Hoppa yfir valmynd
31. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjörutíu ára afmæli Félags eldri borgara í Hafnarfirði

Ágætu gestir.

Það er mér mikill heiður að fá að vera með ykkur hér í dag og minnast merkra tímamóta í sögu Félags eldri borgara í Hafnarfirði. Það má með sanni segja að það hafi verið framsýnir hugsjónarmenn sem fyrir 40 árum stofnuðu hér í Hafnarfirði fyrsta félagið á Íslandi sem gerði hagsmuni eldri borgara að verkefni sínu. Verkefnin þá eins og reyndar nú voru óþrjótandi við að bæta kjör og aðbúnað aldraðra og það var ómetanlegt að hafa í stafni öflugt forystufólk sem stofnendur hagsmunafélags eldri borgara sannarlega voru.

Stofnun félagsins ber mikilli framsýni vitni og að mínu mati er engin tilviljun að sú framsýni var byggð á hafnfirskum rótum. Hafnfirðingar byggja á ríkri samfélagslegri hefð, ekki bara í orði heldur miklu fremur í myndarlegri uppbyggingu margþættrar þjónustu.

Það hefur verið ánægjulegt gegnum tíðina að fylgjast með þróuninni í málefnum ungra og aldraðra í þessu bæjarfélagi og frumkvæði Félags eldri borgara í Hafnarfirði hefur örugglega verið afar farsælt.

Það sem er ekki síst drifkrafturinn í öflugri uppbyggingu félagslegrar þjónustu fyrir aldraðra er brennandi áhugi á málefninu og hann var sannarlega fyrir hendi þegar stigin voru fyrstu sporin í þessu félagi sem hafði frumkvæði að því að breyta til betri vegar aðbúnaði aldraðra. Þar var sannarlega lagður góður grunnur með stofnun þessa félags og víst er það svo að baráttumálin á þessum vettvangi eins og annars staðar í þjóðfélaginu eru iðulega þau sömu og áður. Það er og verður sífellt viðfangsefni að bæta kjör aldraðra og aðbúnað og alltaf má þar gera betur.

Það hefur verið ánægjulegt fyrir mig sem félags- og tryggingamálaráðherra að hafa fengið tækifæri til að heimsækja fulltrúa bæjarins nú í vetur og kynna mér margvíslega starfsemi hér, auk þess sem ég hef hitt öldungaráðið og forystumenn bæjarins sem ég finn að vilja standa myndarlega að uppbyggingu þjónustu í þágu eldri borgara. Ég finn að hér eru menn einhuga um að búa vel að sístækkandi hópi eldri borgara og ég fagna því og vona að ég geti lagt mitt af mörkum til að láta þann draum verða að veruleika að koma hér upp hjúkrunarheimili fyrir aldraðra á næstu árum.

Ég er afar þakklát fyrir að hafa um síðastliðin áramót fengið málefni aldraðra í mitt ráðuneyti og sé að víða verður að taka til hendinni í þeim málaflokki. Við erum enn eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða í uppbyggingu í þágu aldraðra og við eigum að leggja okkar metnað í að skipa okkur í fremstu röð á næstu árum. Við hljótum að hafa til þess alla burði.

Þegar hafa verið stigin nokkur mikilvæg skref í þágu aldraðra frá því að ný ríkisstjórn tók við taumunum, svo sem í lífeyrismálunum, og ég vil halda ótrauð áfram á þeirri vegferð í góðu samráði við hagsmunasamtök eldri borgara. Þegar ég tók við málefnum aldraðra fékk ég strax til liðs við mig hóp reyndra manna sem hefur nú afhent mér drög að stefnumótun í málefnum aldraðra til næstu ára. Ég mun á næstunni kynna hana og mína sýn á þá uppbyggingu sem framundan er í málefnum aldraðra.

Ég get sagt það hér við ykkur í dag að ég vil að samþætt og fjölbreytt einstaklingsbundin þjónusta verði byggð upp í hverju sveitarfélagi í þágu eldri borgara og þá jafnvel í mörgum smærri kjörnum innan sveitarfélaga. Ég vil að sveitarfélögin fái tækifæri til þess að byggja upp þessa þjónustu í nærsamfélaginu. Ég vil sjá nýjar áherslur í öruggri sjálfstæðri búsetu og nýjar áherslur í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Ég vil að þjónusta við aldraða verði í framtíðinni veitt á grundvelli einstaklingsbundinnar þarfar, en ekki aldurs í árum talið, og ég vil bæta upplýsingaþjónustu við aldraða um þá þjónustu og þau úrræði sem liggja fyrir á hverjum stað á hverjum tíma. Allt eru þetta grundvallaratriði sem ég vil vinna að ásamt mörgu öðru.

Ágætu afmælisgestir.

Þið standið á tímamótum og það geri ég líka í ráðuneyti mínu. Við höfum nú tækifæri til þess að hefja löngu tímabæra uppbyggingu í þágu eldri borgara hvar á landinu sem þeir búa. Margt hefur verið og er til fyrirmyndar í Hafnarfirði og ég hef sagt að ég vilji líta til þess sem best er gert í einstökum bæjarfélögum og vil reyndar að við lítum til þess sem best gerist í öðrum löndum þegar við byggjum upp þjónustu við aldraða hér á landi.

Ég vil nota þetta tækifæri og óska ykkur til hamingju með vandaða og veglega bók sem þið gefið út í tilefni afmælisins sem Hörður Zóphaníasson hefur skráð.

Það er vel til fundið að þið nefnið afmælisrit ykkar „Dýrmæt ár“. Árin frá 67 ára aldri eru vissulega dýrmæt fyrir einstakling sem býr við góðar aðstæður og aðbúnað. En ég vil ekki síður leggja áherslu á þann dýrmæta mannauð, reynslu og þekkingu sem aldraðir búa yfir sem er í raun ómetanlegur fyrir samfélagið í heild sinni. Það verðum við að hafa hugfast og ég vil hafa það að leiðarljósi í mínum verkefnum að tryggja að sem flestir njóti krafta aldraðra og þekkingar þeirra og reynslu á sem flestum sviðum. Hver einstaklingur er dýrmætur.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að ítreka hamingjuóskir mínar til ykkar og þakkir fyrir ykkar mikilvæga framlag til öldrunarmála.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum