Hoppa yfir valmynd
11. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna Ungra jafnaðarmanna á Akureyri: Bleik orka

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að þakka Ungum jafnaðarmönnum á Akureyri fyrir það framtak að skipuleggja þessa ráðstefnu um stöðu kvenna í þjóðfélaginu.

Tæp öld er liðin frá því að alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur. Baráttumálin á þeim tíma voru helst kosningarréttur kvenna, réttindi kvenna á vinnumarkaði og rétturinn til fæðingarorlofs. Frá því að kosningarréttur kvenna vannst að fullu hefur þessi dagur oftast verið helgaður baráttunni fyrir bættri stöðu kvenna á vinnumarkaði. Ég ætla að nota þetta tækifæri og fara yfir málaflokkinn í heild og það sem hæst ber í störfum mínum sem ráðherra jafnréttismála.

Hér á landi eru jafnréttislögin orðin meira en 30 ára gömul og nærri hálf öld er liðin síðan fyrstu jafnlaunalögin voru sett. Þótt margt hafi breyst til hins betra í jafnréttismálum á undanförnum árum og áratugum eru meginstefin í jafnréttisbaráttunni samt þau sömu. Enn erum við að berjast fyrir aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum, enn erum við að berjast fyrir jöfnum launum og jafnri stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og enn erum við að vinna að því að konur jafnt sem karlar geti náð jafnvægi á milli fjölskyldu- og atvinnulífs.

Fyrir rúmu ári kynnti fyrrverandi félagsmálaráðherra launakönnun á Alþingi þar sem fram kom að nær enginn árangur hefði náðst í því að minnka launamun kynjanna á tólf árum. Aðrar slíkar kannanir hafa bent til þess að eitthvað þokist í rétta átt, þótt þróunin sé allt of hæg. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að frétta af þeim árangri sem Akureyrarkaupstaður hefur náð í því að jafna út launamun kynjanna. Sá árangur sýnir að vilji er allt sem þarf til þess að eyða kynbundnum launamun.

Baráttan gegn kynbundnum launamun verður að vera forgangsatriði í íslenskum stjórnmálum og að henni þarf að vinna með skipulögðum hætti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var sett fram það markmið að minnka óútskýrðan, kynbundinn launamun hjá ríkinu um helming fyrir lok kjörtímabilsins. Einnig var þar lýst vilja ríkisstjórnarinnar til þess að koma á samvinnu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að leita leiða til þess að eyða þessum launamun á opinberum markaði.

Þessi yfirlýsing er ekki orðin tóm. Síðastliðið haust skipaði ég tvo starfshópa til að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Annars vegar var skipaður starfshópur sem fékk það verkefni að leita leiða til þess að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði, sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja. Starfshópnum er ætlað að vinna tillögur og hrinda í framkvæmd aðgerðum.

Hins vegar skipaði ég sjö manna ráðgjafarhóp sem hefur það hlutverk að vera til ráðgjafar um framvindu aðgerða gegn launamun. Þá er hópnum ætlað að vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða. Þriðji starfshópurinn um launamun kynjanna var síðan skipaður af fjármálaráðherra, en þeim hópi er ætlað að gera áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu. Þá á hópurinn að gera tillögur um það hvernig endurmeta megi sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Ég hef greinilega orðið þess vör að undanförnu að þessi fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um að dregið verði úr launamun kynja og skipan starfshópanna sem ég nefndi áðan hefur hleypt nýju blóði, nýrri orku, inn í orðræðuna um launamun kynjanna. Það kom fram á fundi sem ég sat á föstudag fyrir rúmri viku þar sem það þungavigtarfólk sem situr í starfshópunum átti samræður við stóran hóp starfsmannastjóra úr einkageiranum.

Þar kom fram vilji starfsmannastjóranna til að fá í hendur tæki og tól til að nota til þess að leiðrétta laun innan þeirra fyrirtækja þar sem þeir starfa. Á ráðstefnu í Rúgbrauðsgerðinni í fyrradag um launamun kynjanna, sem launþegahreyfingin og Jafnréttisstofa stóðu að í tilefni áttunda mars, viku margir ræðumanna að því að svo virtist sem núna sé að vora í þessum málum eftir langt tímabil stöðnunar. Núna er tækifærið að opnast, var setning sem heyrðist þar í ýmsum myndum. Ég bind miklar vonir við þetta starf, en geri mér líka grein fyrir að það er ekki auðvelt. En sé hinn pólitíski vilji til staðar, sýnilegur og virkur, þá eru líkur á árangri þess meiri. Þennan vilja hef ég.

Ég vil líka leyfa mér að halda því fram að bókun sú sem gerð var í nýafstöðnum kjarasamningum milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um jafnréttisáherslur sé að einhverju leyti afleiðing af þessum aukna þrýstingi á að árangur náist í því að draga úr launamun kynja. Þar er sérstaklega kveðið á um eina tiltekna leið, nefnilega svokallaða jafnréttisvottun sem „feli í sér vottun á framkvæmdastefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfa og starfsþróunar“, eins og það er orðað í bókuninni. Ég vík nánar að jafnréttisvottuninni síðar.

En kjarasamningarnir í heild sinni voru gleðilegir, ekki síst það að mest áhersla var lögð á að hækka laun hinna lægst launuðu. Við vitum að þar eru konur fjölmennar og það eru líka þær sem hafa staðið höllustum fæti á vinnumarkaðnum. En það eru stór verkefni framundan á sviði kjarasamningagerðar, einkum hjá ríki og sveitarfélögum. Þar mun reyna á stjórnarsáttmálann og þar verðum við að finna leiðir til þess að fjölmennu kvennahópunum, sem halda uppi almannaþjónustunni og hafa setið eftir í launaþróuninni, verði lyft án þess að körlunum sem sitja á toppnum verði lyft margfalt í leiðinni.

Ég tel það vera eitt brýnasta jafnréttismál samtímans og um leið eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja bætt kjör uppeldis- og umönnunarstétta. Þetta er líka eitt stærsta málið í endurreisn okkar velferðarkerfis. Það er óþolandi ástand að ekki sé hægt að manna mikilvæg störf sem snúa að þjónustu við börn, sjúka og aldraða. Þessar stéttir eru að mestu skipaðar konum og ef þessi störf eru lægra metin en sambærileg eða jafnverðmæt störf í karlastéttum, þá felur það í sér misrétti. Við horfum upp á það að konur flýja í talsverðum mæli þau störf sem þær hafa menntað sig til vegna lágra launa. Þessu þarf að breyta og það verður ekki gert nema með öflugum jafnaðarmannaflokki í ríkisstjórn.

Með þessu vinnum við ekki aðeins sigra í baráttunni fyrir auknu launajafnrétti heldur munum við einnig verja almannaþjónustuna sjálfa. Til þess standa hagsmunir samfélagsins alls. Við megum aldrei gleyma því að það er ekki síst hin öfluga almannaþjónusta, það er hið norræna velferðarsamfélag, sem hefur hleypt okkur á norðurslóðum í fremstu röð hvað varðar stöðu jafnréttismála yfirleitt.

Á dögunum voru samþykkt frá Alþingi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem launafólki er tryggður réttur til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að afnema launaleynd á íslenskum vinnumarkaði og ég tel að með samþykkt nýrra jafnréttislaga sé stigið mikilvægt skref í áttina að því að útrýma kynbundnum launamun. Í skjóli launaleyndar hefur misréttið þrifist og með því að heimila fólki að tjá sig um laun sín erum við að stuðla að betra og réttlátara launaumhverfi.

Með samþykkt nýrra jafnréttislaga fær Jafnréttisstofa einnig auknar heimildir til þess að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem það eykur líkurnar á því að jafnréttislögin nái markmiðum sínum. Meðal annars er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa hafi markvisst eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn geri jafnréttisáætlanir eða samþætti jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Þá er Jafnréttisstofu veitt heimild til að beita dagsektum í vissum tilfellum. Sambærileg sektarákvæði eru í löggjöf annarra norræna ríkja og þykja þau hafa gefist vel.

Þá tel ég skipta verulegu máli að í nýju jafnréttislögunum er ákvæði sem kveður á um það að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi fyrir málsaðila. Flest mál sem koma fyrir kærunefndina varða launajafnrétti og stöðuveitingar þannig að um mikilvæg hagsmunamál er að ræða. Með því fá niðurstöður kærunefndarinnar meira vægi en nú er, en allt of mikið er um að álit kærunefndar jafnréttismála séu ekki virt.

Einnig er ákvæði í lögunum sem tryggir að kærandi fái greiddan málskostnað ef úrskurður kærunefndar er honum í hag en gagnaðili vill ekki una honum og höfðar mál til að fá úrskurðinum hnekkt. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar hiki við að kæra mál af ótta við málskostnað.

Það hefur ekki hlotið verðskuldaða athygli í umræðum um jafnréttisfrumvarpið, og núna ný jafnréttislög, að í því er nýtt ákvæði sem kveður á um að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama á að gilda um alla ákvarðanatöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt. Þetta er það sem stundum er upp á ensku kallað gender mainstreaming eða samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.

Svo skorinort var ekki tekið til orða í fyrri jafnréttislögum, enda hefur viðleitni ráðherra jafnréttismála á undanförnum árum til að taka upp markmið og aðferðir kynjasamþættingar ekki skilað þeim árangri sem hún getur gert. Hvað er hér um að ræða? Jú, öll stjórnsýsla, stefnumótun, starfsemi og einstaka ákvarðanir eiga að sæta skoðun út frá markmiðum jafnréttisbaráttunnar og öll þessi ferli eiga að vera upplýst með tilliti til þess hver áhrifin eru á stöðu kynjanna. Enginn, ég segi enginn stjórnandi eða stjórnmálamaður á að geta komist upp með að láta sem markmið jafnréttisbaráttunnar komi sér ekki við. Með þessum hætti þurfa allir stjórnendur að gerast verkamenn í víngarði jafnréttisins. Jafnréttið verður ekki einkamál jafnréttisráðherrans eða jafnréttisfulltrúanna. Það er ljóst að til þess að svo megi verða þarf að stórefla alla fræðslu um jafnréttismál, kynjafræði og stöðu kynjanna. Hér bíður okkar mikið verkefni. Hér kalla ég samfélagið allt til aðstoðar, við þurfum öfluga jafnréttisumræðu, jafnréttisrannsóknir og aukna virkni jafnréttisbaráttunnar til að miðla þekkingu og veita nauðsynlegt aðhald.

Ég vil líka nefna að nú er í fyrsta sinn minnst á kynbundið ofbeldi í jafnréttislögum. Það er af því að við teljum kynbundið ofbeldi ekki einvörðungu ofbeldi, eins og hvað annað sem er refsivert samkvæmt hegningarlögum, heldur teljum við kynbundið ofbeldi eiga þátt í því að staða kvenna almennt er lakari í samfélaginu, þolendur þess geta allt lífið þurft að glíma við afleiðingar þess varðandi sjálfsmat og sjálfstraust og það hindrar í raun að konur eigi „jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína“, svo ég vitni til markmiðsgreinar, fyrstu greinar, nýrra jafnréttislaga. Kynbundið ofbeldi er skilgreint í lögunum og barátta gegn því verður framvegis eitt af hlutverkum Jafnréttisstofu. Í samræmi við þetta fá Kvennaathvarfið og Stígamót nú í fyrsta sinn fulltrúa í Jafnréttisráði.

Ég vil nefna í þessu sambandi að nú er að störfum nefnd á mínum vegum sem framfylgja á aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn konum. Af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytis verða veittir í aðgerðaáætlunina verulegir fjármunir á næstu árum en meðal þeirra verkefna aðgerðaáætlunarinnar sem falla undir félags- og tryggingamálaráðuneytið eru:

  • Fyrirbyggjandi aðgerðir, þ.e. kynningarátak, fræðsla til almennings og leiðbeinandi aðgerðaáætlun fyrir sveitarfélögin.
  • Styrkja starfsfólk stofnana til að sjá einkenni kynbundins ofbeldis með því að gefa út handbók um ofbeldi og rannsaka heimilisofbeldi.
  • Vinna að því að rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur.

Handbók um heimilisofbeldi er nú á lokastigi. Þá hefur ráðuneytið jafnframt sett sérstakt fjármagn í að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur.

Þá er viðamikil rannsókn að fara af stað á vegum ráðuneytisins um heimilisofbeldi. Markmið með rannsókninni er þríþætt: Í fyrsta lagi að kanna umfang heimilisofbeldis, í öðru lagi að gera aðgerðaáætlanir um eflingu og samþættingu þjónustu við konur sem verða fyrir heimilisofbeldi og efla þekkingu á heimilisofbeldi meðal starfsfólks á sviði heilbrigðis-, félags- og skólamála og í refsivörslukerfinu og í þriðja lagi að draga úr heimilisofbeldi, styrkja aðstoð við ofbeldismenn sem leita sér aðstoðar og breyta viðhorfum til heimilisofbeldis.

Rannsóknin mun fyrst og fremst taka til þolenda, þ.e. kvenna 18 ára og eldri, en einnig að hluta til til gerenda, þ.e. karla 18 ára og eldri.

Ætlunin er bæði að afla bæði þekkingar um umfang og eðli heimilisofbeldis. Rannsókn af þessum toga hefur ekki áður verið gerð á Íslandi.

Þá er rétt að minnast á það að í lögunum er endurvakið jafnréttisþing sem félags- og tryggingamálaráðherra skal boða til innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum. Jafnréttisþingið á að vera breiður vettvangur allra þeirra sem láta sig jafnrétti varða og geta lagt málaflokknum lið með hvatningu og ábendingum til stjórnvalda. Ég bind miklar vonir við komandi jafnréttisþing og tel mikilvægt að allir sem láta sig jafnréttismálin varða nýti það til þess að setja fram hugmyndir sem nýst gætu við vinnu að nýrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Loks vil ég víkja að bráðabirgðaákvæði í nýjum jafnréttislögum sem kveður á um það að félags- og tryggingamálaráðherra skuli sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Hér er komin jafnréttisvottunin sem einnig er að finna í bókun Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og ég nefndi áður. Í ákvæðinu eru sett tímamörk, verkefninu skal lokið fyrir 1. janúar 2010. Við höfum tæp tvö ár til stefnu. Þetta verkefni gæti verið flókið því ekki hefur enn verið bent á fyrirmynd eða fordæmi sem hægt er að nýta og er hugmyndin því enn tiltölulega óútfærð. Mér er ljós sú ábyrgð sem á mínar herðar eru lagðar með þessu ákvæði, en hér er tækifæri til að skapa. Í ráðuneytinu er nú að hefjast vinna við að móta það hvernig hægt er að hefjast handa og ég vona að ég geti innan skamms kynnt með hvaða hætti við ráðumst í þetta verk.

Ég get ekki lokið umræðunni um ný jafnréttislög án þess að geta annars frumvarps sem nú er til umfjöllunar á Alþingi og snertir jafnréttismálin með veigamiklum hætti. Hér á ég við frumvarp til breytinga á fæðingarorlofslögunum, en auðvitað líka fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um lengingu orlofsins. Í því sambandi er brýnt að lengingin sé útfærð í sama anda og fæðingarorlofið yfirleitt, sem sé að réttur feðra og mæðra sé jafn. Í frumvarpinu er lagfærður sá viðmiðunartími vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðast við. Við gerum okkur vonir um að þessi lagfæring leiði til þess að greiðslur almennt hækki. Þá er í vissum tilvikum heimilað framsal á fæðingarorlofsrétti, ef staða annars foreldrisins, oftast föður, er með þeim hætti að hann getur með engu móti annast barn sitt. Þetta er gert með hagsmuni barnsins í huga, barns sem ekki nýtur umönnunar föður.

Í janúar síðastliðnum voru hundrað ár liðin frá því að fyrstu konurnar voru kjörnar í sveitarstjórn á Íslandi. Fyrsti kvennalistinn sem var borinn fram hlaut fjórar konur kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur. Á þessum tíma var kosningarréttur kvenna eitt af helstu baráttumálunum, en nú eru konur orðnar í meirihluta þeirra sem kjósa í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum hérlendis. Samt eru konur enn í miklum minnihluta þeirra sem sitja í sveitarstjórnum og á Alþingi. Konur eru einnig í minnihluta þeirra sem sitja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur lengi verið ákvæði um að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera eigi að sitja sem næst jafnmargar konur og karlar. Eftir þessu hefur hins vegar ekki verið farið. Þegar framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2004–2008 var endurskoðuð árið 2006 var gerð úttekt á því hvert kynjahlutfallið væri í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna. Í ljós kom að hlutfall kvenna var 32%. Aðeins tvö ráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, náðu því markmiði sem sett hefur verið fram í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum að hlutur hvors kyns í nefndum og ráðum væri ekki undir 40%.

Greinilegt er að þessu ákvæði þarf að fylgja eftir af meiri festu en áður. Því var í nýjum lögum tekið fram að miðað væri við að lágmarki 40% hlut hvers kyns í nefndum þar sem fleiri en þrír sitja. Einnig er tekið fram að þegar tilnefnt sé í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna bæði karl og konu. Vonandi verður þetta til þess að markmið ríkisstjórnarinnar um hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum náist.

Í byrjun desember á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin sameiginlega tillögu mína og dómsmálaráðherra um að gerð verði aðgerðaáætlun gegn mansali á Íslandi og að þetta mikilvæga mál verði í framhaldinu á forræði félags- og tryggingamálaráðuneytis. Slík áætlun yrði sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, en á undanförnum árum höfum við fengið vaxandi fjölda vísbendinga um að mansal á heimsvísu fer ekki hjá garði eða landamærum Íslands. Þó það sé ekki einhlítt þá tengist mansal kynlífsmarkaðnum órjúfanlegum böndum því hann er alþjóðlegur og hefur teygt anga sína til Íslands. Allt bendir til að tengsl séu milli mansals og vændis á Íslandi.

Í byrjun þessa árs skipaði ég starfshóp sem hefur það hlutverk að fjalla um hvernig standa megi að gerð og framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar. Þar er unnið náið með hagsmunaaðilum og frjálsum félagasamtökum. Starfsmaður hefur verið ráðinn til verksins í ráðuneyti mínu og miðar vel.

Ég tel það afar mikilvægt að umfang mansals verði rannsakað nánar og tengsl þess við Ísland. Við þurfum líka að vinna að forvörnum og fræðslu um þetta efni, ekki síst varðandi þann þátt sem snýr að uppsprettunni, eftirspurn karla eftir vændi og öðrum afurðum kynlífsiðnaðarins. Einnig er mikilvægt að í slíkri áætlun verði aðgerðir sem tryggja aðstoð við þolendur og vernd þeirra, sem og aðgerðir sem miða að því að gerendur verði sóttir til saka. Áætlað er að tillögu að aðgerðaáætlun gegn mansali verði skilað í næsta mánuði.

Við dómsmálaráðherra höfum einnig náð saman um að mansalsmálefnin verði áfram vistuð í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, en dómsmálaráðherra mun að sjálfsögðu hafa forystu um nauðsynlegar breytingar á hegningarlögum til að hægt sé að sækja mál tengd mansali hér á landi. Þessi vinna sýnir hvað málefni tengd bágri stöðu kvenna eru mörg orðin alvarleg og alþjóðleg í eðli sínu. Sú staðreynd að mansal, að mestu kaup og sala á konum og börnum til kynlífsþjónustu, velti milljörðum á milljarða ofan og sé þriðja ábatasamasta ólöglega starfsemin í heiminum, á eftir sölu fíkniefna og vopna, segir okkur allt sem segja þarf í þeim efnum. Þetta er dapurlegur vitnisburður um stöðu kvenna og barna í heiminum í dag sem ekki verður horft framhjá þegar rætt er um jafnréttismál. En – og það skiptir mestu – við ætlum að ná árangri og leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þessari alþjóðlegu baráttu og leita allra leiða til að tryggja að mansal skjóti ekki rótum hér á landi.

Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna virðist stundum vera endalaus, en ég vona að við séum að hefja nýjan kafla í jafnréttisbaráttunni með setningu nýrra jafnréttislaga. Samkvæmt minni reynslu dugar lagasetning ein og sér þó ekki til. Til þess að ná árangri þarf markvissar aðgerðir og eftirfylgni og það þarf að kalla samfélagið allt til ábyrgðar.

Rannsóknir benda til þess að aukið jafnrétti kynjanna skili þjóðfélögum betri samkeppnisstöðu á alþjóðavettvangi. Það er orðin viðtekin skoðun innan alþjóðastofnana á sviði þróunarmála að sá einstaki þáttur sem myndi fleyta þróunarlöndum mest fram í efnahagslegri og mannlegri velsæld er að mennta og styrkja stöðu kvenna, auka jafnréttið. Einnig hér í okkar heimshluta virðist aukið jafnrétti innan fyrirtækja skila sér í betri rekstri og auknum hagnaði. Nýleg finnsk rannsókn hefur leitt í ljós að fyrirtæki sem stjórnað er af konum skila 10% meiri hagnaði en fyrirtæki sem er stjórnað af körlum. Þetta er í samræmi við rannsókn sem gerð var af Catalyst í Bandaríkjunum, en þar kom fram að afkoma fyrirtækja er betri og arðsemi eigin fjár meiri þar sem konur stjórna.

Staðan hér á landi er hins vegar langt frá því að vera góð hvað varðar konur í stjórnun fyrirtækja. Við nýtum ekki þann auð sem býr í krafti kvenna til forystu á vinnumarkaði. Samt eru konur orðnar meirihluti þeirra sem útskrifast úr háskóla og standa sig þar sérstaklega vel.

Hlutfall kvenna í stjórnum 100 stærstu fyrirtækja á Íslandi var 8% á síðasta ári, samkvæmt jafnréttiskennitölunni, sem Rannsóknasetur vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst birtir árlega. Sérstaka athygli vekur að hlutfallið hefur lækkað úr því að vera 12% árið 2005. Aðeins þrjú fyrirtæki af þessum hundrað eru með konu sem stjórnarformann, eða 3%. Það hlutfall hefur einnig lækkað frá árinu 2005 en þá voru fimm af 100 stærstu fyrirtækjunum með konu í sæti stjórnarformanns. Í þeim fyrirtækjum sem skráð voru í Kauphöll Íslands gegndi engin kona stjórnarformennsku.

Íslensk fyrirtæki sem eru með útibú í Noregi hafa uppfyllt þarlend lagaskilyrði sem skylda fyrirtæki til þess að vera með ákveðið hlutfall beggja kynja í stjórn. Þessi íslensku fyrirtæki eru nú með konur í 40% stjórnarsæta og eftir sumum stjórnenda þeirra hefur verið haft að þeim hafi alls ekki reynst það erfitt að finna hæfar konur til stjórnarsetu. Þessi fyrirtæki gætu gengið á undan með góðu fordæmi og gert slíkt hið sama hérlendis. Ég hef enga trú á því að norskar konur séu betur menntaðar eða hæfari en íslenskar konur. Hvað dvelur orminn langa? Einnig má spyrja sig hvers vegna fyrirtæki gera ekki gangskör í því að jafna launamun kynjanna innan eigin vébanda þegar vitað er að aukið jafnrétti hefur góð áhrif á reksturinn og bætir vinnuandann.

Slakur hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi hlýtur að teljast mikil vonbrigði. Það er ekki að ástæðulausu sem rætt hefur verið um það af alvöru að setja sambærileg lög á fyrirtæki hérlendis eins og gert hefur verið í Noregi. Margir líta á slíka lagasetningu sem neyðarúrræði, en ef íslenskir atvinnurekendur bregðast ekki við þessari þróun fer að verða spurning hvort nauðsynlegt reynist að beita slíkum neyðarúrræðum. Það gengur alla vega ekki að konur séu aðeins um 10% þeirra sem sitja í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða. Það er ástæða til að rifja það upp að Björgin Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur brýnt íslenskt athafnalíf til að taka sér tak að þessu leyti og hann útilokar ekki sambærilega lagasetningu og í Noregi takist atvinnulífinu ekki innan mjög fárra ára að breyta þessu. Ég tel þrýstinginn á atvinnulífið að þessu leyti fara vaxandi, við verðum að fara að sjá markvissa viðleitni til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Við skulum vona að ánægjulegar fréttir undanfarinna aðalfunda, þar sem einstök félög hafa verið að bæta stöðu kvenna í stjórnum, sé aðeins fyrsta skrefið í þessa átt.

 

Ágætu ráðstefnugestir.

Jafnréttismálin eru eitt af helstu forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar. Við höfum samþykkt metnaðarfull jafnréttislög og tryggt að þeim verði fylgt eftir með markvissum aðgerðum. Það er ætlun okkar að draga verulega úr kynbundnum launamun á kjörtímabilinu og þar verður ekki látið sitja við orðin tóm.

Jöfn tækifæri kvenna og karla eru ekki bara réttlætismál heldur felast í jafnréttinu sóknarfæri fyrir viðskiptalífið og samfélagið allt. Við töpum öll á því ef konur fá ekki að nýta hæfileika sína og krafta til fullnustu. Til þess að ná árangri þurfum við að breyta gamaldags hugsunarhætti og ráðast til atlögu við stöðnun og vanafestu. Ég óska ykkur öllum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna og treysti því að baráttan muni halda áfram af fullum krafti þar til jafnrétti er náð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum