Hoppa yfir valmynd
2. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vígsla endurbættrar Hrafnistu á sjómannadaginn

Sjómannadagsráð, góðir heimilismenn og aðrir gestir.

Það er stór dagur á Hrafnistu í dag. Ekki aðeins að í dag skuli vera sjómannadagurinn sem í ljósi sögu og tilurðar Hrafnistu skipar stóran sess, heldur það að í dag má segja að Hrafnista hafi íklæðst nýjum og betri búningi sem hæfir tíðaranda nútímans.

Á síðustu misserum hefur verið unnið að miklum endurbótum á húsnæði Hrafnistu, einstökum deildum, vistarverum heimilisfólks og sameiginlegu rými. Breytinga var svo sannarlega þörf, enda Hrafnistuheimilið í Reykjavík komið til ára sinna, að stofni til frá árinu 1957, og eins hafa miklar breytingar orðið á kröfum okkar og viðhorfum til húsnæðis og aðbúnaðar á þessum tíma.

Mér er sagt að íbúar á Hrafnistu hafi verið 450 þegar mest var. Þrátt fyrir að húsnæðið hafi stækkað töluvert hefur heimilisfólki fækkað og þegar endurbótum lýkur að fullu er gert ráð fyrir að íbúar verði 244. Þetta segir sína sögu en áhrif breytinganna verða enn ljósari þegar framkvæmdir á einstökum deildum eru skoðaðar. Ég nefni sem dæmi deild E3 þar sem áður voru 18 einbýli og fólk ekki með eigið salerni. Þar eru nú átta einbýli og augljóst að aðstæður og rými hvers og eins er allt annað, rýmra og betra en áður.

Það eru ekki einungis aðstæður heimilismanna sem gjörbreytast við þessar endurbætur heldur munu allir njóta góðs af, eins og starfsfólkið sem sinnir hjúkrun og umönnun og aðstandendur sem heimsækja fólkið sitt hingað á Hrafnistu. Endurbæturnar taka einnig til sameiginlegs rýmis og allar gera þessar breytingar húsnæðið opnara, bjartara og rýmra og ekki þarf að efast um hve mikil og góð framför þetta er fyrir alla.

Breytingum og endurbótum á Hrafnistu er ekki lokið. Framkvæmdaáætlun Hrafnistu liggur fyrir um næstu skref og eru áætlanirnar metnaðarfullar og verður gaman að fylgjast með þeim breytingum sem verða á næstu árum og misserum.

Það er ekki aðeins á Hrafnistuheimilunum sem þörf er á endurbótum. Ég hef að undanförnu látið vinna úttekt á stöðu mála á öldrunarstofnunum um allt land og unnið er að framkvæmdaáætlun til að færa þessar stofnanir til nútímalegs horfs. Fyrir liggur að enn þurfa yfir 800 aldraðir á stofnunum að deila herbergjum með öðrum. Við svo búið má ekki standa og ég vil vinna hratt að breytingum á þessu, samhliða uppbyggingu nýrra hjúkrunarheimila, þannig að við getum öll verið stolt af þessum þætti öldrunarþjónustunnar.

Ég vil að hjúkrunarheimili okkar standi undir nafni sem raunveruleg heimili fólks og liður í því er að breyta því fyrirkomulagi sem enn tíðkast við daggjaldagreiðslur þar sem íbúar eru nánast sviptir fjárræði sínu og fá skammtaða svokallaða vasapeninga, fyrirkomulag sem við getum alls ekki sætt okkur við.

 

Góðir Hrafnistumenn og aðrir gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að vera viðstödd vígsluna hér í dag að endurbættri Hrafnistu. Ábyrgð á málefnum aldraðra fluttist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um síðustu áramót. Þetta er málaflokkur sem ég ber mjög fyrir brjósti og vil leggja allt kapp á að færa inn í framtíðina með margvíslegum endurbótum og uppbyggingu húsnæðis og þjónustu.

Sjómannadagsráð og Hrafnistuheimilin eiga sinn sess í hugum landsmanna. Hrafnistuheimilin þekkja allir, mikill fjöldi fólks hefur átt þar heimili sitt í gegnum tíðina, lifað þar sín síðustu ár og notið góðar umönnunar starfsfólks Hrafnistu. Fyrir það ber að þakka.

Ég óska stjórnendum Hrafnistu, Sjómannadagsráði og síðast en ekki síst íbúum Hrafnistu innilega til hamingju með daginn og þann góða áfanga sem við fögnum í dag. Við höldum ótrauð áfram á sömu braut og ég hlakka til frekara samstarfs með öllum þeim sem vilja leggja kapp sitt og metnað í að byggja upp öfluga, góða og nútímalega öldrunarþjónustu á Íslandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum