Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og húsnæðismálaráðherra á jafnréttisþingi 2013

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Jafnréttisþing 2013
Skýrsla Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir.

Ég býð ykkur öll velkomin til jafnréttisþings 2013.

Til þingsins er boðað samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  

Framundan er glæsileg dagskrá þar sem fjallað verður um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla er að þessu sinni á jafnrétti á vinnumarkaði. Ég vil þakka öllum þeim sem hér munu flytja fyrirlestra og sitja í pallborðum en einnig þeim rúmlega þrjú hundruð gestum sem hafa skráð sig til þátttöku á jafnréttisþingi. Hlutverk þingsins er að efna til samræðu milli stjórnvalda og þjóðar um málefni kynjajafnréttis og gefa öllum áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Vegna þessa er þátttaka ykkar afar mikilvæg fyrir okkur sem störfum að jafnréttismálum á vettvangi hins opinbera.

Hlutverk mitt sem ráðherra jafnréttismála er að leggja fyrir þingið skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins. Efni skýrslunnar spannar því eðli málsins samkvæmt afar vítt svið. Í henni er meðal annars fjallað um kynbundið ofbeldi, um heilbrigðismál, um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, um kynbundið náms- og starfsval og þróun launajafnréttis. Sérstakur kafli er um hlut kynjanna í opinberri stjórnsýslu, við stjórn atvinnulífsins og á vettvangi stjórnmálanna. Fjallað er um verkefni á döfinni, breytingar á stjórnsýslu jafnréttismála og fyrirhugaðar breytingar á jafnréttislögum sem fela meðal annars í sér bann við mismunun í tengslum við vörukaup og þjónustu. Nánar tiltekið að aðgangur og afhending vöru annars vegar og veiting þjónustu hins vegar sé ekki hagstæðari fyrir annað kynið. Einnig er í skýrslunni lagt fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum líkt og lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gera ráð fyrir.

Þann 24. október síðastliðinn voru 38 ár liðin frá baráttufundi íslensku kvennahreyfingarinnar á Lækjartorgi árið 1975. Í hartnær fjörutíu ár hefur dagurinn verið helgaður baráttunni fyrir réttindum kvenna á vinnumarkaði, fyrir launajafnrétti kynja og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Samtakamátturinn, sem birtist á baráttufundinum árið 1975, er Íslendingum enn í fersku minni en hann hefur æ síðan verið aðalsmerki íslensku kvennahreyfingarinnar.

Öflug kvennahreyfing er nauðsynleg en dugar ekki ein og sér til framfara í jafnréttismálum. Rannsóknir, söfnun tölulegra upplýsinga og kortlagning á stöðu og þróun kynjajafnréttis eru nauðsynlegar forsendur framþróunar í málaflokknum. Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni og ýtt til hliðar þeim hindrunum sem verið hafa á leið okkar að réttlátara samfélagi. Þekking er forsenda þess að opinber jafnréttispólitík geti náð markmiðum sínum. Skýrsla ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála er afrakstur slíkrar vinnu. Niðurstöður hennar eru um margt jákvæðar en enn stöndum við þó frammi fyrir miklum áskorunum og erfiðum verkefnum á sviði jafnréttismála. Við munum mæta þeim áskorunum og halda áfram að byggja upp samfélag jafnréttis og lýðræðis. Samfélag þar sem konur og karlar njóta fulls jafnréttis og samfélag þar sem allir leggjast á eitt um að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. 

Í síðustu viku bárust okkur þær fréttir að Ísland skipar nú fimmta árið í röð efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins á sviði kynjajafnréttis sem staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á nýliðnum árum. Þótt enn sé nokkuð í land að jafnri stöðu og jöfnum áhrifum kvenna og karla hafi verið náð í íslensku samfélagi þá ber að halda því til haga sem vel er gert og hefur borið góðan árangur.

Hér gefst einungis tækifæri til að gera grein fyrir helstu áhersluatriðum skýrslunnar um stöðu og þróun jafnréttismála og mun ég hér á eftir fjalla um hvað hefur áunnist síðan síðasta jafnréttisþing var haldið árið 2011 og hvaða verkefni eru brýnust að mati stjórnvalda. Í skýrslunni er til að mynda fjallað um áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof frá því þau tóku gildi í ársbyrjun 2001. Þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á töku fæðingarorlofs í kjölfar efnahagsþrenginganna er ljóst að enn tekur mikill meirihluti nýbakaðra feðra á innlendum vinnumarkaði fæðingarorlof. Enn fremur sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar Guðnýjar Eydal, Ingólfs V. Gíslasonar og Ásdísar Arnalds að hlutdeild feðra í umönnun ungra barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi – en sú staðreynd verður að teljast til jákvæðra áhrifa laganna og þess að ár frá ári færumst við nær því að ná jafnréttismarkmiðum þeirra. 

Framundan eru merk tímamót. Eftir aðeins tvö ár verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að horfa um öxl og ígrunda hvernig þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði jafnréttismála hafa átt sér stað. Við eigum að nýta þau til að beina sjónum að þeim verkefnum sem miða að því að auka kynjajafnrétti á þeim sviðum þar sem enn hallar á annað kynið. Við eigum að nýta þau til að skrá helstu vörðurnar í jafnréttissögu landsins, styrkja fræðsluverkefni og rannsóknir sem miðla þekkingu um lýðræðisþróun og baráttu fyrir auknum borgara- og stjórnmálalegum réttindum. Við eigum að kortleggja þátttöku kvenna í stjórnmálum og greina þá áhrifaþætti sem skýrt geta þá kynjaskekkju sem enn birtist okkur á vettvangi stjórnmálanna. Það væri okkur til framfara að standa myndarlega að verki þegar við höldum upp á 100 ára kosningaréttarafmæli kvenna.

Alþjóðlega fjármálakreppan, íslenska bankahrunið og þær efnahagsþrengingar sem sigldu í kjölfarið hafa, eins og fram kemur í skýrslunni, haft margræð áhrif á stöðu kvenna og karla en einnig á stöðu og þróun jafnréttismála. Afleiðingarnar hafa hins vegar ekki eingöngu verið neikvæðar. Færa má fyrir því sterk rök að jafnari hlutur kynjanna á vettvangi stjórnmála og við stjórn opinberrar stjórnsýslu, sem og í nefndum, stjórnum og ráðum, hafi að einhverju leyti verið afleiðing þess að kallað var eftir breytingum við stjórn landsins í kjölfar efnahagsþrenginganna. Hér á landi eru konur núna um 40% kjörinna fulltrúa bæði á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi þar sem þær urðu mest tæplega 43% þingmanna eftir þingkosningarnar árið 2009. Áður hafði hlutfall kvenna farið hæst í 35 af hundraði árið 1999. Hlutfall kvenna eftir síðustu tvennar þingkosningar er nú í fyrsta skipti sambærilegt við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum og verður að líta á þennan árangur sem ákveðinn áfangasigur í átt að því markmiði að ná sem jöfnustu hlutfalli kynjanna meðal kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Þá hefur hlutfall kvenna við stjórn atvinnulífsins einnig aukist eftir að ákvæði um hlut kynja í stjórnum hlutafélaga var sett í lög og áhrifa þeirra fór að gæta. 

Við skulum hafa það í huga að þessi árangur hefur ekki komið af sjálfu sér. Þótt konum hafi fjölgað á framboðslistum stjórnmálaflokka og þar með sem kjörnum fulltrúum er staðan enn sú að konum fækkar hlutfallslega eftir því sem ofar dregur á framboðslistum. Þegar eingöngu er litið til rótgróinna stjórnmálaflokka er aðeins einn flokkur sem ekki styðst við kynjareglur við röðun á framboðslista, en alls staðar gætir áhrifa kvennahreyfinga sem fest hafa sig í sessi í félagaflóru flokkanna. Við skulum einnig hafa það í huga að hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja jókst ekki að nokkru ráði fyrr en ákvæði um hlut kynja í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga voru fest í lög. Lærdómurinn hér á landi er nefnilega sá sami og í Noregi og vísað er til í yfirskrift aðalfyrirlesara þingsins Inge Ovesen - Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér.

Góðir gestir.

Kynjaskipting starfa á íslenskum vinnumarkaði er enn mjög mikil og það er áhyggjuefni. Konur vinna í ákveðnum störfum sem fáir karlar sinna og öfugt. Talnaefni skýrslunnar sýnir þó jákvæðar breytingar en í dag er mun algengara en áður að ungar konur velji hefðbundnar karlagreinar eins og verkfræði og raungreinar og konum hefur fjölgað verulega í stétt lækna, lögfræðinga og presta. Á hinn bóginn skila karlar sér í mjög litlum mæli í greinar eins og hjúkrunarfræði, félagsráðgjöf eða leikskólakennarafræði og hérlendis er hlutfall karla af vinnuafli í umönnunarstörfum lægra en á hinum Norðurlöndunum. Af þessu má ljóst vera að staðalmyndir um karla og konur virðast enn ráða miklu um námsval ungmenna sem síðar hefur áhrif á starfsval og atvinnuþátttöku og hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir jafnrétti á vinnumarkaði, til dæmis hvað varðar launamyndun, möguleika einstaklinga á starfsframaþróun og kynbundinn launamun.

Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti launamunar kynjanna er innbyggður í hugarfar okkar og væntingar. Hefðir og félagsmótun geta leitt til þess að störf karla og karlastétta séu ofmetin en kvenna vanmetin. Vanmat á einkum við um kennslu- og umönnunarstörf og önnur störf sem áður voru unnin inni á heimilum. Þá byggist hið rótgróna viðhorf um að eðlilegt sé að karlar hafi hærri laun en konur á þeirri gömlu hefð að algengara var að karlar væru fyrirvinnur en konur. Þessi viðhorf eru ekki í samræmi við veruleika dagsins í dag og þau þarf að uppræta.

Mikilvægt er að huga að leiðum til að draga úr kynbundnu námsvali og kynjaskiptingu starfa. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um vinnumarkaðinn og er þar meðal annars vitnað í doktorsverkefni kynjafræðingsins Gyðu Margrétar Pétursdóttur þar sem vinnumenning og kynjatengsl innan ólíkra skipulagsheilda voru rannsökuð. Niðurstöður hennar styðja fyrri rannsóknir sem halda því fram að mikilvægt sé að skoða samfélagsleg og kynjuð valdatengsl þegar vinnustaðir, eða starfsstéttir þar sem annað kynið er í miklum meirihluta, eru skoðaðir. Rannsóknir sýna að fólki líður betur á blönduðum vinnustöðum þar sem ekki er litið á einstaklinga sem fulltrúa annars kynsins. Í störfum lögreglunnar, félagsráðgjafa eða hjúkrunarfræðinga, svo nefnd séu dæmi, er þjónusta við almenning ríkur þáttur starfsins og snertir því bæði karla og konur. Því er mikilvægt og í rauninni sjálfsögð krafa að sú þjónusta taki mið af báðum kynjum og að starfsumhverfið sé aðlaðandi vettvangur fyrir einstaklinga óháð kyni.

Markmið samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti er að eyða því óréttlæti sem birtist í þeim kynbundna launamun sem enn er til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Hér á eftir verður kynnt tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals sem í raun og veru er aðgerðaáætlun um hvernig ná megi fram launajafnrétti – hvernig tryggja megi að konum og körlum, sem starfa hjá sama atvinnurekenda, séu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Samfara þessu verkefni er nauðsynlegt að stjórnvöld hugi að verkefnum í hinu stóra samhengi jafnréttis- og vinnumarkaðsmála. Þar á ég annars vegar við verkefni sem snúa að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og hins vegar verkefni um uppbrot kynbundins náms- og starfsvals.

Ég hef falið aðgerðahópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti að vinna framkvæmdaáætlanir um hvort tveggja. Við gerð þeirra leggja stjórnvöld áherslu á að horft verði til fyrirmynda á hinum Norðurlöndunum og að samráð verði haft við menntastofnanir, fagfélög sem og stofnanir eins og Embætti ríkislögreglustjóra. Það embætti sýndi einmitt fyrir nokkru gott fordæmi með framkvæmd rannsóknar um kynjatengsl og vinnumenningu innan lögreglunnar þar sem ástæður fyrir fæð kvenna og brottfalli þeirra úr starfi innan lögreglunnar voru kannaðar. Niðurstöður rannsóknarinnar þóttu mér sláandi og hafði ég því þegar samband við ríkislögreglustjóra og óskaði sérstaklega eftir því að embættið tæki þátt í samráðsvettvangi sem ég hyggst koma á um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval sem aðgerðahópur um launajafnrétti mun hafa umsjón með.

Jafnréttisstarf snýst ekki eingöngu um bætta stöðu og aukin áhrif kvenna í samfélaginu.

Lengi hefur verið rætt um hvernig eigi annars vegar að auka þátttöku karla í umræðum um jafnréttismál og hins vegar hvernig við getum í auknum mæli beint sjónum að sértækum aðgerðum í þágu karla og drengja, til dæmis í skólastarfi. Í skýrslu minni er fjallað um tillögur sérstaks starfshóps um karla og jafnrétti. Tillögur hópsins miða að því að finna leiðir um hvernig víkka megi náms- og starfsval karla sem og annað hlutverkaval þeirra, vinna gegn staðalmyndum kynjanna og auka þátttöku karla í verkefnum fjölskyldunnar. Meðal annars er mælst til þess að gert verði átak til að efla hlut karla í umönnunarstörfum. Einnig var hugað að neikvæðum þáttum eins og áhættuhegðun, ofbeldi og sjálfsvígum. Starfshópurinn telur mikilvægt að efla rannsóknir á sviðum jafnréttismála, sérstaklega hvað varðar rannsóknir á vændi þar sem varpa þurfi ljósi á karla sem vændiskaupendur. Þá telur starfshópurinn að kanna verði þörf á námskeiði fyrir foreldra um afleiðingar skilnaða á börn. Slík námskeið hefðu það að markmiði að milda neikvæð áhrif skilnaða og styrkja markmið um jöfnun foreldraábyrgðar.

Ég fagna þessum tillögum og hef falið nýskipaðri verkefnisstjórn sem móta á fjölskyldustefnu til ársins 2020 að fjalla nánar um þær. Við mótun stefnunnar, sem unnin er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölskylduvænt samfélag, skal taka tillit til mismunandi fjölskyldugerða. Stefnt skal að því að tryggja félagslegan jöfnuð, að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað á grundvelli kynþáttar, fötlunar, trúarbragða eða kynhneigðar. Leitað verður leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar sem og öryggi í húsnæðismálum. Unnið verður að því að tryggja jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs og að jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna. Leggja þarf áherslu á að tryggja vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og vernd og stuðning vegna ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Mikilvægar rannsóknir hafa verið gerðar á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum á undanförnum árum. Við vissum að ofbeldi gegn konum væri staðreynd í öllum samfélögum en í dag erum við upplýstari um aðstæðurnar hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nýta okkur þær sláandi niðurstöður um umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og ofbeldis í nánum samböndum sem við höfum í höndunum. Nýta þær markvisst til að virkja sem flesta til að leggja hönd á plóg til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Okkur er tamt að kalla eftir aðgerðum stjórnvalda og fleiri úrræðum. Þau eru nauðsynleg en ég er jafnframt þeirrar skoðunar að ekki er síður þýðingarmikið að við gætum að viðhorfum okkar. Stundum eru það ekki síst viðhorfsbreytingar og breytt og bætt vinnubrögð þeirra sem koma að málum sem skila hvað mestum árangri. Lítum okkur nær og á nánasta umhverfi okkar – er þar eitthvað sem við sjálf getum gert til að koma í veg fyrir að ofbeldi eigi sér stað í skjóli heimila okkar og einkalífs.

Í haust var haldið málþing um aðgerðaáætlanir sveitarfélaga gegn heimilisofbeldi. Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur hefur meðal annars bent á að slíkar áætlanir geti breytt viðhorfum almennings og verið jafnframt verkfæri til að koma á skipulögðum umbótum og verkferlum þar sem áhersla er á að veita markvissari og betri þjónustu. Slíkt krefst jafnframt þverfaglegs samstarfs ólíkra aðila og hef ég því verið talsmaður þess að mikilvægt sé að skipa sérstakt ofbeldisvarnaráð. Ráðið hefði það hlutverk að tengja saman þá aðila sem koma að ofbeldismálum og hefði meðal annars það hlutverk að standa fyrir fræðslu, ráðstefnum, gerð fræðsluefnis og almennri vitundarvakningu um bætt samfélag án ofbeldis. Þetta er ekki ný hugmynd en ég mun beita mér fyrir því að hún verði loks að veruleika.

Góðir gestir.

Við höfum hér í höndunum mikilvægar upplýsingar um stöðu jafnréttismála á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Jafnréttismál eru ekki afmarkað svið og þau snerta líf okkar allra. Upplýsingar og þekking á stöðu mála eru sem fyrr sagði undirstaða þess að við getum haldið áfram að vinna að markmiðum opinberrar jafnréttisstefnu. Hún sýnir að margt hefur áunnist en dregur einnig fram að við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum. Þeim munum við mæta og halda áfram að byggja upp samfélag þar sem allir njóta jafnréttis í víðasta skilningi þess hugtaks og engin mismunun fær þrifist. Liður í aðgerðum gegn mismunun af öllu tagi er sérstök frumvörp um jafna meðferð einstaklinga sem ég mun leggja fram á Alþingi á næstunni. Með orðunum jafnréttismál í þeim frumvörpum er ekki einungis átt við jafna meðferð á grundvelli kyns heldur einnig jafna meðferð á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynhneigðar og kynvitundar. Útvíkkun jafnréttishugtaksins hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri og hér á dagskrá er málstofa þar sem sérfræðingar sem og fulltrúar stjórnsýslunnar, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka fjalla um efnið.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er hér áhugaverð dagskrá framundan og vona ég svo sannarlega að þið eigið eftir að eiga góðar og lærdómsríkar samræður um jafnréttismálin. Hlutverk þingsins er einmitt að efna til samræðna milli stjórnvalda og þjóðar um kynjajafnrétti og hér gefst öllum tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálaum.

Ég hlakka til að kynna mér það sem hér mun fara fram.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum