Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt júlísamkomulag um öruggt húsnæði fyrir alla

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Grein eftir Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um húsnæðismál.
Birtist í Fréttablaðinu 27. ágúst 2013


Fjöldi fólks er á hrakhólum af því það fær ekki viðeigandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Leigumarkaðurinn stendur ekki undir nafni, leiguverð er hátt og húsnæði er sjaldnast leigt út nema til skamms tíma. Við þessar aðstæður búa íslensk heimili ekki við það öryggi sem er svo mikilvægt. Þúsundir leiguíbúða vantar og ekkert útlit er fyrir bætta stöðu á næstunni.


Lærum af reynslunni
Reynslan kennir að markaðurinn tryggir ekki sjálfkrafa hæfilegt framboð leiguíbúða. Meira þarf en orð og vilja stjórnvalda, það þarf aðgerðir. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar var mikill húsnæðisskortur hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi var ráðist í að byggja þúsundir íbúða til að bregðast við vandanum. Leiðarljósið var staðlað, vel skipulagt húsnæði á hagstæðu verði.

Í júlí 1965 náðist samkomulag hér á landi milli verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og borgar um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Samkomulagið var liður í lausn á erfiðri vinnudeilu. Í stað launahækkana var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Þetta varð fyrirmynd að seinni tíma samningum um þjóðarsátt þar sem samið var um fleira en kaup og kjör.

Oft var þörf, nú er nauðsyn
Fram undan eru erfiðir kjarasamningar því svigrúm til launahækkana er lítið. Samningar í ætt við júlísamkomulagið gætu reynst skynsamlegir nú og ástæða til að skoða þann möguleika. Liðka má á ýmsan máta fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til útleigu og eru ekki rekin í hagnaðarskyni, til að lækka kostnað og auka hagkvæmni. Ríki og sveitarfélög geta lagt til lóðir á kostnaðarverði, bæta má skattaumhverfi með niðurfellingu stimpilgjalda á skuldabréfum og endurskoða þarf byggingarreglugerð til að auka sveigjanleika og hagkvæmni í þágu neytenda. Þetta eru brýn viðfangsefni sem ég vil beita mér fyrir svo þau verði að veruleika.

Nýtt júlísamkomulag um öruggt húsnæði fyrir alla er góður kostur.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum