Hoppa yfir valmynd
24. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna um stefnumótun í vinnuvernd til ársins 2020

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir.

Enn er athygli vakin sérstaklega á vinnuvernd og mikilvægi hennar með ráðstefnu tengdri árlegri evrópskri vinnuverndarviku. Markmiðið er að vekja athygli fólks á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari. Stefnumótun í vinnuvernd er viðfangsefni ráðstefnunnar að þessu sinni. Við þurfum að vita hvert við ætlum – annars lendum við bara einhvers staðar er stundum sagt og það lýsir því raunar vel hve miklu skiptir að hafa skýra sýn og stefnu í þessum málum.

Sýnin og stefnan er þó aðeins önnur hliðin á peningnum, sýnd veiði en ekki gefin. Við getum átt allar skúffur fullar af stefnuskjölum og leiðarljósum með fögrum fyrirheitum, en ef þetta eru aðeins dauð plögg í skúffu sem er í besta falli flaggað á tyllidögum eru þau til lítils ef nokkurs gagns.

Vinnustaðir bera ríka ábyrgð á velferð starfsmanna sinna. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kveða á um mikilvægar skyldur í þessum efnum og ég nefni hér líka lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og skyldur sem þeim tengjast. Þeim fjölgar stöðugt vinnustöðunum sem hafa sett sér jafnréttisáætlanir, sem hafa sett umgjörð til að taka á eineltismálum og mótað stefnu til að fyrirbyggja einelti og þeim sem hafa gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Allt er þetta skylt samkvæmt lögum og mjög mikilvægt að þeim sé fylgt.

Sýnin og stefnan er mikilvæg en vandasamasti hlutinn felst í innleiðingunni. Í því felst að gera sýn og stefnu hluta af menningu vinnustaðarins þar sem stjórnendur og starfsmenn eru meðvitaðir um markmiðin og leiðirnar, vita hvert þeir ætla og hvers vegna og eru sammála um ávinninginn.

Yfirskrift Evrópsku vinnuverndarvikunnar nú er Vinnuvernd – allir vinna og eins og í fyrra standa fulltrúar atvinnulífsins og Vinnueftirlitsins að framkvæmdinni hér á landi. Megináherslan er einmitt lögð á sameiginlega ábyrgð stjórnenda og starfsmanna á vinnuvernd. Stjórnendur eru hvattir til að sýna forystu í vinnuverndar­málum og hafa starfsmenn með í ráðum og einnig að fylgja bestu mögulegu aðferðum við áhættumat og forvarnir í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndar­starfs.

Vinnuvernd sem stendur undir nafni er víðtæk og snýr að öllum þáttum í vinnuumhverfinu, hvort sem litið er til öryggis tækja og tóla, öryggisbúnaðar, meðferðar hættulegra efna, loftgæða, og tengdra umhverfisþátta, hávaða, lýsingar, vinnutíma og vinnuálags og svo mætti áfram telja. Öllum þessum þáttum þarf að sinna ef vel á að vera en séu þeir vanræktir getur mikið verið í húfi sem snýr bæði að lífi og heilsu starfsfólksins og velgengni og ímynd vinnustaðarins.

Rannsóknir hafa sýnt að stjórnendur á vinnustöðum telja að helsti hvati vinnuverndarstarf sé að uppfylla lagaskyldu og siðferðislegar skyldur. Fjárhagslegum ávinningi hefur verið minni gaumur gefinn. Þegar allt kemur til alls sýna nýjar alþjóðlegar rannsóknir að fjárhagslegur ávinningur af kerfisbundnu vinnuverndarstarfi er verulegur þannig að hver króna sem lögð er í fjárfestingu vegna vinnuverndar skilar sér tvöfalt og jafnvel þrefalt til baka.

Fjárhagslegur ávinningur af vel skipulögðu vinnuverndarstarfi ætti ekki að koma á óvart. Velgengni vinnustaða veltur á starfsfólkinu. Fjarvistir vegna veikinda, slysa eða annars heilsutjóns eru dýrkeyptar og afleiðingarnar margvíslegar, ekki aðeins fyrir starfsfólkið sjálft og vinnustaðinn heldur fyrir samfélagið allt. Orðspor er einnig dýrkeypt en skiptir miklu máli. Að byggja upp traustan vinnustað og góða ímynd hans kostar þrotlausa vinnu og stöðuga aðgát. Að slaka á kröfum – að sofna á vaktinni getur eyðilagt traust og ímynd á augabragði. Þegar traustið bíður hnekki og ímyndin fölnar verður erfiðara um vik að ráða gott starfsfólk og viðskiptavinir eru líklegir til að leita annað eftir vörum eða þjónustu.

Samkvæmt lögum er fyrirtækjum með fimmtíu starfsmenn eða fleiri skylt að hafa á að skipa öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum. Hlutfall fyrirtækja sem uppfylla þessa skyldu er nú tæp 70% en Vinnueftirlitið hefur sett sér það markmið að hlutfallið verði fyrir lok þessa árs um 80%. Hlutfall fyrirtækja með 10-49 starfsmenn sem hafa á að skipa öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum er heldur lægra eða 48-51% og augljóst að þar verður að gera mun betur. Þeim fjölgar stöðugt fyrirtækjunum sem hafa gert áhættumat varðandi öryggi og heilsu starfsmanna, framkvæmdin er á ábyrgð atvinnurekenda í samstarfi við fulltrúa starfsmanna. Fjölgun hefur orðið í öllum stærðarflokkum fyrirtækja en mest þó í hópi minni fyrirtækja. Þetta er mjög jákvæð þróun sem Vinnueftirlitið hefur ýtt undir m.a. með þróun verkfæris og sérstökum námskeiðum til að auðvelda þeim gerð áhættumats.

Góðir gestir.

Framundan er umræða um stefnumótun í vinnuvernd til ársins 2020. Þetta er mikilvægt verkefni sem ég veit að Vinnueftirlitið mun veita forystu með öflugu starfi og góðri samvinnu við þá sem að því þurfa að koma.

Metnaðarfullir stjórnendur taka vinnuverndarmál alvarlega og samþætta vinnuverndarstarf inn í allan daglegan rekstur í náinni samvinnu og samráði við starfsfólk. Við þurfum að sjá slíkan metnað alls staðar og þess vegna skiptir miklu að vel takist til við mótun og innleiðingu stefnu í vinnuvernd til næstu ára.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum