Hoppa yfir valmynd
24. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Afmælisráðstefna vegna 30 ára afmælis Búseta: Þriðja leiðin á húsnæðismarkaðinum

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Húsnæðissamvinnufélagið Búseti á orðið 30 ára sögu að baki og fagnar því tímamótum. Til hamingju með það.

Þrjátíu ár eru ekki langur tími í stóra samhenginu og raunar ekki heldur þegar horft er til meðallangrar mannsævi. Engu að síður hefur Búseti lifað tímana tvenna þegar horft er til stöðu og þróunar húsnæðismála á Íslandi frá stofnun félagsins.

Hugmyndin að stofnun húsnæðissamvinnufélags kviknaði hjá Leigjendasamtökunum haustið 1982. Mikill gangur var í málinu. Til að gera langa sögu stutta var félagið Búseti formlega stofnað í nóvember 1983 og fyrir lok ársin voru vel yfir 2.000 manns búin að skrá aðild sína að félaginu.

Aðstæður fólks á húsnæðismarkaði voru skelfilegar á þessum tíma. Glímt var við mestu verðbólguholskeflu Íslandssögunnar en verðbólgan fór í rúm 80% milli áranna 1982 og ´83. Húsbyggjendur og íbúðakaupendur lentu í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Harkalegar efnahagsaðgerðir sem gripið var til í því skyni að ná tökum á verðbólgunni juku enn á vanda fólks sem þurfti að koma sér þaki yfir höfuðið. Sigtúnshópurinn kom fram á sjónarsviðið með ýmsar kröfur til úrbóta. Ákveðið var að veita öllum lántakendum áranna 1982-1983 sérstök viðbótarlán og í framhaldinu var lánshlutfall hækkað til muna.

Húsnæðisvandinn var til umfjöllunar á Alþingi í nóvember 1985. Nauðungarsölum fjölgaði dag frá degi og fram komu tillögur um frestun nauðungaruppboða. Lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána voru samþykkt frá Alþingi þetta ár – þau sömu lög og voru endurvakin í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Í stuttu máli sagt eru aðstæðurnar sem upp komu í byrjun níunda áratugarins afar kunnuglegar. Greiðslubyrði af lánum rauk upp úr öllu valdi, húsaleiga sömuleiðis, greiðsluvandi og gjaldþrot varð hlutskipti margra.

Það var í þessu umhverfi sem Búseti varð til og bauð landlægri séreignastefnu í húsnæðismálum Íslendinga byrginn. Róðurinn var þungur til að byrja með og hart var tekist á um lánsheimildir og skilyrði fyrir lánveitingum til starfsemi af þessu tagi, þar sem horft var til þess hvort skilyrðin ættu að snúast um fjárhagslega getu væntanlegra íbúa. Átökin í kringum stofnun og starfsemi Búseta sýndu glöggt hve séreignahugsunin var rótgróin hér á landi. Það virtist aðeins til einn aðalkostur í húsnæðismálum sem var að fólk keypti sér húsnæði ef það gæti undir nokkrum kringumstæðum staðið undir því fjárhagslega – en ef ekki væri hinn kosturinn félagslegt leiguhúsnæði. Annað virtist ekki inni í myndinni, ekkert raunverulegt val var fyrir hendi.

Það fór þó svo að Búseti gat hafið starfsemi og tók til við að byggja í Grafarvogi sumarið 1985 og ári síðar í Frostafold. Árið 1990 voru ný húsnæðislög sett á Alþingi sem rýmkuðu fyrir starfseminni. Sérstakur lagabálkur um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt tók svo gildi árið 1991 sem síðar urðu sérlög og loks var ráðist í heildarendurskoðun þeirra laga og samþykkt núgildandi lög um húsnæðissamvinnufélög þann 15. mars 2003.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu hér í löngu máli. Fyrst og fremst vil ég benda á hvað séreignastefnan hefur verið rótgróin í þankagangi Íslendinga og rýr jarðvegur fyrir önnur búsetuform sem tíðkast þó víða með öðrum þjóðum og hafa gert lengi.

Það er ekki ofsögum sagt þótt ég haldi því fram hér að séreignastefnan í húsnæðismálum okkar hefur beðið alvarlegt skipbrot á Íslandi, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar. Búsetuformið hefur engu að síður verið til í þrjátíu ár og fleiri slík félög áttu eftir að bætast í hópinn eftir að Búseti reið á vaðið á sínum tíma. Það segir samt sína sögu að árið 2008 voru um 90% alls íbúðarhúsnæði á Íslandi skráð sem séreign – sem er með því mesta sem þekkist í heiminum. Eftir því sem ég kemst næst er íbúðahúsnæði hér á landi í eigu húsnæðissamvinnufélaga rétt rúmlega 1% af heildinni en til samanburðar er hlutfallið um 16% í Svíþjóð og litlu minna í Noregi.

Þeir sem börðust á sínum tíma fyrir tilveru Búseta lögðu alltaf áherslu á að húsnæði samvinnufélaganna ætti að standa öllum opið, óháð tekjuviðmiðum. Þessi hugsun stendur í mínum huga í góðu gildi. Þetta á einfaldlega að vera valkostur sem gerir fólki mögulegt að búa í öruggu húsnæði þótt það vilji ekki leggja út í þá miklu fjárfestingu sem fylgir fasteignakaupum.

Eftir hrunið 2008 má fullyrða að þeir sem bjuggu í búseturéttaríbúðum standa mun betur að vígi en flestir þeir sem keyptu húsnæði á þensluárunum fyrir hrun. Þetta fólk upplifði auðvitað ekki þá tilfinningu að hafa unnið í happdrættinu þegar húsnæðisverðið fór í sínar hæstu hæðir. Það átti bara sinn búseturéttarhlut, oftast upp á 10% og borgaði sitt mánaðarlega búsetugjald - í öruggu húsnæði. Nú vitum við hve mikils virði öryggið er og hve mikið vantar þegar húsnæðisöryggi er ekki fyrir hendi.

Ágætu búsetar og aðrir gestir.

Mér finnst einstaklega ánægjulegt að vera þátttakandi á þessari ráðstefnu um þriðju leiðina á húsnæðismarkaðinum sem haldin er í tilefni af 30 ára afmæli Búseta. Húsnæðismál og fleiri valkostir í þeim efnum eru mér sérstakt hugðarefni og því gleður mig að sjá Búseta sem lifandi sönnun þess að samvinnuleiðin er raunhæfur kostur og fær leið í húsnæðismálum. Öruggt þak yfir höfuðið er öllu fólki svo óendanlega mikilvægt og því er algjörlega nauðsynlegt að fyrir hendi séu raunhæfir kostir þar sem fólk getur valið á milli ólíkra leiða því sem viljinn og skynsemin býður og efni og aðstæður leyfa. Leiguhúsnæði á líka að vera raunhæfur kostur og ég hef ítrekað talað fyrir leiðum sem stuðlað geta að uppbyggingu leigumarkaðar sem stendur undir nafni. Þar tel ég að lausnin felist einnig í samvinnufélögum þar sem langtímamarkmiðin eru skýr í þágu félagsmanna og hagnaður ekki markmiðið með rekstinum. Búseti hefur raunar rennt stoðum undir þessa skoðun mína með farsælum rekstri leiguíbúða um langt skeið.

Samvinnufélög eru byggð á ákveðnum gildum sem eru sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnræði, sanngirni og samstöðu. Þetta er góður grunnur að byggja á og það eigum við að gera.

Eins og eflaust flestum hér er kunnugt stendur nú yfir vinna við mótun húsnæðisstefnu til framtíðar. Ég hef lagt áherslu á víðtækt samráð við mótun stefnunnar, það er algjör forsenda að mínu mati til að halda ólíkum sjónarmiðum til haga og til þess að tryggja samstöðu um leiðir. Starfið felur meðal annars í sér að kanna hvaða fyrirkomulag við fjármögnun almennra húsnæðislána er hagkvæmast og gera tillögur um hvernig megi hrinda því í framkvæmd. Jafnframt verður skoðað hvernig tryggja megi virkan leigumarkað hér á landi og einnig skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda. Í því sambandi verður skoðað hvernig stjórnvöld geta sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í því að veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Ég er talsmaður þess að jafna húsnæðisstuðning, hvaða búsetuform sem fólk kýs sér og tel nauðsynlegt að á því máli verði tekið í nýrri húsnæðisstefnu. Þetta er ein af mörgum mikilvægum forsendum þess að fjölga valkostum fólks.

Ég tel brýnt að eiga fund með húsnæðissamvinnufélögum til að ræða ýmis mál sem brenna á forsvarsmönnum þeirra og mun boða til slíks fundar í næstu viku. Það hafa komið upp álitaefni varðandi uppsögn á búseturétti og afnám á kaupskyldu sem þarf að fara yfir. Eins er gott að hittast og ræða málin í víðu samhengi og jafnvel ræða hvort tímabært sé að endurskoða gildandi lög um húsnæðissamvinnufélög og þá hvað það er sem helst þarfnast breytinga. Þetta þarf líka að ræða í tengslum við gerð húsnæðisstefnu til framtíðar.

Góðir gestir.

Það var mörgum mikið áfall þegar fyrstu fréttir bárust af miklum rekstrarerfiðleikum hjúkrunarheimilisins Eirar og í ljós kom að íbúar í svokölluðum öryggisíbúðum – sem reknar eru í nafni hjúkrunarheimilisins - reyndust ekki hafa haldbærar tryggingar fyrir því sem þeir töldu eignarhlut sinn og höfðu greitt fyrir dýru verði.  Í opinberri umfjöllun um málið var iðulega rætt um búseturétt íbúanna. Þetta skapaði slæman misskilning og vakti – eðlilega - ótta meðal fólks sem í raun var með stöðu sína tryggða á þann hátt sem áskilið er í lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Ég ætla ekki að greina það fyrirkomulag sem byggt var á hjá Eir og kallað íbúðaréttur – né heldur ætla ég að leggja á það dóm, enda dæmir það mál sig sjálft. Það er hins vegar mjög mikilvægt að þessi sorgarsaga kasti ekki rýrð á starfsemi húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformið. Eins er mjög áríðandi að tryggja eins og nokkur kostur er að fólk gerist ekki aðilar að samningum sem varða húsnæðisöryggi þess og fjárhagslega stöðu án þess að hafa viðhlítandi tryggingar í höndunum, þekki stöðu sína og viti að hverju það gengur.

Það eru mörg stór og vandasöm verkefni framundan sem tengjast húsnæðismarkaðinum og húsnæðismálum fólks í landinu, bæði hér og nú – og til framtíðar litið.

Ég er þakklát þeim sem standa að Búseta fyrir að hafa sýnt svo ekki verður um villst að húsnæðissamvinnuformið er rekstrarbært fyrirkomulag ef gildi samvinnuhugsjónarinnar eru höfð í heiðri. Þrjátíu ára löng saga Búseta sannar þetta svo ekki verður um villst. Fortíðin talar sínu máli og gefur góð fyrirheit um framtíðina.

 - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum