðir og án árangurs leitað eftir fjárframlagi til að kynna til sögunnar fjölbreyttari meðferðarúrræði utan stofnana, svonefnt MST, sem gerir kleift að veita barni og foreldrum þess meðferð á vettvangi fjölskyldunnar og nánasta umhverfi barnsins. Mér er það ljúft að greina frá því hér að á fjárlögum næsta árs verða veittar 50 m.kr. til þessa merka verkefnis.

Að lokum vil ég vekja athygli á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnnar til að styrkja stöðu barna á Íslandi þar sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd fjölmörgum hagsmunamálum barna sem mörg hver hafa mikla þýðingu fyrir barnaverndarstarf í nánustu framtíð.

Þær frásagnir sem við höfum heyrt fyrr á þessu ári um þau ör sem margir skjólstæðingar barnaverndar bera á sálinni vegna atvika úr fortíðinni hlýtur að vera okkur áminning um hversu ábyrgðarmikil og vandasöm störf á sviði barnaverndar eru. Ég á enga ósk heitari á þessum tímamótum en þá að betur takist til í framtíðinni og í þeim efnum geta stjórnvöld ekki vikist undan ábyrgð. Í þessum efnum er áminning franska leikskáldsins Moliere afar viðeigandi, en hann sagði svo réttilega: „Við berum ekki aðeins ábyrgð á því sem við gerum heldur einnig því sem við látum ógert.“

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar vandasömum störfum í framtíðinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum