Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing félags- og tryggingamálaráðuneytis og Barnaverndarstofu

Kæru málþingsgestir.

Við erum hér saman komin í dag til fara yfir og skiptast á skoðunum um drög að stefnumarkandi áætlun félags- og tryggingamálaráðuneytis og Barnaverndarstofu. Vænti ég mikils af því að fá fram sjónarmið ykkar um þetta mikilvæga málefni.

Samkvæmt barnaverndarlögum ber félagsmálaráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd. Er nú í fyrsta sinn samin áætlun ríkisins í barnavernd. Segja má að tími sé til kominn enda eru bráðum sex ár liðin síðan kveðið var á um í lögum að það skyldi gert.

Þegar unnið hefur verið úr því sem kemur fram á málþinginu í dag mun endanleg stefnumarkandi áætlun, sem gildir til næstu sveitarstjórnarkosninga 2010, verða lögð fyrir Alþingi nú á vorþingi.

Það er sameiginlegt hlutverk félags- og tryggingamálaráðuneytisins, sveitarstjórna og Barnaverndarstofu að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Í drögunum að áætluninni koma fram fimm meginmarkmið til að ná þessu fram, en þau eru:

  1. að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins,
  2. að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu,
  3. að efla þjónustu Barnaverndarstofu,
  4. að bæta hæfni og getu starfsfólks Barnaverndarstofu,
  5. að fjármagn sem lagt er til Barnaverndarstofu nýtist sem best.

Hvað fyrsta atriðið varðar tel ég að barnaverndarstarf félags- og tryggingamálaráðuneytisins verði best eflt með reglubundnu samstarfi við Barnaverndarstofu. Samstarfið felist í því að meta reglulega framkvæmd barnaverndarlöggjafar, einkum reynslu af nýjungum og breytingum í barnaverndarstarfi.

Slíkt samstarf leiðir síðan til þess að ljóst verður um hvaða atriði þarf að semja frumvörp og setja reglugerðir, hvort tveggja í samráði við Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndir. Þá er að sjálfsögðu óhjákvæmilegur þáttur í samstarfi ráðuneytisins og Barnaverndarstofu að fara yfir fjárlagatillögur Barnaverndarstofu á hverju ári og reyna að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, eins og kostur er við fjárlagagerð.

Auk reglubundins samstarfs við Barnaverndarstofu hyggst ráðuneytið efla samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin sjálf um eflingu barnaverndarstarfs á landsvísu. Nauðsynlegt er að starfsmannaþörf sveitarfélaga í barnavernd verði metin til að þau geti veitt góða og markvissa þjónustu börnunum til hagsbóta. Bendi ég í því sambandi til dæmis á að tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað stórkostlega um land allt á síðustu árum, og þar með það álag á starfsmenn sem fylgir vandmeðförnum barnaverndarmálum.

Það gefur augaleið að grundvallaratriði í allri barnavernd er að gaumgæfa vandlega hvaða kostir í einstökum barnaverndarmálum séu barni fyrir bestu, að tími gefist til að vinna traust foreldra til að eiga við þá gott samstarf og, síðast en ekki síst, að hlusta á sjónarmið barnsins sjálfs og eiga við það samræðu. Þetta er undirstaða góðrar og faglegrar vinnu í barnavernd og verður ekki innt af hendi sómasamlega nema starfsfólki gefist tími til. Þess vegna verður að búa vel að starfsfólki í barnavernd, það er lykillinn að því að vel takist til.

Varðandi eflingu barnaverndarstarfs á vegum Barnaverndarstofu verður því best sinnt með því að halda áfram því starfi sem þar er nú unnið og efla það eftir föngum. Barnaverndarstofa hefur á undanförnum árum gert tillögur um ýmis nýmæli og umbætur á starfssviði sínu. Þar ber hæst tillögur um fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir börn í vanda.

Það var mér ánægja að ná fram fjárveitingu strax á þessu ári í því skyni að hrinda í framkvæmd hinu svonefnda MST meðferðarúrræði, fjölþáttameðferð, sem felst í að veita hjálpina á heimili unglings með því að efla foreldrafærni, styðja unglinginn í sínu eðlilega umhverfi og styrkja jákvæð félagstengsl hans og stuðningsnet, meðal annars í skólastarfi og hollum tómstundum. Nú hefur Barnaverndarstofa hafist handa við að innleiða þetta starf og væntanlega fá fyrstu unglingarnir og fjölskyldur þeirra að njóta þess um eða upp úr miðju ári. Ég geri mér vonir um það að sveitarfélögin og barnaverndarnefndir eigi virkan þátt í því að framkvæmd MST meðferðarinnar takist sem best í góðu samstarfi við Barnaverndarstofu.

MST meðferðinni er ætlað að koma í veg fyrir aðskilnað barns og foreldra, þ.e. innlögn á stofnun, oft í langan tíma. Auðvitað verðum við að vera raunsæ og horfast í augu við þá staðreynd að stofnanir munu um ókomna tíð halda áfram að veita ungmennum meðferð. Enda hentar það sumum börnum vel, þarfir barna og unglinga eru ekki einsleitar.

Við verðum líka að kunna að meta það góða starf sem unnið hefur verið á meðferðarheimilum hérlendis í áraraðir. Engum vafa er undirorpið að þar hefur mörgum börnum og ungmennum verið veitt nýtt tækifæri, ný von til að sigrast á erfiðleikum.

Umræða um störf meðferðarheimila hefur ekki ætíð verið jákvæð. Víst er um það að saga okkar geymir sorglega reynslu þar sem margt hefur farið úrskeiðis eins og komið hefur fram á síðustu misserum. Við verðum að sjá til þess að það endurtaki sig aldrei. Til þess að tryggja það verðum við áfram að bæta vinnubrögð og auka gæði í meðferðarstarfi. Menntun starfsfólks skiptir þar miklu máli, ekki síst er varðar þarfir barna, þroska þeirra og réttindi. Annað mikilvægt atriði er að þróa gæðastaðla fyrir vistun barna utan heimila. Nú er Barnaverndarstofa að leggja lokahönd á gerð slíkra staðla sem ég bind miklar vonir við að verði vel tekið og skili hlutverki sínu bæði á sviði meðferðarstarfs og fósturmála.

Eins og ég vék að áðan hafa meðferðarheimili að undanförnu verið sett undir gagnrýnið mæliker í almennri umræðu. Mikilvægt er líka að læra af reynslu fortíðarinnar. Gagnrýni er góð og nauðsynleg en verður að vera byggð á réttum forsendum. Beina verður því sjónum sínum að starfsemi meðferðarheimilanna um þessar mundir, en láta sagnfræðinni eftir að varpa ljósi á fortíðina. Eftirlit Barnaverndarstofu með vistunum barna á meðferðarheimilum þarf að efla. Ekki á forsendum tortryggni og vantrausts í garð starfsfólks, heldur einmitt til að eyða tortryggni og auka á það traust sem meðferðarheimilin þurfa að njóta í samfélaginu. Ég hef veitt því athygli að starfsfólk meðferðarheimila vill öflugt eftirlit því þannig er best hægt að verjast gagnrýni sem er ómálefnaleg og byggir á sögusögnum.

Barnaverndarstofa hefur beitt sér ötullega á sviði þróunarstarfs á starfstíma sínum. Barnahúsið og samstarfið við 112 til að greiða fyrir framkvæmd tilkynningarskyldu almennings í barnaverndarmálum hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Ég vil láta þá von sérstaklega í ljós að okkur takist á næstu árum að treysta Barnahúsið enn frekar í sessi með nauðsynlegum lagabreytingum.

Rannsóknar- og þróunarstarf í barnavernd hefur mikla þýðingu eins og á öðrum sviðum samfélags okkar. Tilgangur þess er að sjálfsögðu að öðlast hagnýta þekkingu til að ná árangri og jafnframt að tryggja nýtingu fjármagns sem best. Fjármagn er eðli málsins samkvæmt alltaf takmarkað. Það er takmarkað vegna þess að verkefnin eru svo mörg sem óunnin eru. Þess vegna verðum við að hafa forgangsröðunina skýra á hverjum tíma og þess vegna verðum við að nýta fjármagnið vel.

Að endingu vil ég leggja áherslu á ályktunina sem Alþingi samþykkti í vor um aðgerðir í þágu barna. Skipuð var nefnd til að framkvæma aðgerðaáætlunina undir stjórn forstjóra Barnaverndarstofu. Verkefnið heyrir undir fjögur fagráðuneyti, dóms- og kirkjumála-, félags- og tryggingamála-, heilbrigðis- og menntamálaráðuneyti.

Með því að félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur tekið forystuna í aðgerðaáætluninni hefur ráðuneytið tekið að sér að hafa yfirsýn yfir málefni barna hjá öðrum ráðuneytum og samræma aðgerðir ráðuneytanna fjögurra. Bind ég miklar vonir við það starf börnum til hagsbóta og eru ýmsar tillögur sem fram koma í áætluninni ýmist í undirbúningi eða komnar til framkvæmda.

 

Góðir málþingsgestir.

Velferð barna er undirstaða framtíðarinnar og endurspeglar ekki síst hvort við búum í velferðarþjóðfélagi. Slíkt verkefni er eðli málsins samkvæmt í stöðugu endurmati og þekkingarleit. Ég er þess fullviss að framlag ykkar í dag er byggt á þekkingu og víðsýni sem stuðlar enn frekar að því að það verður metnaðarfull áætlun ríkisins í barnavernd sem lögð verður fyrir Alþingi nú á vorþingi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum